Pink Floyd, The Wall

 

 the wall

 Þegar Dúndurfréttir fluttu The Wall í Höllinni fyrr á þessu ári, ásamt Melabandinu, skrifaði ég eftirfarandi í prógram sem dreift var á staðnum. Þarsem ég er nokkuð viss um að allir bloggarar voru ekki á staðnum, birti ég þetta hérna....

Ég gleymi aldrei þeirri tilfinningu er ég opnaði jólapakkann frá móður minni á því herrans ári 1979 og tvöfalda hljómplatan The Wall með Pink Floyd kom í ljós. Síðan þá hef ég átt nokkur eintök af þessum gæðagrip, bæði vinyl og geisladiska. Og hvílík hljómplata!  maður lifandi! Aldrei áður hafði komið út slík hljómplata og ef út í það er farið ekki heldur síðar.

The Wall er ellefta plata bresku hljómsveitarinnar Pink Floyd. Og hún var reyndar tvöföld. The Wall var síðasta plata Pink Floyd sem Richard Wright hljómborðsleikari var á þar til hann snéri aftur árið 1987. Roger Waters bassaleikari, lagahöfundur og söngvari (og Íslandsvinur!) hafði hert tök sín á bandinu og var farinn að sýna einræðistilburði og það skapaði að sjálfsögðu mikla spennu innan hljómsveitarinnar.

Árið 1977 voru Pink Floyd að fylgja eftir plötunni Animals. Tónleikaferðin varð ekki neinn dans á rósum og félögunum leið ekki vel. Á síðustu tónleikunum í ferðinni og fram fóru í Montreal í Kanada var Waters að syngja lagið Pigs on the wing (Part 1) er einn tónleikagesta kveikti í flugeldi nálægt sviðinu. Waters hætti að syngja lagið og blótaði gerandanum bæði hátt og lengi. Hann bað einnig aðra áheyrendur vinsamlegast um að halda kjafti því hann væri að reyna að syngja! Síðan hélt hann áfram söng sínum en allt var á afturfótunum eftir þetta. Þegar kom að laginu Pigs (Three different ones) sá Waters einn gestanna klifra í neti sem skildi hljómsveitina frá áhorfendum. Waters hrækti í andlit hans en sá svo eftir öllu saman. Hann vildi fá öruggari "vegg" á milli hljómsveitarinnar og tónleikagesta. Hugmyndin að The Wall var fædd.

The Wall er svokölluð "concept" plata eða rokkópera eins og það hét einusinni. Sagan er um mann að nafni Pink sem átti ekki mjög ánægjulega æsku. Samfélagið fór illa með hann, hann var traðkaður í svaðið alveg frá því að hann fyrst leit dagsins ljós. Líktog Waters sjálfur missti Pink föður sinn í seinni heimsstyrjöldinni, kennararnir í skólanum lögðu hann í einelti og beittu hann ofbeldi. Þeir vildu móta hann og aðra nemendur eftir sínu höfði, einsog "samfélagið" vildi hafa þá. Móðir hans reyndi að vernda hann en í raun ofverndaði hún afkvæmi sitt.

Þetta reyndist Pink um megn og smám saman hvarf hann inn í sjálfan sig. Hann reisti "vegg" til þess að vernda sig frá umhverfinu. Hvert það mótlæti sem hann varð fyrir varð að enn einum múrsteininum í vegginn. Eftir að hafa reynt lengi, án árangurs að finna síðustu steinana í vegginn gerðist Pink rokkstjarna og giftist. Fljótlega gafst eiginkonan upp vegna þess hversu Pink var fjarrænn og leitaði í annað fang. Þá gat Pink klárað vegginn sinn. Pink gerðist æ dularfyllri innan veggja og smám saman missir hann vitið en er þvingaður til þess að taka þátt í lífinu utan veggja vegna lífstíls hans sem rokktónlistarmaður. Pink heldur að hann sé fasískur einræðisherra og lætur rétta yfir sér. The Trial er einhver magnaðasti hluti verksins og verður fróðlegt að heyra Dúndurfréttir og Sinfóníuhljómsveit Íslands flytja það. The Wall lýkur á þessum undarlega texta:

All alone, or in two's,
The ones who really love you
Walk up and down outside the wall.
Some hand in hand
And some gathered together in bands.
The bleeding hearts and artists
Make their stand.

And when they've given you their all
Some stagger and fall, after all it's not easy
Banging your heart against some mad bugger's wall.

"Isn't this where...."

en platan sjálf hefst á þessum orðum: "...we came in?" Er rokkstjarnan Pink komin á byrjunarreitinn aftur?

Árið 1999 hafði platan selst í yfir 30 milljón eintökum og eitthvað hefur selst síðan! Engin tvöföld plata hefur selst í slíkum mæli. The Wall var í fimmtán vikur í efsta sæti bandaríska Billboard listans.

Einsog áður sagði hafði Roger Waters í raun sölsað hljómsveitina undir sig. Þó á snillingurinn David Gilmour sína spretti. Hið magnaða Comfortably numb er að miklu leiti hans smíð og hann syngur einnig mikið. Nick Mason er trommari Pink Floyd. En, The Wall varð í raun upphafið að endalokum Pink Floyd einsog heimurinn hafði þekkt hljómsveitina. Richard Wright var rekinn, og Roger Waters reyndi síðar að leggja bandið niður, en það er allt önnur saga.

Lítið hefur verið fjallað hér um tónlistina í The Wall. Aðrir menn eru hæfari til þess, en ég leyfi mér að fullyrða svona í lokin að enginn önnur hljómsveit, íslensk eða erlend, gæti flutt The Wall betur en Dúndurfréttir, nema ef vera skyldi Pink Floyd, með alla fjóra innanborðs. Og ekki skemmir að Melabandið kann líka að rokka....


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Takk Guðni fyrir þennan frábæra og fróðlega pistil. Ég elska þessa tónlist

Var á tónleikunum í Höllinni í sumar og þeir voru frábærir! Fór reyndar með ekki rétta fólkinu, gerði mistök þar, hefði átt að fara frekar ein og hefði þá notið mín betur. Bloggaði aðeins um hughrifin daginn eftir...

http://martasmarta.blog.is/blog/leshringur/entry/252084/

Ég flutti til Svíþjóðar árið (1979) sem platan kom út og fyrstu mánuðina var hún einfaldlega alltaf undir nálinni, á hverjum degi þegar ég kom heim byrjaði ég á að setja upp gott sterkt sænskt kaffi og spila þessa æðislegu tónlist - hátt, og njóta vel. Hvíla hugann eftir daginn og fá smá útrás í gegnum tónlistina.

Marta B Helgadóttir, 25.10.2007 kl. 01:49

2 Smámynd: Guðni Már Henningsson

Takk fyrir kæru vinkonur...þetta er mögnuð plata!!

Guðni Már Henningsson, 26.10.2007 kl. 01:00

3 Smámynd: Ágúst Böðvarsson

Æi.... Ég hélt á henni lengi velí perlunni í gær, en hætti svo við að kaupa hana. Á hana reyndar á mp3 skrám sem ég ætlaði að láta duga, en sándar ekki alveg nógu vel og svo á ég reyndar myndina og svo Berlínar gjörninginn hans Waters. Núna eftir þennan lestur iðrast ég þess að hafa skilað plötunni á sinn stað í perlunni. Kannski ég skreppi í perluna á morgunn

Ágúst Böðvarsson, 27.10.2007 kl. 23:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband