Lars Demian... hér sænskur maður sem er í hæsta gæðaflokki...

...frábært skáld og fínn lagasmiður. Ef þið þekki hann ekki, kynnið ykkur hann.

David Byrne & Brian Eno

Þetta er eitt það flottasta sem ég hef heyrt undanfarið....


Ský

  ský í ljósheimum

Hér er eitthvað sem alls ekki passar

einsog flatbotna skór með reimum

einsog fölir framsettir rassar

og feikn af skýjum í Ljósheimum.

 

Ég  finn að fjöldann hér vantar

af fallegum marglitum geimum

en þjónninn af þjórurum pantar

þrefaldann í Ljósheimum.

 

Hún er falleg fegurðin sem sést ei

og forustusauðina við teimum

öll jáin sem við áttum verða eitt nei

og enn er skýjað í Ljósheimum.

 

Sauðirnir eru svartir í framan

og svolgra vín sem við eimum

brátt verður græskulaust gaman

í grámyglu í Ljósheimum.

 

Í kór með allskonar kisum

við kyrjum mjálmum og breimum

með dvergum og dálitlum risum

og það dimmir í Ljósheimum.

 

Og efalaust eru einhverjir að tala

með útlenskum aflóga hreimum

um sumarnótt og norðlægan svala

og um skýjafar í Ljósheimum


Bob Marley

Þvílík dásemdar tónlist......

Stríð og friður

stríð og friður

Ég ráfa um í regninu allt er yfirmáta blautt

ég reyni að skoða huga minn en þar er allt tómt og autt

það er líkt og stríð eða jafnvel friður strunsi með mér

með stráhatt á höfði í stuttbuxum og sólgleraugu á sér

 

Hér áður fyrr var fjörðurinn galsafenginn og jafnvel tær

nú finnst hvorki alda né yfirleitt nokkur sær

grjótið er bert og allt er grátt hvert sem litið er

og gráminn er kanski mestur við hliðina á mér

 

Fjöllin voru há og furur alla leið uppá tind

en fúaspítur aftra nú för að lífsins lind

brekkan sem var brött er nú rústir og flatneskjan ein

og bráðum mun ég koma þó klukkan sé orðin sein

 

það er líkt og stríð eða jafnvel friður strunsi með mér

með stráhatt á höfði og heila fjölskyldu með sér

 

Ég er klæddur í klafa sem eittsinn var splunkunýr

ég klæmist og ég bölva einsog Óðinn eða jafnvel Týr

það er sama hvort ég þegi eða þakka fyrir ekki neitt

ég þramma bara áfram útí allt eða barasta eitt

 

það er líkt og stríð eða jafnvel friður strunsi með mér

með stráhatt á höfði og heila fjölskyldu með sér

 

Og þið sem eittsinn góluðuð um gjörningaveðrið hér

gasprið um það eitt sem fyrir augu ykkar ber

haldið ykkur á mottu sem flýgur um mánann blá

því á morgun verður hvorki aftur né áðan, hér eða þá.

 

það er líkt og stríð eða jafnvel friður strunsi með mér

með stráhatt á höfði og heila fjölskyldu með sér

 


Sara


Á föstudaginn langa.

 

Kristur

Ég kveiki á kertum mínum
við krossins helga tré.
Í öllum sálmum sínum
hinn seki beygir kné.
Ég villtist oft af vegi.
Ég vakti oft og bað.
Nú hallar helgum degi
á Hausaskeljastað.

Í gegnum móðu' og mistur
ég mikil undur sé.
Ég sé þig koma, Kristur,
með krossins þunga tré.
Af enni daggir drjúpa,
og dýrð úr augum skín.
Á klettinn vil ég krjúpa
og kyssa sporin þín.

Þín braut er þyrnum þakin,
hver þyrnir falskur koss.
Ég sé þig negldan nakinn
sem níðing upp á kross.
Ég sé þig hæddan hanga
á Hausaskeljastað.-
Þann lausnardaginn langa
var líf þitt fullkomnað.

Ég bíð, uns birtir yfir
og bjarminn roðar tind.
Hvert barn, hvert ljóð, sem lifir,
skal lúta krossins mynd.
Hann var og verður kysstur.
Hann vermir kalda sál.
Þitt líf og kvalir, Kristur,
er krossins þögla mál.

Þú ert hinn góði gestur
og guð á meðal vor, -
og sá er bróðir bestur,
sem blessar öll þín spor
og hvorki silfri safnar
né sverð í höndum ber,
en öllu illu hafnar
og aðeins fylgir þér.

Þú einn vilt alla styðja
og öllum sýna tryggð.
Þú einn vilt alla biðja
og öllum kenna dyggð.
Þú einn vilt alla hvíla
og öllum veita lið.
Þú einn vilt öllum skýla
og öllum gefa grið.

Að kofa og konungshöllum
þú kemur einn á ferð.
Þú grætur yfir öllum
og allra syndir berð.
Þú veist er veikir kalla
á vin að leiða sig.
Þú sérð og elskar alla,
þó allir svíki þig.

Ég fell að fótum þínum
og faðma lífsins tré.
Með innri augum mínum
ég undur mikil sé.
Þú stýrir vorsins veldi
og verndar hverja rós.
Frá þínum ástareldi
fá allir heimar ljós.


Davíð Stefánsson
Guðrún Böðvarsdóttir


Og árin líða.

 rautt hár

Ég vakna við hlið þér

á hverjum morgni

og árin líða.....

 

ég sé þig daglega

greiða rauða hárið þitt

og árin líða......

 

ég loka bókinni um lífið

hvert kvöld

og árin líða......

 

ég yfirgef þig daglega

en kalla á þig öll kvöld

og árin líða....

 

ég vildi að þú

værir hér

og mínúturnar líða....

 

Góða nótt ástin mín.


Myndir

 mynd

Ég stari á þig af málverki inní stofu
með stjörfum augum engu lík
það hríslast um mig þar sem ég hangi
og ég held að ópið sé eftir Grieg.

Á þessari brú í bláma kvöldsins
hef ég beðið eftir svari frá þér
með angist í augum í kæfðu ópi
ertu nú loks að fara frá mér?

Er það Erró eða Pablo Picasso
eða plaggat af Rolling Stones
Kjarval eða Flóki eða Vincent eða Monet
ég vil ekki hanga til eilífðarnóns

Í stjörnubjartri nótt ég birtist á ný
og brosi dálítið fjarstæðukennt
í nótt er ég glaður í skærgulum litum
og gæli við þig og eyra Vincent

Ég er skærasta stjarnan á himni háum
og hér vil ég dvelja alla tíð
í undarlegum litum frá einmana manni
sem í eiginn ranni háði sitt stríð

Er það Erró eða Pablo Picasso
eða plaggat af Rolling Stones
Kjarval eða Flóki eða Vincent eða Monet
ég vil ekki hanga til eilífðarnóns


Ég er frosið augnablik á málaðri mynd
og með mér hinir og þessir
ég er sól og tungl og fuglar og fólk
og fjara þegar það hvessir

Ég er einn og ég er með öllum hinum
og stundum ég fyrirfinnst hvergi
ég hangi á göngum og í gylltum sölum
eða er geymdur inná hótelherbergi

Er það Erró eða Pablo Picasso
eða plaggat af Rolling Stones
Kjarval eða Flóki eða Vincent eða Monet
ég vil ekki hanga til eilífðarnóns




Komdu í kvöld.

 kalt kvöld

  

Ég dragnast áfram með drunga svip

og dreyrinn snjóinn litar

ég held enn um hjartað en hef ekkert grip

og einungis finnast þar litlir bitar

en líf mitt kom seint í kvöld

á þessari kaldlyndu öld

 

En skaflana ég skelfist og hræðist mjög

og ég skelf á beinum og taugum

í einslitum heimi ráða alþjóðalög

og ekkert er hulið þeirra augum

sem komu með líf mitt í kvöld

á þessa kaldlyndu öld

 

Ég er einn með mörgum í morgunsári

og á mig kuldinn bítur

ég lagði af stað á þessu líknarári

og lofgjörð enga sá hlýtur

sem kom með líf mitt í kvöld

á þessari kaldlyndu öld

 

Og áfram ég dragnast með draugasvip

og dreg á eftir mér línu

sem eittsinn var brugðið um björgunarskip

sem bar mig frá kuli og pínu

sem kom inn í líf mitt í kvöld

á þessari kaldlyndu öld

 

Hvert ég fer og ef ferðinni ég ræð

og hvað ég finn það veit ég eigi

en ef dalir og dyngjur eru í augnahæð

þá dárum þeim ég fleygi

sem komu inn í líf mitt í kvöld

með þessa kaldlyndu öld.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband