Band on the run

band on the run 

Á árinu 1973 var það ljóst að Paul McCartney ætlaði að feta þann sama breiða veg og The Beatles höfðu troðið þau ár sem sú hljómsveit lifði.

Það er, að gefa út hljómplötur með stuttu millibili. Í desember 1973 kom Band on the run út, þremur og hálfu ári eftir að síðasta bítlaplatan hafði komið út. Þetta var fimmta platan með Paul frá þeim tíma og sú þriðja með The Wings. Þannig að afköstin voru gífurleg. Ekki nóg með að stóru plöturnar hafi nánast verið framleiddar á færibandi, heldur komu einnig smáskífur sem ekki var að finna á stóru plötunum. Einnig tóku þeir upp fjöldan allan af lögum sem hafa ekki komið út, fóru í þrjár hljómleikaferðir á skemmri tíma en tveimur árum, gerðu sjónvarpsþátt, tóku upp myndbönd, og fóru í frí. Allt þetta á meðan að Paul og konan hans, Linda McCartney voru að ala upp börnin sín ung. Og útfrá þessu og svo mörgu öðru sem við komum að síðar, var Band on the run plata sem hefði alls ekki átt að gera sig.

Allar aðstæður í kringum gerð þessarar plötu voru semsagt slíkar að platan hefði átt að verða vond. Samt sem áður varð Band on the run sönnun þess að listin getur sigrast á öllum kringumstæðum, sem voru raunar þannig að það var líktog einhver hexa væri fljúgandi á sínu priki yfir öllu, bölsótandi vitlaus og fúl. Platan seldist í milljóna upplagi og Paul McCartney komst aftur á þann stall sem hann á að vera á. Jafnvel John Lennon sagði að Band on the run væri frábær plata. Og Lennon og McCartney voru ekki bestu vinir aðal á þessum tíma.

Jet var einn af Labrador hvolpum McCartneys og því annað lagið sem Paul samdi þarsem hundar hans koma við sögu. Hið fyrra var Martha my dear af hvíta albúmi Bítlanna.

Wings ferðuðust um Bretlandseyjar um vorið og sumarið 1973 til að fylgja eftir plötunni sinni Red Rose Speedway og smáskífunni My love. Þetta var fyrsta ferð Wings um heimaslóðir sem þarsem almenningur átti þess kost að sjá þá. Áður hafði McCartney og hinir nýju spilafélagar hans troðið sér inní sendibíl, ekið uppað hinum og þessum háskólum og boðist til að spila fyrir fimmtíukall á haus. En þessi túr 1973 var hefðbundnari, þeir spiluðu í fimmtán leikhúsum í maí og svo aftur í júlí tilað fylgja eftir smáskífunni, Live and let die úr samnefndri James Bond mynd. Sem skemmtilega á óvart náði sæti 007 hjá New Musical Express. Eftir þetta allt saman fóru þau hjón Paul og Linda heim til Skotlands og stuttu eftir heimkomuna hófu þau í sameiningu að semja efni sem síðar áttí eftir að vera uppistaðan í Band on the run.

Eins og ávallt fengu þau hjón innspýtingu og áhrif úr ýmsum áttum. Þó Band on the run sé að mestu tekin upp utan Englands, eru textarnir að miklu leyti breskir. Það er með skírskotanir til þess sem breskt má kalla, pint af öli, súfragettur og annað slíkt. Þau áttu meiraðsegja Land Rover sem gekk undir nafninu Helen Wheels og eitt lagið heitir einmitt eftir þessu torfærutrölli. En hið alþjóðlega samfélag var einnig til staðar. Þau hjónakorn ortu um eyðimörkina, sveitadómarann bandaríska, Wasingthon og Vanderbilt.

Paul hafði tekið plötuna sína McCartney upp að mestu leiti heima hjá sér í Skotlandi og í London, Ram hljóðritaði hann í New York og Los Angeles en þetta voru eiginlega undantekningar. Abbey Road studíóið í eigu EMI var hans heimavöllur, allt frá Bítlatímum. En þar sem EMI var alþjóðlegt fyrirtæki átti það hljóðver í hinum og þessum heimshornum. Paul vildi taka upp svo hann spurði þá stóru kalla hjá EMI hvar Wings gætu tekið upp nýja plötu og honum var bent á   meðal annara borga, Bombay, Rio De Janeiro, Peking og Lagos í Nigeríu.    Lagos,  Paul sá fyrir sér letilíf, hitabeltisdaga sem myndu líða áfram sem  draumur, við  trumbuslátt innfæddra á ströndinni og upptökur að nóttu til. En einsog hann sagði síðar, It didn´t turn out quite like that, en sú varð ekki raunin. Það sem þau McCartney hjón vissu ekki var að við völd var herforingjastjórn, byssuglöð mjög, og að það fyrsta sem mætti þeim á flugvellinum yrðu hermenn   með alvæpni. Þó að Nigería væri hluti af Breska samveldinu  var  lífsstandardinn þar mjög ólíkur því sem gerðist heima á Englandi. Frárennslið, sem dæmi var í opnum skurðum og það jafnvel inní höfuðborginni sjálfri, Lagos. Einnig að fátt eitt gekk upp án þess að lauma seeðlabúntum í rétta lófa sem gátu síðan kippt í þræði. Einnig þurftu þau að fá þó nokkuð margar sprautur gegn hinu og þessu áður en óhætt yrði að fara til Nigeríu.

Það var semsagt ákveðið að taka plötuna upp í Lagos höfuðborg Nígeríu. Viku áður en það átti að leggja í hann, buðu McCartney hjónin hinum meðlimunum í Wings til sín til Skotlands þarsem ætlunin var að renna í gegnum lögin sem samin höfðu verið. Meðlimirnir voru þeir Danny Laine, Henry McCullough og Denny Seiwell. Það var vitað að samkomulagið var ekki upp á það besta. Sögusagnir höfðu verið  uppi um það á tónleikaferðalaginu fyrr á árinu að Henry McCullough sólógítarleikari hygðist yfirgefa bandið. Í Skotlandi þrefuðu þeir, Paul og hann um eitthvert gítarsóló og Henry gekk á dyr, fann sér síma, hringdi og sagðist vera hættur. Daginn áður en lagt skyldi af stað hringdi svo trommarinn, Denny Seiwell og sagðist einnig vera hættur. Þá voru eftir McCarney hjónin og Denny Laine. Paul sagðist nú hafa unnið áður án þessara manna og að hann gæti það svosem aftur. Hann hafði trommað sjálfur á plötunni McCartney og nokkrum sinnum á tónleikum og nú væri bara að finna kjuðana á ný. Saman gætu þeir Denny Laine og hann tekið þau gítarsóló sem þyrfti að taka.

Mamunia er eitt af lögunum af Band on the run. Nafnið sá hann á skilti utan á húsi í Marrakesh. Nafnið þýðir Öruggur garður eða eitthvað þá áttina. Paul hafði beðið Geoff Emerick að stjórna tólum og tækjum þegar platan skyldi upptekin. Þeir höfðu verið vinir í nokkur ár og Emerick hafði hjálpað við að skapa ekki ómerkari plötur en Revolver, Sgt. Peppers of Abbey Road. Þannig að þar var meistari á ferð. En samt sem áður var Emerick ekki undir það búinn að vinna í Lagos.  Mixerinn var bilaður í stúdíóinu og það var einungis eitt segulband á staðnum, átta rása Studer tæki, sem áður hafði verið notað í Abbey Road í Lundúnum. Einnig voru skilrúm í hljóðverinu fá og smá og hljóðnemar fundust eftir langa leit inní kústaskáp. Öryggisgæsla var engin og menn skruppu inn fyrir tilað fá eiginhandaráritun hjá MacCartney og félögum.

Fljótlega komst þó regla á hlutina. Paul vildi fara að synda á hverjum morgni og til að svo gæti orðið varð hann að gerast félagi í sundklúbbi nokkrum í Lagos. Til þess að svo gæti orðið bað formaður félagsins hann að árita mynd af Bítlunum sem hékk upp í sundhöllinni. Þarna var morgnunum venjulega eytt og um klukkan þrjú var haldið í hljóðverið og unnið þar til miðnættis eða svo. Ekki var unnið um helgar, aðallega vegna túrhesta sem vildu skoða hljóðverið. Hljóðversvinnan fór oftast þannig fram að Paul spilaði á trommurnar og Denny Laine á ryþmagítarinn til að búa til grunninn í byrjun. Síðan bættist hljómborðsleiku Lindu við og bassaleikur Pauls og lögin fóru að taka á sig mynd. Paul spilaði flest gítarsólóin og það að missa tvo   meðlimi áður en upptökur hófust hafði einungis þau áhrif að hinir þrír meðlimirnir stóðu þéttar saman.

Picassos last words, Drink to me. Það varð til að tilstuðlan þess fræga leikara, Dustin Hoffmans. Eitsinn bað hann Paul McCaartney að semja lag þar sem þeir sátu og spjölluðu saman. Dustin rétti Paul eintak af Time Magazine og benti á grein með yfirskriftinni, Pablo Picassos Last Days and Final Journey og Paul samdi lagið á staðnum.

Sjálfur Ginger Baker spilaði á ásláttarhljóðfæri í þessu lagi en hann hafði áður gert garðinn frægan með Cream. Ginger Baker hafði flust frá Englandi til Nígeríu nokkru áður og opnað þar hljóðver. Baker vildi að McCartney tæki upp alla plötuna hjá sér og til að halda friðinn tók Paul þar upp eitt lag.  Um miðjan september 1973 var upptökum lokið og allir meira en viljugir í að halda heim á leið. Þann 23.var lent á Gatwick flugvellinum í Lundúnum og tveimur vikum seinna var haldið í AIR hljóðverið sem George Martin á og strengir teknir upp. Toni Visconti samdi strengi og annað og útsetti, þar á meðal saxófóninn í Jet og brassið í No Words. Það vildi einnig svo til að hann var giftur  Mary Hopkin sem Bítlarnir höfðu gefið út á árum áður.

Platan kom út í Desember og náði fyrsta sætinu bæði í Bandaríkjunum og í Englandi. Í Bandaríkjunum var hún 116 vikur á lista og 124 vikur á þeim enska. Hún fór í gullsölu á tólf dögum vestra og var kosinn plata ársins í flestum löndum og af flestum tímaritum. Hún varð einnig fyrsta plata MacCartneys til að vera gefinn út í Sovétríkjunum sálugu


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gulli litli

Mikið asskoti veist þú mikið um þetta!!!!!

Gulli litli, 9.11.2007 kl. 22:34

2 Smámynd: Guðni Már Henningsson

Ég vinn við þetta

Guðni Már Henningsson, 9.11.2007 kl. 22:56

3 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Fróðlegur og skemmtilegur pistill. Takk

Marta B Helgadóttir, 9.11.2007 kl. 23:05

4 Smámynd: Einar Bragi Bragason.

og hrikaleg er þetta góð plata.....verð að eignast hana aftur

Einar Bragi Bragason., 10.11.2007 kl. 00:06

5 Smámynd: Guðrún Jóhannesdóttir

alltaf góður Guðni

Guðrún Jóhannesdóttir, 10.11.2007 kl. 23:21

6 identicon

Sætabrauð !

Átt þú tvöföldu 25 ára afmælisútgáfuna af Band on the Run, með aukadiskinum þar sem Paul og Linda og fleiri segja frá ? Ég á, þú mátt fá..

Lana Kolbrún Eddudóttir (IP-tala skráð) 13.11.2007 kl. 13:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband