Leonard Cohen á afmæli í dag

cohenÞessi mikli meistari pennans er 73 ára í dag. Það er nýbúið að endurútgefa hans þrjár fyrstu plötur og er hljómurinn á þeim alveg einstakur..fyrir utan aukalögin sem fylgja..hér er frétt sem birtist á heimasíðu Popplandsins: Til að fagna fjörtíu ára afmæli fyrstu plötu Leonard Cohens hefur verið ákveðið að endurútgefa flestar ef ekki allar hans plötur og þá með aukaefni. Fyrstu þrjár plöturnar, Songs Of Leonard Cohen, Songs From A Room og Songs Of Love And Hate koma út 24 apríl. Á fyrstu plötunni verða tvö aukalög; Store Room og Blessed Is the Memory, á annari verða einnig tvö aukalög; Like a Bird (eldri upptaka af Bird on the Wire) og Nothing to One (eldri útgáfa af You Know Who I Am); á þeirri þriðju verður eitt aukalag; Dress Rehearsal Rag (upptaka frá annari plötunni. Plöturnar verða í pappahulstrum og Anthony DeCurtis ritsjóri Rolling Stone fylgir þeim úr hlaði. Næstu þrjár plötur; New Skin for The Old Ceremony, Death of A Ladies Man og Recent Songs koma út í september og Various Positions, I'm Your Man og The Future koma svo í febrúar 2008.

Kvæði um Guð og menn.

 guð og menn

Förum aftur fáein ár
já, fimm til tíu upp á hár
er himininn var grár og að velli hniginn
ég sé það núna enn á ný
að ekkert hylur gullið ský
og hvar er hann nú himnastiginn.

Ég sökk í gljúpan gróandann
og greip í mjúka talandann
og þannig skal ég lofa þig meðan lifi
en alltaf skulu óttast þeir
sem aldrei geta gefið meir
en hlæja hátt þó klukkan sífellt tifi.

Þú munt lengja lífdaga
og láta verða margsaga
alla þá er áttu rétt á hljóði
því skýin skulu vernda mig
ég skelfist ekkert, ég á þig
og saga mín er sögð í þessu ljóði.

Lát mig gista´ að Götu í nótt
og gráta þartil allt er hljótt
því lygarans munni mun brátt verða lokað
strætið verður svæfill minn
stundum get ég verið hinn
eða þeir sem eittsinn var yfir mokað.

En Guð minn nú get ég ei
greint í sundur já og nei
en allavega ert þú það sem ég þrái
ég er maður til mikils vís
ég missi ekki af Paradís
því þú svarar öllum mínum spurnum með jái.

Mig dreymdi draum í nótt sem leið
um drauga sem ég átti´ um skeið
ég lokaði öllum dyrum og dró fyrir gluggann
ég leit í gegnum lófa minn
og lagðist bakvið steininn þinn
þrjár konur þögðu allar uppvið skuggann.

Þær sáu ekki er ég smaug út
þær smyrja vildu mig með klút
en ég var frír og á burtu floginn
nú loksins alltaf lifir hann
og lýsir fyrir konu og mann
því tendraður er hann lífsins loginn.

Ætli ég vakni enn á ný
ef aftur verður sólin hlý
eða erum við enn fyrir átta árum?
Ég hegg nú loksins á minn hnút
héðan liggur leiðin út
er harmur minn hulinn gleðitárum?

Nú hallar helgum degi skjótt
ég held að mér sé orðið rótt
ég veit það ert þú sem eftir mér sendir
nú legg ég aftur augun þreytt
því ekkert hér mig getur meitt
og bráðum kemur byrjun þó hér sé endir.



Átti að sjóða galdrasúpu?

snákasúpaÞað sem mér fannst kanski undarlegast við þessa frétt var það að aðeins einn fugl var í farangrinum ásamt 30 snákum. Reyndar einnig leifar af fuglum. Allt dótið var dautt og því í raun ekkert annað en leifar! En eftir að hafa hugsað málið fram og aftur var það auðvitað eðlilegt að aðeins einn fugl var í farteskinu ásamt leifum. Ég er nefnilega nokkuð viss um að maðurinn hafi ætlað sér að sjóða seyði  úr þessum leifum því ég kann nefnilega eina uppskrift sem passar við þetta. Hún er svona

30 stk dauðir snákar, gróft saxaðir og látnir liggja í sjávarsalti í viku.

1 stk dauður fugl (best ef það væri Suður Kóreaskur páfugl) má vera lundi en alls ekki mávur

1 flaska edik

1 - 2 kartöflur, soðnar í potti ásamt leifum af tveimur ristuðum fuglum

1 kg spaghetti ósoðið

2 ópalpkkar bláir

humarskeljar eftir smekk

3 lítrar af ákavíti.

 

Hráefnið er allt sett í stóran pott (nema ákavítið) og soðið í umþaðbil 2 vikur 3 daga og 2 mínútur, við vægan hita. Öllu síðan skellt í matvinnsluvél og maukað vel. Sett síðan aftur í pottinn og bætt við þremur lítrum af vatni og soðið síðan í umþaðbil 2 vikur 3 daga og 1 mínútu. Takið þá pottinn af og hellið ákavítinu saman við en áður hefur verið blandað í það þremur vikum fyrr ís með dýfu, helst frá Brynju á Akureyri. Borið fram með ferskum rabbabara.

 Ég er nokkuð viss um að þessi meinti súpugerðarmaður hefur þekkt þessa uppskrift.


mbl.is Á ferð og flugi með 30 snáka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver er besta Dylan platan?

bob 3Bob Dylan er að mínu mati merkasti tónlistarmaður samtímans. Allir sem halda upp á kappann eiga sína uppáhaldsplötu. Ég set hér með af stað örlitla skoðanakönnun, Hver er besta Dylan platan? Því er hægt að svara hérna fyrir neðan.

Grípum til aðgerða!

unicefÉg ætla að leyfa mér að birta hérna fréttatilkynningu frá UNICEF;

 Við ætlum að halda tónleika til styrktar Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna miðvikudaginn 19. september 2007 í Listasafni Reykjavíkur. Tónleikarnir bera yfirskriftina: Hausttónleikar ÍTR og UNICEF: Grípum til aðgerða!  Þær hljómsveitir sem fram koma og gefa vinnu sína eru: Jeff Who, Reykjavík, Skakkamanage, Grrrrr, Soundspell og Retro Stefson. Tónleikarnir hefjast kl. 18:30 og þeim lýkur 21:30. Húsið opnar kl. 18.00. Miðasalan hefur farið vel af stað í öllum félagsmiðstöðvum ÍTR, en aðgangseyrir er 1500 krónur. Einnig er hægt að kaupa miða í Hinu húsinu og á skrifstofu UNICEF. Rútuferðir verða í boði milli félagsmiðstöðva og Listasafns Reykjavíkur bæði fyrir og eftir tónleika. Tónleikunum verður útvarpað beint af Rás 2. 


Af því að nóttin er framundan...

Guðs kvöld   

Vernda Drottinn barnið mitt blítt

er burtu siglir dagur

kvöldið það kemur og allt verður nýtt

og kvöldsins draumur svo fagur.

 

Gættu þess Drottinn í draumanna heimi

og dragðu ský frá sólu

í þinni ást ég barnið mitt geymi

í angan frá rósum og fjólu.

 

Vernda það Drottinn frá veraldar angri

og  vefðu það örmum þínum

alla þess æfi í vegferð svo langri

og í öllum draumunum sínum.

 

Vernda Drottinn barnið mitt blítt

er bjartur kemur dagur

þó stundum virðist gatan svo grýtt

er Guðs faðmur opinn og fagur.

 

 


Ég er hættur að reykja....

öskubakki.... eða réttara sagt, byrjaður að reykja ekki. Það er sunnudagur og bráðum verða liðnir TVEIR sólarhringar frá því að ég drap í síðasta vindlinum mínu. Og mikið skelfing öskra drýslarnir á nikótín! Þetta er drulluerfitt og þess vegna er ég að skrifa um þetta. Ég ER hættur að reykja...ég ER hættur að reykja. Ég tek einn dag í einu...einn klukkutíma í einu....eina mínútu í einu... Ég reykti smávindla og það kostaði mig næstum þúsund kall á dag...ímyndið ykkur það....365 þúsund á ári...sinnum fjörtíu ár!!!! Ég ætla ekki að reikna það út.. Þori það ekki...mér yrði illt í öllum skrokknum og sálinni en kanski mest í veskinu...sem er þó ekki burðugt fyrir. En, ég ER hættur að reykja! Ég ætla ekki að styðja lengur þessi stórgróða fyrirtæki sem eru að drepa milljónir.. en ég verð samt í einhvern tíma að styðja nikótin tyggjó fyrirtækin....sem sígarettuframleiðendurnir eiga efalaust!! En ég ætla ekki að styðja þau lengi. Ég ber ábyrgð á ást minni. Ég vil ekki fóðra krabbameinsfrumur..ég vil heldur vera sem lengst hjá þeim sem ég elska. Og ég elska. En þetta er samt erfitt... Ég set dæmið stundum þannig upp að ég spyr mig einnar spurningar; Hvort viltu fá þér einn vindil eða bæta ári við samveruna við Katrínu dóttur mína eða konuna sem ég elska? Svarið er einfalt...ég VIL fá mér vindil!! Djók!! Auðvitað vil ég eiga fleiri stundir með þeim sem ég elska. Þessi skrif mín eru mér mikilvæg. Ég læt alla þá vita sem koma hingað á bloggið mitt hvað er í gangi. Níkotinandinn er lúmskur og grípur til allra ráða til að lifa sem bestu lífi í líkama mínum. Ég er búinn að gera hann brottrækann og þetta eina musteri sem ég á er ekki lengur hans. Og ég sakna hans ekki. EKKI. Ég á fleiri stundir framundan með dóttur minni, konunni sem ég elska og öllum ástvinum mínum. Guðni Már Henningsson er hættur að reykja.

Víkingar! Nú er að duga.....

víkingurVið ætlum að fá sem flesta til að koma til Keflavíkur til að styðja við bakið á liðinu á sunnudaginn 16. september.  En þá mætir Víkingur Keflavík í Landsbankadeild karla.

Hérna er dagskráin:

Boðið er upp á fríar rútur sem að leggja af stað frá Víkinni kl 14:30Boðið er upp á grillaðar pylsur frá kl 13:30

Þeir sem að mæta í rúturnar fá frítt á leikinn.

Leikurinn hefst kl. 16:00Fólk er hvatt til þess að koma í Víkingstreyju eða í rauðuMÆTUM Á VÖLLINN OG KVETJUM STRÁKANA!!!

Vatnsveður?

rigningVatnsveður í Vestmannaeyjum! Mér skilst á frétt Moggans að mikil rigning hafi verið í Eyjum í gær. Úrhelli, steypiregn.....vatnsveður... er þá von á stormveðri í dag, var rokveður um daginn? Má búast við miklu frostveðri í vetur eða verður látlaust snjóveður? Núna, hér fyrir utan gluggann er sólveður með þremur metrum á sekúndu veður.. Ég vildi að það væri lognveður!!!
mbl.is Mikið vatnsveður í Vestmannaeyjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Strjúktu hendi

 Guðs auga

 

Strjúktu heitri hendi þinni

yfir fjöllin sjö

yljaðu grjótinu og giljunum

 

ég dansa Guð minn

yfir frostpollana

 

sjáðu kalt landið

heyrðu lóusönginn

 

ég syng síðan

sönginn okkar

og það mun bergmála

í fjöllunum sjö

allt til sjöstjörnunnar

 

og frostið í augunum

brunar svo loks

á vetrarbraut

 

til þín meistari minn

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband