So með Peter Gabriel

so

Sem höfuðpaurinn í Genesis á áttunda áratuginum hjálpaði Peter Gabriel framsæknu rokki í átt að, hvað getum við sagt, leikhúslegri tónlist. Á fyrstu sólóplötu sinni sem kom út 1977 fór hann inná myrkari og erfiðari  brautir. Hann fór að gera tilraunir með Avant-garde, electróníska tónlist og heimstónlistarbít. Hann hlaut mikið lof fyrir fjórar fyrstu plöturnar sínar sem allar báru nafnið Peter Gabriel og innihéldu allt þetta sem upp var talið hér að framan. Hann átti sér talsverðan hóp aðdáenda en var samt ekki í hópi með skærustu stjörnum rokksins. Það var ekki fyrr en platan So kom út að Peter Gabriel öðlaðist alheimsviðurkenningu.

Um sama leiti og Gabriel hóf sína einherjamennsku kom hann á fót tónleikum þarsem hann hóaði saman heimstónlistarfólki tilað kynna það fyrir vesturlandabúum. Þetta varð að árlegum viðburði og er venjulega kallað WOMAD, World   of music, arts and dance. Á meðan Gabriel vann að sinni fimmtu plötu samdi hann einnig tónlist við kvikmyndina frábæru, Birdy. Fyrir það fékk hann mikið lof og einnig Grammy verðlaun. Hann stofnaði einnig útgáfufyrirtækið Real World til þess að brúa bilið á milli tækni og tónlistar. 1985 lauk hann við sína fimmtu plötu sem hlaut nafnið So og fyrsta smáskífan var gefin út.

Það var lagið Sledgehammer. Þetta lag fór víðast hvar í efsta sæti vinsældarlista og það var nýtt og óvænt fyrir Peter Gabriel. Þetta lag er í anda tónlistar sem Stax fyrirtækið var frægt fyrir, soul einsog Otis Redding gæti hafa sent frá sér. Glæsilegt video hjálpaði laginu til mikillar spilunar á MTV og víðar. Fyrir þetta video hlaut hann allskonar viðurkenningar.

Þriðja lag plötunnar átti einnig eftir að koma út sem smáskífa. Þar söng Gabriel með söngkonunni mögnuðu Kate Bush lag sem sýndi ljóslega að hjarta Gabriels er hjá þeim sem minnimáttar eru. Í þessu lagi er það verkalýðsstéttin sem hafði þá og hefur ekki enn alltof mikið að bíta og brenna.

Einsog með Sledgehammer var gert glæsilegt myndband við þetta lag. Þau sungu það í faðmlögum og bak við þau skall á sólmyrkvi. Eftirminnilegt myndband. Elton John sagði um Don´t give up; ég hlustaði á þetta lag aftur og aftur og hugsaði alltaf, þetta verður í lagi þetta verður í lagi, ekki gefast upp.

Mikill fjöldi góðra tónlistarmanna kom við sögu á So.  Má nefna P.P. Arnold, Laaurie Anderson, Bush, Steward Copeland, Jim Kerr úr Simple Minds og Nile Rogers. Daniel Lanois stjórnaði síðan herlegheitunum ásamt Gabriel sjálfum. Næsta lag heitir In your eyes og var einnig gefið út sem smáskífa. Það eru margir sem halda því fram að In your eyes sé eitthvert fallegasta ástarlag sem Peter Gabriel hefur samið. Þetta lag var einnig notað í kvikmynd Cameron Crows, Say anything. Youssou N´Dour syngur bakraddir í þessu lagi.

Einsog fyrr sagði kom platan út í lok maímánaðar árið 1986. Ekki tók Gabriel sér frí eftir útkomu plötunnar, heldur fór strax þann fjórða júní í tveggja vikna tónleikaferð um Bandaríkin á vegum  Amnesty Intenational ásamt meðal annara U2, Sting og Lou Reed. Í lok júnímánaðar spilaði Peter Gabriel á miklum tónleikum í London þar sem Apartheid aðskilnaðarstefnunni í Suður Afríku var mótmælt. Meðal annara listamanna á Þeim tónleikum má nefna Elvis Costello, Sade, Boy George, Billy Bragg og Sting.  Lagið   Mercy Street af So er samið í minningu skáldkonunnar Anne Sexton sem svipti sig lífi árið 1974. Stórkostlegur minnisvarði og  flutningur allur er magnaður.

Big Time var fjórða lagið af SO sem gefið var út sem smáskífulag. Einsog með fyrri smáskífulögum af So fylgdi mjög flott myndband með. Á trommunum er Steward Copeland. Þetta lag er í hálfgerðum hipphopp takti og dansvænt. Í textanum gerir Peter Gabriel góðlátlegt grín að frægð og frægðardraumum.

Fyrir smáskífurnar af þessari plötu sópaði Peter Gabriel til sín allslags verðlaunum. Don´t give up var kosið besta lagið hjá Ivor Novello, Sledgehammer fékk 10 verðlaun hjá MTV og tvenn Brit verðlaun að auki. Platan hefur selst í á annan tug milljóna. Næst síðasta lagið heitir We do what we´re told.

Plata Peters Gabriel, SO kom út árið 1986. Þó að þessi ár séu liðin frá útkomunni hljómar hún eins fersk og fín og á útgáfudegi.  Það má segja sem svo að eftir So hafi Peter Gabriel ekki verið fyrrum söngvari Genesis, heldur sjálfstæður tónlistarmaður. Í sjálfu sér er Gabriel það merkilegur listamaður að hann ætti skilið miklu ítarlegri umfjöllun en þá sem nú er gerð. Allt það sem hann hefur lagt af mörkum til meira réttlætis í heiminum er svo sérkapítuli útaf fyrir sig.

Það má með sanni segja að So hafi skilið eftir sig spor. Ekki aðeins á tónlistarsviðinu, heldur einnig í myndbandagerð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigríður Guðnadóttir

Takk fyrir fróðleikinn

Sigríður Guðnadóttir, 3.4.2008 kl. 20:29

2 Smámynd: Sigríður Guðnadóttir

hehe það er gott Guðni að gat orðið til góðs - alltaf vont að hafa diskana óhreina

Sigríður Guðnadóttir, 3.4.2008 kl. 21:20

3 identicon

Guðni hvað á þetta bölvað rugl að þýða með Morðingjana, er þetta að breitast í eitthvað ritskoðunarbatterí þarna uppi á Rás 2... hef bara aldrei heyrt aðra eins vitleysu, kanski búnir að stofna hljómsveitarnafnanefnd.

Stórskemmtileg sveit með góða plötu sett útí kuldann, bara útaf nafninu, þið ættuð að skammast ykkar

Bubbi J. (IP-tala skráð) 3.4.2008 kl. 21:57

4 Smámynd: Guðni Már Henningsson

Kæri Bubbi J. Hvernig dettur þér í hug að þetta sé svona? Trúir þú öllu sem stendur í blöðunum? Hvað ertu búinn að hlusta á Rás 2 lengi? Ef þú ert búinn að hlusta í tvö ár eða lengur getur þú þá ekki velt því fyrir þér hvort að þessi saga eigi við rök að styðjast? Við höfum spilað hljómsveitir sem heita Rass, Hölt Hóra og annað eftir því. Við höfum spilað lög með textum sem ættu að vera bannaðir innan sextán ára. Rás 2 er eina og ég fullyrði það hér og nú og skal gera það hvar sem er, eina útvarpsstöðin þar sem engin ritskoðun er. Ég er búinn að starfa þarna í fjórtán ár og hef aldrei verið beðinn um að spila ekki einhverjar hljómsveitir. Aldrei. Ég og Óli tökum ákvarðanir um það sem spilað er í Popplandinu ásamt Ágústi Bogasyni. Að sjálfsögðu ræður okkar smekkur einhverju en við höfum sett í spilun lög sem okkur líkar ekki við, lög sem aðrir kunna að meta. Þetta er ekki okkar Ríkisútvarp og verður aldrei.  Það sanna í málinu er það að ég sagði við einhvern í bandinu að þetta nafn, Morðingjarnir væri fráhrindandi, ekki bara fyrir útvarpshlustendur heldur einnig fyrir þá sem kaupa tónlist. Ég er viss um að það rata ekki margir diskar með Morðingjunum í fermingargjafahrúguna. En að sjálfsögðu mega þeir kalla sig Morðingja ef þeir vilja það.  Og það fyndna eða skondna við þetta allt saman er að við erum búnir að setja lag með þeim í spilun. Ef þeir hefðu beðið með þessar yfirlýsingar sinar í tvo þrjá daga hefður þeir líklegast ekki fengið nafnið sitt í stórri grein í 24 stundum. Bubbi J.: ekki trúa öllu sem þú lest í blöðunum, Biggi í Maus söng einusinn, allt sem þú lest er lygi...sem er nú kanski einum of, en trúðu þessu sem ég hef skrifað hér. Lifðu heill

Guðni Már Henningsson, 3.4.2008 kl. 22:28

5 Smámynd: Jens Guð

  Frábær úttekt á merkri plötu.

Jens Guð, 4.4.2008 kl. 00:53

6 Smámynd: Gulli litli

Hrós, hrós fyrir fróðleikinn...

Gulli litli, 4.4.2008 kl. 11:32

7 identicon

Þakka þér gott svar Guðni Már, yfirleitt trúi ég nú bara helmingnum af því sem ég les í blöðunum og að þessu sinni féll þetta í þann helminginn sem ég trúi... óheppinn ég..og lifðu heill sjálfur Kv. Bubbi J.

Bubbi J. (IP-tala skráð) 4.4.2008 kl. 16:23

8 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Mjög fróðlegt.

Takk fyrir mig.

Marta B Helgadóttir, 4.4.2008 kl. 23:24

9 identicon

Guðni ég var að skoða lagalista Popplandsins aftur til 25 mars til föstudagsins síðasta og ég get ekki fundið þar neitt lag með Morðingjunum, en þú segir að það sé búið að setja lag í spilun með þeim. En þú sagðir að ég ætti ekki að trúa öllu sem ég læsi þannig að ég ákvað að trúa þessu ekki. Kv.

Bubbi J. (IP-tala skráð) 6.4.2008 kl. 10:34

10 Smámynd: Guðni Már Henningsson

Kæri Bubib J. Ég sagði að ef þeir hefðu beðið með að segja frá þessu í tvo daga hefðu þeir ekki þurft að kvarta. Við settum lagið inn í síðustu  viku, það var spilað inn á föstudag og er örugglega komið í spilun núna. Hlustaðu á Poppland á morgun...ég skal senda þér kveðju!!! Takk fyrir að vera á verði.

Guðni Már Henningsson, 6.4.2008 kl. 16:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband