31.3.2008 | 11:14
Vegurinn.
Hann liggur
framhjá jöklunum,fjöllunum, hverunum
framhjá fossum
hraungrýtinu og eyðisöndunum
framhjá regninu og sólstöfunum
framhjá fljótandi eyjum
í sjávarháska
framhjá vegvilltum þjóðverjum
sem ákveðnir stara
í vitlausa átt
framhjá fiðruðum söngvurum
með sól í goggi
og regn í stéli
framhjá niðurgreiddum rollum
í tonnatali
framhjá ráðvilltum hrossum
sem vita ekki lengur neitt í sinn haus
um tilgang þarfasta þjónsins
framhjá þorpum
sem ýmist kúra aða sprikla
framhjá frystihúsum og videoleigum
framhjá kirkjum og
kirkjugörðum
framhjá tröllauknu hóffari
með basalt í augum
framhjá höfnum
sem skarta togurum
af öllum stærðum
litlum bátum og trillum
sem vart þekkja sinn sjó
framhjá hafnarvoginni
með útitekinn pípureykingamann
sem æðstaprest
framhjá loðnudrífu
sem markar veginn
líktog steinarnir hvítu
hjá hans og gretu
framhjá mismunandi
úrsérvöxnum kjarriklæddum útihátíðum
með ótölulegan fjölda
rennblautra íslenskra fána
og dapurlegann sæluvikusöng
sem meiðir hlustir
framhjá ættarmótum með gula bláa rauða græna eða hvíta miða í treyjunni sinni
þarsem menn um stundarsakir eru ættræknir mjög
svo jafnvel jónstóri kallar fiskigunnu frænku
framhjá fjöllum svo ægilegum, skriðum svo bröttum
að jafnvel sólinni
verður um og ó
framhjá geltandi bíltíkum
og gjammandi hundspottum
með rófuna ýmist
í austur eða vestur
framhjá gulum einmana tjöldum
sem flagga handklæðum
og nærbuxum
í hálft stag
með hælana
þarsem tær mínar
aldrei munu
safna sandi sín á milli
framhjá stöðnuðum rútum
og yfirgefnum skódum
með rassinn í næsta landrover
framhjá víghreiðrum
innlendum og erlendum
framhjá brenndum bergþórshvoli
með brókarsótt
framhja hlíðunum
væmnum og grænum
framhjá dauðum klesstum fuglum
og krömdum músum
framhjá veiðivötnum
og lækjarsprænum
framhjá fúlalæk með brennisteinsfnyk
sem minnir á vel heppnað
gamlárskvöld í reykjavík
framhjá snjótoppum og dreifðum sköflum
framhjá traktorum og gröfum
peylóderum og vörubílum
framhjá hvítum risaeðlueggjum
framhjá sögualdabæjum
sem lifað hafa af falsanir
súrheysturnum og minkabúum
bensínsjoppum og hamborgurum
tómum dósum brotnum flöskum
sem muna mega sitt innihald fegurra
framhjá puntstráum og fífu
sóleyjum og fíflum
framhjá beljum og hænum
heimskari en naut
er farmallinn
úrsérgenginn og einskisnýtur
framhjá undarlegri örvænting
dónalegri undanlátssemi
og háttvísi á hæsta stigi
bílaverkstæðum sem
opin eru
allan sólarhringinn
sálarkvöldum manneskjum
og einskærri ást
jafnvel í meinum
uns honum lýkur
einsog deginum
fyrir austan
sól
og vestan
mána.
og bítur loks
í skottið
á sjálfum sér.
Athugasemdir
Skemmtileg stemmning í þessu ljóði. Er þetta eftir þig?
Sigga, 31.3.2008 kl. 15:16
frábært :)
Sigríður Guðnadóttir, 31.3.2008 kl. 19:10
þetta er bara ferlega skemmtilegt ferðalag !
Blessiknús á þig vinurinn minn kæri
steina
Steinunn Helga Sigurðardóttir, 31.3.2008 kl. 19:15
... þetta er magnað hjá þér Guðni... alveg magnað... ferlega flott, hafði rosalega gaman að lesa þetta... takk fyrir mig...
Brattur, 31.3.2008 kl. 21:23
Mjööög flott :)
Marta B Helgadóttir, 2.4.2008 kl. 22:52
......takk
Marta B Helgadóttir, 2.4.2008 kl. 22:52
Takk fyrir mig,
fínn heilaþytur (gæti það gengið í stað "brain storming"), dálítið orðmargt ljóð en hvað með það, bara fínt. Takk fyrir mig aftur.
Sveinbjörn Kristinn Þorkelsson, 2.4.2008 kl. 23:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.