29.12.2007 | 01:07
Dire Straits
Fyrsta plata Dire Straits kom út 1978 og ber einfaldlega nafn hljómsveitarinnar. Frá byrjun má segja að Dire Straits hafi verið sígilt dæmi um vitlausan tíma og vitlausan stað. Um sumarið 1977 logaði Bretland af uppreisn og reiði pönksins. Það var ekki liðið ár frá útkomu plötu Sex Pistols, Anarchy in the UK, þegar kennarinn og gítarleikarinn Mark Knopfler, David Knopfler, yngri bróðir Marks og félagsfræðisstúdentinn og bassaleikarinn John Illsley hófu að æfa saman lög Mark Knopflers. Þeir þrír bjuggu saman í Deptford í Suður Lundúnum. Fljótlega bættist trommarinn Pick Withers í hópinn. Fyrsta nafn hljómsveitarinnar var Café Racers. Lög Mark Knopflers og hljómur þeirra var einsog útúr kú á þessum tíma. Þau voru þaulhugsuð og fullkomin, sögur úr hans eigin lífi með bakgrunn í listagalleríum, kaffibörum og jassböndum römmuð inn með fullkomnum gítarleik og hvert og eitt með sinn stíl. Þetta var ekki þetta sem tónlistin snérist um á þeim tíma. Þá var það pönkið, hrátt og reitt sem var yfir og allt um kring. Fyrsta opinbera spilamenska Dire Straits var samtsem áður á pönk hljómleikum, þeir hituðu upp fyrir Squeeze og komu fram undir nafninu Café Racers. Vinur Pick trommara fannst einsog fjárráð þeirra væru ekki nógu góð og lagði til nafnið Dire Straits. Sem þýðir eitthvað í áttina við það að vera í öngstrætum, vera í alvarlegum fjárhagskröggum. Það átti eftir að breytast.
Þeir félagarnir ekki alltof mikið af peningum. Samt sem áður gátu þeir skrapað 120 pundum tilað taka upp prufuupptökur af lögum Mark Knopflers. Þeir fóru með þessar upptökur til þáttagerðarmanns á BBC sem heitir Charlie Gillett og hann spilaði þetta í þáttum sínum. Menn í tónlistarbransanum vissu ekki hvaðan á sig stóð veðrið er þeir heyrðu þessar upptökur. Þetta var á skjá og skjön við allt sem var að gerast. Samt sem áður hafði Johnny nokkur Stainze, þá nýbyrjaður hjá Phonogram útgáfunni trú á Dire Straits. Hann fékk forstjórana til að samþykkja samning við þá fjórmenninga, nægilega góðan tilað þeir gætu hætt annari launaðri vinnu og einbeitt sér að upptökum á þeirra fyrstu plötu. Stainze fékk Muff Winwood, fyrrum meðlim Spencer Davis Group og bróður Steve Winwood til að stjórna upptökum á fyrstu plötunni og gerði hann það með sóma og sann.
Þegar platan var gefin út 1978 vissu samstarfsaðilar Phonogram um víða veröld ekki hvað þeir ættu að gera við gripinn. Þeir biðu með útgáfu í þeirra heimalöndum til að sjá hvað platan gerði á Englandi. Þar voru menn ekkert upprifnir í byrjun og BBC radio one spilaði ekki fyrstu smáskífuna, Sultans of swing. Menn litu í aðrar áttir.
Þegar platan var gefin út í Hollandi gerðist nokkuð óvænt. Útvarpsstöðvar þar hófu að spila Sultans of swing og tónlistarblöð þarlend hrósuðu plötunni í hástert. Sultans of swing fór hátt uppá vinældarlistann hollenska og gagnrýnendur héldu vart vatni vegna snilli Mark Knopflers. Líktu honum við snillinga á borð við Ry Cooder, J.J. Cale og Bob Dylan. Á sama tíma voru flutt inn til Þýskalands frá Hollandi nokkur tonn af plötunni og það varð að lokum til þess að hið þýska Phonogram ákvað loks að gefa plötuna út. Platan, þegar upp var staðið er ein mesta selda plata Þýskalands til dagsins í dag.
Eftir ævintýrin í Hollandi og Þýskalandi gerðist svipuð saga annarsstaðar. Platan fór að vekja athygli og seljast einsog heitar lummur. Í Bandaríkjunum var platan gefin út, en ekki miklu til kostað. Auglýsingar í lágmarki og menn þar vildu gera nýja plötu. Dire Straits hófu að hljóðrita efni sem síðar varð að Communique. Á meðan, þrátt fyrir að Warner Brothers sem gáfu hana út í Ameríku gerðu lítið sem ekkert fyrir plötuna, náði hún þar inná topp tíu. Fór reyndar í annað sætið og Sultans of swing í það fjórða. Hún var einnig mest spilaða platan í bandarísku útvarpi árið 1979. Og þá tóku bretar loksins við sér. Platan fór uppí fimmta sæti breska listans og Sultans of swing var endurútgefið og náði því áttunda.
Gerð þessarar plötu var ekki dýr. 1200 pund kostaði að gera hana og þá er allt meðtalið, gerð plötuhulsturs þar á meðal. Þannig að gróðinn hefur verið einhver. Þessi plata var tekin upp í Basing street studioinu í London í febrúar 1978. Stuttu eftir útkomu plötunnar í Bandaríkjunum voru Dire Straits þar á tónleikaferðalagi. Í Los Angeles var sjálfur Bob Dylan á tónleikiunum og hann hreifst svo mikið af hljómsveitinni að hann bað þá Mark Knopfler gítarleikara og Pick Withers að spila með sér á næstu plötu sinni sem var Slow train coming.
Einsog kom fram í upphafi átti dagskrárgerðarmaðurinn Charlie Gillett hjá BBC stóran þátt í því að vekja athygli á Dire Straits í byrjun. Gefum honum orðið: þegar Dire Straits hófu feril sinn 1977 lenda þeir einhvernveginn milli skers og báru, þeir pössuðu hvergi inní. Þeir höfðu ekki uppreisnargirni pönksins eða nýbylgjuna sem bransinn var að leita að. Þeir voru ekki einusinni pubbrökkarar einsog Dr. Feelgood. Mark Knopfler bað meira að segja tæknimenn um að lækka í hljómsveitinni svo áheyrendur gætu talað saman. Enginn bresk topphljómsveit hefur reynt að vera jafn mikið utan sviðsljóssins en jafnframt farið með tónlistina eins víða og Dire Straits. Þeir einfaldlega spila þá tónlist sem þeir elska. Þegar ég spilaði demoið þeirra í þættinum mínum hringdu menn í mig frá hinum og þessum plötuútgáfum alla vikuna og vildu vita hvaða band væri hér á ferðinni; þú veist þetta sem hljómar einsog amerískt band. Þó að flestir þeirra fíluðu tónlistina voru þeir einnig nokkuð vissir um að almenningur myndi ekki gera það.
Það er óskýranlegt, nánast, af hverju sumir tónlistarmenn halda velli í mörg ár þegar aðrir hverfa útí buskann eftir skamma veru í sviðsljósinu. Mark Knopfler hefur alltaf eitthvað að segja, flestir hans textar eru um eitthvert afmarkað efni og hann hefur þann hæfileika að sjá hlutina frá öðrum sjónarhóli en við sauðsvartur almúginn. Hlustendur þurfa að grufla í textunum til að leita að raunverulegri meiningu þeirra, hann slettir þeim ekki framan í fólk. Oftast er leitin þess verð að vera gerð.
Þetta voru orð Charlie Gillett, þeim sem spilaði Dire Straits fyrstur manna í útvarpi.
Þó þessi plata hafi fengið dræmar undirtektir í byrjun fór svo að lokum að hún seldist mjög vel og náði til hlustenda. Þessi tónlistarstefna þeirra í upphafi ferils er byggð á bandarískri tónlist, folk og country. Þetta varð til þess að opna augu margra fyrir listamönnum einsog J.J. Cale og Ry Cooder. Einnig áttu þeir sporgöngumenn og nægir að nefna hljómsveitina Aztec Camera. Einnig urðu tónlistarmenn einsog Phil Collins, Eric Clapton og Sheryl Crow fyrir miklum áhrifum frá tónlist Mark Knopflers og Dire Straits.
Næstu ár eftir útkomu þessarar plötu voru Dire Straits gjöful. Þeir sendu frá sér meistarstykki einsog Making Movies, Love Over Gold og metsöluplötuna Brothers in Arms. En það er allt önnur saga.
Athugasemdir
Ást í poka sem ekki má loka !
AlheimsLjós til þín elsku vinur min
steina
Steinunn Helga Sigurðardóttir, 29.12.2007 kl. 09:27
Ég man vel eftir þegar ég heyrði Sultans of swing í fyrsta skifti. Ég kolféll fyrir laginu og keypti plötuna fljótlega og hún var mjög útúr kú frá þeirri tónlist sem ég var í kafi í á þessum tíma. Ég man samt að flestir minna vina á þessum tíma sem voru flestir á kafi í þungarokki og pönki voru allir mjög hrifnir af Dire Straits. Það var ekki fyrr en síðar í kringum Brothers in arms plötuna að einhverjir yfirgáfu hana. Þeir þóttu of "commercial" eftir það.
Kristján Kristjánsson, 29.12.2007 kl. 12:46
Elska þessa tónlist
Marta B Helgadóttir, 29.12.2007 kl. 14:02
elsku vinur minn
Gleðileg áramót til þín og þinna. vonandi farið þið í rólegheitum inn í hið nýja ár
Mahatma Gandhi sagði svo rétt Kærleikurinn er sterkasta aflið sem til er í heiminum og jafnframt hið hógværasta sem unnt er að hugsa sér.
Megir þú vera í Kærleikanum nú og alltaf.
AlheimsKærleikur til þín
Steina
Steinunn Helga Sigurðardóttir, 30.12.2007 kl. 14:03
Gleðilegt ár kæri Guðni Már !
P.s. Dire Straits rúla ! ;)
Guðsteinn Haukur Barkarson, 31.12.2007 kl. 00:44
Vil bara óska þér gleðilegs árs Guðni og þakka fyrir frábær bloggsamskipti á árinu.
Marta B Helgadóttir, 31.12.2007 kl. 10:52
Takk fyrir öll góðu, gömlu árin og takk fyrir að spila lögin okkar Gulla - mundu að það að hjóla sem oftast og sem víðast er allra meina bót og mitt áramótaheit er allavega það að bæta mig stórlega í hjólreiðunum!
Gleðilegt ár!!!
Kristín Björg Þorsteinsdóttir, 31.12.2007 kl. 11:23
Takk fyrir þennan pistil. Dire Straits hefur lengi verið mitt uppáhald.
Gleðilegt ár.
Ingigerður Friðgeirsdóttir, 1.1.2008 kl. 16:16
Þegar ég var 6 ára var ég búinn að heyra í cat stevens, dylan, bubba, spilverkinu, megasi, stuðmönnum, pink floyd, zeppelin, bítlum, stones, deep pearple, ofl, sérstaklega plötum eins og Catch a bull at six (eða var það four?), the Wall og fingraför, sem kom út sama ár og ég varð 6 :).
Brothers in arms var hins vegar fyrsta platan sem ég eignaðist, 9 ára. Ég gat bara hlustað á fyrstu 3 lögin, og það síðasta, því mér fannst hin erfið. Ég náði þeim ekki almennilega fyrr en 3-4 árum síðar.
Ég man hins vegar eftir því að ég skildi aldrei Sultans of Swing, þ.e.a.s. lagið sjálft, í samanburði við plötuna Brothers in arms. Það var ekki fyrr en mörgum árum síðar að ég heyrði Alchemy, tónleikaútgáfu Sultans of Swing, að ég skildi, og hef svo sem aldrei heyrt annað eins síðan...
Benedikt Bragi (IP-tala skráð) 2.1.2008 kl. 12:17
Þessi tónlist er mér kærust. Ég man alltaf eftir því þegar þú og bróðir minn heitinn voruð í kjallaranum og spiluðuð þessa plötu á hæðsta styrk.
Þú kenndir mér að hlusta á þessa eðal tónlist og fyrir það verð ég þér ætið þakklátur.
Páll Sævar Guðjónsson, 8.1.2008 kl. 23:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.