Jólahugleiðing.

 jata

Jólin, hvaða þýðingu hafa þau fyrir mig og hvaða þýðingu hafa þau haft gegnum árin. Eitt er víst, jólin nú hafa aðra merkingu fyrir mig en til dæmis fyrir tíu árum síðan. Þá voru þau tími fjárútláta, partýa og kanski það sem var best, frí frá vinnu í nokkra daga. En þau drógu dilk á eftir sér, ég var nokkra mánuði að ná endum saman aftur. Ég tók þátt í neyslu og gjafakapphlaupinu af fullum krafti. Ég varð að gefa flottari og hugmyndaríkari gjafir en aðrir.

Sjaldan leiddi ég hugann að því hversvegna jólin væru haldin. Jesúbarnið var jú fallegt á öllum myndunum, jólalögin voru spiluð og ljós skrýddu bæ og borg. En aldrei leiddi ég hugann að því að þetta fallega jólabarn yrði síðar krossfest. Auðvitað þekkti ég sögu Jesú. En að þetta sama barn yrði síðan neglt á kross fyrir mig og mína vankanta, nei að því leiddi ég aldrei hugann. Það var meira spáð í hvort ætti að fagna frelsaranum með hamborgarhrygg eða hangikjöti.

 Ég held meira að segja að Grýla, Leppalúði og jólasveinarnir hafi verið öllu vinsælli en Kristur.

Fyrir nokkrum árum síðan kynntist ég svo þessu krossfesta jólabarni betur. Ég fór á samkomu hjá Samhjálp og upplifði að þetta fallega jólabarn lifir enn.  Svo undarlega sem það kann að hljóma. Ég vissi að Kristur hefði risið upp frá dauðum og síðan nokkrum vikum seinna farið til himna til að vera hjá Guði föður. En að hann væri lifandi í dag, nei það fannst mér af og frá. En ég komst að raun um annað. Hann var sprelllifandi og meira að segja virtist hann kannast við mig! Þennan miðaldra lúser ofan af Íslandi! Ég fann vel fyrir návist hans og góðir menn sögðu að það eina sem ég þyrfti að gera ef ég vildi áfram vera í vinahópi hans væri að opna hjarta mitt fyrir honum og bjóða hann velkominn. Inn í þennan vöðva sem dælir blóði, hvað ætti hann að vilja þangað? Það fannst mér skrítið. Auðvitað vissi ég hvað þeir meintu, en að tala svona um Jesú, það var nú meira en að segja það. Í gáfumannaklíkum sem ég þekki til er ekki það flottasta í heiminum að tala þannig um Jesú. Það þótti miklu flottara að spá í Búdda, jóga og alla þá frændur.  En Jesú, nei takk! það leið þó ekki á löngu þartil ég opnaði hjarta mitt og allt æðakerfið, meira að segja bæði litla og stóra heila fyrir þessum besta vini mannsins.

Jólin núna eru ekki fyrir Grýlu og Leppalúða. Nú fagna ég komu frelsarans sem gaf mér eilíft líf í þessu lífi mínu. Enn spái ég í hvort það væri betra að hafa hamborgarhrygg eða hangikjöt á jólunum.Enn reyni ég að gefa ágætar jólagjafir. Ennþá kann ég að blanda saman malti og appelsíni. Enn kaupi ég konfekt á jólunum.  Enda er það allt í lagi, jólin eru og  eiga að vera stærsta afmælisveisla allrar heimsbyggðarinnar.

Í Matteusarguðspjalli segir:

Þegar Jesús var fæddur í Betlehem í Júdeu á dögum Heródesar konungs, komu vitringar frá Austurlöndum til Jerúsalem og sögðu: "Hvar er hinn nýfæddi konungur Gyðinga? Vér sáum stjörnu hans renna upp og erum komnir að veita honum lotningu." (2:1-2 )

Sumir halda því fram að Betlehemstjarnan hafi aðeins verið Júpíter að færast á himninum. Þegar pláneta er í bakhreyfingu, virðist hún mynda lykkju á ferð sinni um stjörnum prýtt himinhvelið. Plánetan virðist með berum augum staðbundin á hvorum enda lykkjunnar í um það bil viku. Slíkt átti sér til dæmis stað þann 25. desember árið 2 f. Kr. Hreyfing plánetunnar á þeim tíma í vestur hefði leitt vitringana til Jerúsalem en vegna bakhreyfingar Júpíters virtist plánetan "stöðvast" á himninum, frá Jerúsalem séð, beint í suðri, yfir Betlehem. Og ekki nóg með það, heldur "stöðvaðist" plánetan í Meyjarmerkinu og var þannig stöðug í næstum sex daga.

Betlehemstjarnan hefur haft meiri áhrif á mannkynssöguna en nokkur önnur stjarna fyrr eða síðar og sá sem fæddist í Betlehem á jólunum á þessum tíma hefur haft meiri áhrif á mannkynið sjálft en nokkur annar maður sem fæðst hefur, enda var hann Kristur sonur Guðs. Við skulum halda vel upp á fæðingu hans. Guð gefi okkur öllum gleðileg jól.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steinunn Helga Sigurðardóttir

ást til þín elsku vinur, ég sakna þín líka

AlheimsLjósið til þín

steina 

Steinunn Helga Sigurðardóttir, 12.12.2007 kl. 14:21

2 identicon

Takk fyrir vekjandi og fróðleg orð. Guðni (nafni)

Guðni (IP-tala skráð) 12.12.2007 kl. 17:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband