Everybody knows this is nowhere

 everybody knows this is...

Everybody knows this is nowhere kom út árið 1969.  Neil Young fæddist í Toronto í Kanada árið 1945. Ungur að aldri fluttist hann til Winnipeg og þar hófst ferill hans sem tónlistarmaður. Hann spilaði í hinum og þessum bílskúrsböndum og nægir að nefna nafn einsog The Squires en þeir voru frægir fyrir það í Winnipeg að mæta alltaf á æfingar og spilamennsku í 48 módelinu af Buick. Neil Young þreyttist á einangruninni í Winnipeg svo einn  daginn hoppaði hann uppí 53 módelið af Pontiac, Buickinn hafði skömmu áður hrunið, og stefnan var tekinn á Los Angeles. Þar hitti hann fyrir gamlan félaga, Stephen Stills og hljómsveitin Buffalo Springfield var stofnuð árið 1966.

 

Fyrir utan Neil Young og Stephen Stills voru í Buffalo Springfield þeir Richie Furey, Dewey Martin og Bruce Palmer en í staðinn fyrir hann kom svo síðar Jim Messina. En að öðru.

Eftir þrjár stórar plötur og tveggja ára starf, hætti Buffalo Springfield störfum. Í janúar 1969 kom svo út  fyrsta sólóplata Neil Young og hét hún einfaldlega í höfuðið áhonum sjálfum. Þetta var þokkalegt start hjá meistaranum og eftirminnilegasta lagið er kanski The Loner. En Neil Young rakst á pöbb band sem hét The Rockets og leist prýðilega á sveinana. Hann fékk þá til að spila með sér á sinni næstu plötu sem varð að Everybody knows this is nowhere og kom út um vorið 1969. Í The Rockets voru þeir Danny Whitten gítarleikari, Billy Talbot á bassa og Ralph Molina á trommum. Neil Young fannst nafnið The Rockets frekar hallærislegt og endurskýrði þá Crazy Horse. Þetta varð upphafið að samstarfi þeirra sem enn sér ekki fyrir endann á. Þessi plata lagði línurnar fyrir það sem á eftir skyldi koma, rokk einsog engir aðrir spila, löng gítarsóló  og riff engu lík svosem heyra má í upphafslagi Everybody knows this is Nowhere, Cinnamon Girl.

Þetta lag er enn eitt mest spilaða lag Neil Young í útvarpi og enn tekur hann það  á tónleikum. Einsog kom fram áðan er þetta fyrsta platan sem Crazy Horse spiluðu á með Neil Young. Það er einsog þeir nái að draga fram það besta í honum. Háværir gítarar, löng lög og frábærar lagasmíðar. Í næsta lagi, Round and Round (it wont be long) koma fram allir bestu kostir Neil Youngs og Crazy Horse fram. Í hópinn bætist söngkonan Robin Lane.

 

Einn af hápunktum þessarar plötu er lagið Down by the river. Þar sýnir Neil Young og sannar að hann er rokkskáld á heimsmælikvarða. Lagið er rúmar níu mínútur að lengd og það er sá flöskuháls sem reynist flestum erfiðastur. Þeir eru ekki margir sem geta spilað og samið svona löng lög án þess að áheyrandanum fari að leiðast. Neil Young og Crazy Horse halda athyglinni allan tímann og þegar upp er staðið er lagið of stutt. Neil Young getur undirbúið og farið í hljómaferðalag sem tekur langan tíma án þess að nokkur  samferðamanna finni fyrir þreytu eða leiða.

Eitthvert magnaðasta lag Youngs heitir Running dry(Requiem for the Rockets). Þarna er Neil Young á ferðalagi um hina dimmari  dali hins mannlega lífs, um hræðslu og örvæntingu. Í upphafslínu textans leggur hann línur fyrir það sem koma skal í laginu, oh please help me, oh please help me, I´m living by myself.........Neil Young syngur lagið með fullvissu þess manns að við séum á hægri niðurleið, og ef einhver lukka er til staðar, útúr drullupollinum. Bobby   Notkoff spilar á fíólu.

Síðasta lag þessarar fínu plötu sem tekin var upp á tveimur vikum vorið 1969 er Cowgirl in the sand. Og hvílíkur endapunktur. Cowgirl in the sand hefur allt til að bera sem prýða má lag eftir Neil Young. Rifin sólógítar, góð melódía og fín lagasmíð. Frábær flutningur. Og einsog fyrr sagði  virðast Crazy Horse ná að draga fram það besta í Neil Young.

Stuttu eftir útkomu þessarar plötu var Young beðin um að slást í hóp þeirra Crosby, Stills og Nash. Sem hann og gjörði og eyddi næsta ári til skiptist með þeim félögum og Crazy Horse. Enn er hann viðloðandi þessa sveit. Ég leyfi mér að fullyrða það hér og nú að þessi plata á eftir að lifa okkur öll sem göngum hér á þessari guðsvoluðu jörð í dag.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Fyrir nokkrum árum, annað hvort á annan í hvítasunnu eða uppstigningardag, gæti jafnvel hafa verið á annan í páskum, allavegana einhver svoleiðis dagur, kom þáttur á Rás 2, þar sem þessi frábæra plata var tekin til umfjöllunar og spiluð frá a-ö. Notaleg rödd leiddi mann í gegnum plötuna og sagði skilmerkilega frá hverju lagi þannig að maður límdist ósjálfrátt við útvarpstækið. Ég átti einhverjar plötur með kappanum en þarna skeði það að ég féll fyrir þessari plötu og gat varla á heilum mér tekið fyrr en ég komst í plötubúð daginn eftir og fjárfesti í þessum grip sem verður ávallt ein af mínum uppáhalds, Guðni Már ég þakka þér kærlega fyrir þennan útvarpsþátt þarna um árið, því ég á honum mikið að þakka. Svo var það í morgun að ég var að hugsa um þessa plötu og fór að velta því fyrir mér hvor þú færir ekki bráðum að fjalla um hana á bloggsíðu þinni, og viti menn...

Takk fyrir upplýsandi greinar um tónlist Kær kveðja Björn.

Björn Jónsson (IP-tala skráð) 13.11.2007 kl. 16:47

2 Smámynd: Eyþór Árnason

Takk fyrir skemmtilegar greinar Guðni minn. Ég held að tónleikar með Neil Young hér á landi ættu að vera ofarlega á listanum hjá tónleikahöldurunum. Þó hann kæmi bara einn og spilaði á fótstigið orgel. Ég myndi mæta. Kveðja.

Eyþór Árnason, 13.11.2007 kl. 18:39

3 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Leit við og naut lestursins að vanda. Takk

Marta B Helgadóttir, 14.11.2007 kl. 00:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband