Bringing it all back home...Bob Dylan

bringing it all 

Bringing it all back home kom út í maí 1965 og þá bylti jörð sér.  Nánast. Bob Dylan hafði tekið rafmagnið í sína þágu og var farinn að spila rokk og ról.  Þetta olli þvílíkum hræringum að menn eru enn að ræða þessi mál og enn er rifist. Reyndar hafði Dylan komið fram á Newport hátíðinni og þá verið með rokkband með sér. Þá var mikið púað og galað og gólað. Reyndar hélt þessi hegðun tónleikagesta áfram í hljómleikaferð sem Dylan fór í og fræg er upphrópun eins gestsins er hann kallaði á tónleikum á Englandi Júdas. Og þannig litu margir á Dylan, hann hafði svikið folktónlistina og trúbadúrinn sem  hafði fjallað um hin mörgu mein heimsins hafði selt skrattanum og rokkinu sálu sína. Meira að segja bárust honum morðhótanir. Reyndar fór Dylan ekki alla leiðina á Bringing it all back home, því helmingur plötunnar var rafmagnaður en hinn ekki. Dylan var á seinni hliðinni einn með sinn kassagítar.Síðan hafa mörg vötn runnið til sjávar og í dag og reyndar í mörg ár er Bringin it all back home talið mikið meistaraverk sem svo sannarlega hefur skilið eftir sig spor og reyndar má segja að heil   hraðbraut hafi orðið til við útkomu þessarar plötu. Frá fyrstu tónum Subterranean homesick blues breyttist rokkið og varð aldrei aftur það sama.

Textinn í þessi lagi er veluppbyggður með rími hér og þar, þreföldu, tvöföldu, innrími og Guð veit hvað. Og þarna rappaði Dylan í fyrsta skipti. Blúsriffið   sem þetta lag er byggt uppá er ættað frá Chuck Berry og laginu hans Too much monkey business. Næsta lag, She belongs to me, er talsvert öðruvísi, einföld melódía undir folkblús áhrifum en textinn er einhver magnaðasti samsetningur sem heyrst hafði á vinylplötu til þess dags er lagið kom út. Ástarljóð af fyrstu og bestu sort. Það er hægt að taka út setningu og setningu og láta þær standa einar og óstuddar. Ég hvet alla, sem þekkja ekki þetta lag til hlítar, að leggja eyrun að hljómtækjum sínum og heyra hreina og tæra snilld.

Maggies farm ...af Bringin it all back home. Svona músik hafði aldrei heyrst áður og þetta var meiri bylting í gerð dægurlaga en hægt er að gera sér grein fyrir í dag. Ekki bara lagasmíðin sjálf heldur hafði  svona textasmíð aldrei  áður heyrst í rokki og róli.  Þetta var allt öðruvísi tónlist en vinsælasta hljómsveit heims þá og síðar, The Beatles var að gera. Þarna var byggt á gömlum blús og rokkið frá Elvis fært fram á við.

Einhver fallegasta melódía  sem Dylan hefur samið við eldheitan ástartexta sem enginn nema Dylan hefði getað samið er Love minus zero/ no limit.

Tímaritið Rolling Stone komst svo að orði á árinu 1972; þessi plata er sannarlega verk Dylans sjálfs, en hann var þess megnugur að draga fram það besta í öllum hljóðfæraleikurunum, leyfa þeirra tónlistarhæfileikum að njóta sín. Þegar þessi plata kom út var það líkt og þegar eldfjall tekur uppá því að spúa eldi og brennisteini, öllum að óvörum. En, þá er komið að enn einum blúsnum á Bringin it all back home. Hér er á ferðinni hraður blús og í eðli sínu er hann einfaldur. Outlaw blues nefnist slagarinn. Enn einn blúsinn fylgir í kjölfarið og nefnist hann On the road again.

Þá er komið að síðasta lagi þeirrar hliðar Bringin it all back home sem er rafmagnaður. Hér fer sækadelíkan á flug hjá meistaranum, hann veður úr einu í annað, en samt má greina í textanum einhvers konar æfisögu Dylans, vafða inní undarleg ævintýri. Lagið heitir Bob Dylans 115th dream.

Þá er komið að þeirri hlið Bringin it all back home sem er órafmögnuð. Sumir vilja halda því fram að þessi hlið sé sterkari en hin fyrri. Það er álitamál, en þessi órafmagnaða hlið er feikisterk. Þarna rúllar hver klassíkerinn af öðrum og venjulegir menn hefðu unað glaðir við sitt þó þeir hefðu ekki afkastað meiru en að semja eitt þeirra laga sem þarna er að finna. Billy Bragg segir; ég heyrði fyrst Mr. Tambourine man inn í hlustunarklefa í plötubúð. Ég fór inn í þennan klefa sem drengur en kom út sem Tambórinumaður. Hljómsveitin Byrds tók þetta lag uppá sína arma, stytti það um nokkrar mínútur, setti gítarriff og tólfstrengjagítar inní ásamt bassa og trommum og fínum röddum og lagið fór allsstaðar á toppinn. Samt sem áður er útsetning Dylans miklu flottari, hún er minimalísk og tilfinningaríkari ásamt því að textinn er lengri og merkilegri. Byrds bjuggu til úr Tambourine man gott popplag en flutningur Dylans er löngu orðinn klassískur.

Næsta lag heitir Gates of Eden. Einsog svo oft er biblían nálæg Dylan. Aldingarðurinn Eden er hér umgjörð sem Dylan vefur inní sinn súrealíska texta sem sækir margt í Opinberunarbókina.

Því næst er lag sem er eitt af þeim magnaðri frá Dylan. Þar fer hann á kostum í sýrðri þjóðfélagsgagnrýni og fræg er setningin hans um bandaríkjaforseta sem öðru hvoru þarf að vera nakinn. Textinn í þessu lagi einu gæti verið efni í marga útvarpsþætti. Orðsnilldin og orðaleikurinn er svo magnaður að ég er eiginlega orðlaus...

Þetta meistaraverk heitir It´s alright ma I´m only bleeding og er næst síðasta lag plötu Dylans Bringin it all back home. Þá er komið að síðasta lagi plötunnar en langt í frá því síðsta. Margir listamenn og hljómsveitir hafa tekið það uppá arma sína og flutt það. Nægir að nefna Them og Van Morrison. Stórkostlegt lag sem heitir Its all over now baby blue.

Bringin it all back home kom út í maímánuði 1965 og markaði dýpri spor í rokkheiminum en flestar aðrar plötur. Sannleikurinn er jafnan einfaldur og sannleikurinn um Bob Dylan er sá að hann er snillingur. Og það mikill snillingur

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Við þetta er bara ekki neinu hægt að bæta við, nema hvað, að þessi frábæri diskur verður sko spilaður heima hjá mér í kvöld og það hátt stillt.

Stefán

Stefán (IP-tala skráð) 5.10.2007 kl. 15:19

2 identicon

Þetta er flott umfjöllun hjá þér Guðni. Flutningur Van og Them á Its all over now baby blue er einn flottasti flutningur á Dylan lagi sem ég hef heyrt,ásamt Watchtower með Hendrix og Song to Woody með Dave Van Ronk.Svo er til ódauðlegur live flutningur á baby blue með Dylan frá Prag 11.mars 1995.Þeir tónleikar eru unique í Dylan heimum.Á eftir Bringin it all back home kemur Highway 61 og svo Blonde on Blonde og takið eftir því að þessi meistaraverk gerir hann á tæpum 2 árum 1965 til 1966.

Áfram með boðskapinn.

shalom shalom

Óli Haukur 

Ólafur Haukur (IP-tala skráð) 5.10.2007 kl. 18:02

3 Smámynd: Gísli Torfi

Takk fyrir Orðið í gær. táknrænt að fjalla um Olíufjallið í OKT mánuðinum...

Gísli Torfi, 5.10.2007 kl. 18:05

4 Smámynd: Jens Guð

  Ég man glöggt eftir því þegar að þessi plata kom út.  Staðsettur í útjaðri Hóla í Hjaltadal,  þar var bændaskóli og mikill áhugi á rokkmúsík.  Plötunni var fagnað. Þar var lítill áhugi á þjóðlagamúsík en þeim mun meiri áhugi á rafmagnaðri rokkmúsík.  Í minningunni held ég að fáir hafi pælt í textum eða kunnað ensku.  Með þessari plötu stimplaði Dylan sig inn í rokksenuna.  Það var ekki fyrr en mörgum árum síðar sem að við í sveitinni áttuðum okkur á því hvað Dylan er góður textahöfundur.     

Jens Guð, 6.10.2007 kl. 01:44

5 Smámynd: Kristján Kristjánsson

Takk fyrir þessa yfirferð

Kristján Kristjánsson, 6.10.2007 kl. 12:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband