Færsluflokkur: Bloggar
29.3.2009 | 19:59
Það er ennþá maí.
Enn verð ég að halda áfram
með ókunnum krafti
sem sýnir á sér sínar
bestu hliðar
á stundum
og ég reisti upp líkamann
lífvana
og fór með snögga bæn
til að blása í mig lífi
og þar sem ég kraup við rúmið
með tunglskinið í augum
var ég spurður hvar ég hefði verið
og ég sagði bara einhversstaðar
þar sem þú ert til
og ég brosti framan í mánann
og kallaði á hann með nafni
þú ert minn
og það er ennþá maí
og það verður alltaf maí því þá er fæðingin
og ég held áfram
innblásinn af krafti sem ég er að verða
ástfanginn af
aðeins ég og þú og fæðingin
þar sem eru afburðafallegar konur
sem heilsa öðruhvoru
í hríðunum
og ég rétti út höndina og
þú býður mér til sólarlandsins
þar sem fallega fólkið er í friði
og spekt
allsgáð sólin nýtur þinnar verndar
þar til allt verður nýtt
og ekkert er lengur
aumur hégómi.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.3.2009 | 20:47
Til Gulla litla
Ég sendi honum Gulla litla kvæðisbút. Þarsem ég kann svo lítið á tölvur þá prentaðist hann kolvitlaust. Þessvegna birti ég hann á minni síðu svo að Gulli og aðrir viti hvernig vísan á að líta út!!!
Aldrei var nokkurt Norðurland
né nokkuð sem heitir Fjóni
og aldrei yfir eyðisand
einn um nótt með Jóni
dróst sá mikli dóni
dinglandi læraprjóni
á bíla.
Hann Litli yfirgaf láglaunaland
til lands með léttöl úr krana
eins og Móse inn í miðausturland
undir miskunn nokkura Dana
sem helst minna á hana
sem bíða sinn bana
hrópandi havana
gíla.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
24.3.2009 | 21:22
Guð minn
Af því að hann Maggi vinur minn kvartaði undan ljóðleysi þá kemur hér eitt einfalt trúarljóð sem ég vona að fólki líki við.
GUÐ MINN.
Þú sást mig er ég gekk um götur
og gæfan virtist aum
þú grést yfir mér, ó Guð
en ég gaf þér ekki gaum
Ég heyrði ekki frá himnum
því hér var líf í þögn
ég var sá sem gat allt
samt ekki agnarögn
Guð minn, Guð minn, Guð minn
þú varst þar
Guð minn, Guð minn, Guð minn
þú ert allsstaðar
þú kallaðir á kaldri nóttu
-komdu vinur minn
ég er Guð þinn eilífur
ég er friðurinn.
Og nú geng ég þær götur
sem gengur þú með mér
og þú gafst mér ástina
sem eilíf er hjá þér
Guð minn, Guð minn, Guð minn
þú ert allt
Guð minn, Guð minn, Guð minn
ég þakka þúsundfalt
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
12.3.2009 | 18:45
Í mánaskini
Með nóttina í hárinu þínu
og myrkrið á tungunni þinni
svæfir þú sálirnar
svæfir þú nývaknaða þrána
með hrímskurn á auganu þínu
frystir þú þögnina
og allar setningar
sem áttu að brjóta sér leið
gegnum skuggann
sem lá við hlið okkar
og þú grefur gærdagana
í rykinu
sem mánaskinið leikur við
morgundagurinn spólar
upp hæðina
það verður ekki mokað í náinni framtíð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
9.3.2009 | 22:47
Presturinn
Undarlegar eru gárurnar
í auganu þínu
sagði presturinn með fallega brosið
undarlegar eru bylgjurnar
í eyrum þínum
sagði presturinn með fallega brosið
undarlegur straumur
í hjartanu þínu
sagði presturinn með fallega brosið
undarlegar eru bárurnar
í sálinni þinni
sagði presturinn með fallega brosið
undarlegt hugsaði ég
hann er mállaus presturinn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.3.2009 | 22:00
Gærdagur
Undarlegt með alla gærdagana
þeir komu og fóru
og ringulreiðin sem ég hélt
í bígerð lét ekki sjá sig
allavega tók þursinn ekki eftir neinu
og enn eru gærdagar að fæðast
á morgun verður dagurinn í dag gamall
ekki skal ég gráta hann
ekki skal ég syrgja hann
ekki skal ég sakna hans
Jesús snæddi með tollheimtumönnum
Jesús reddaði mellu frá aftöku
Jesús sagði dæmið ekki svo þér verðið ekki dæmdir
því hlýt ég að geta fyrirgefið
öllum mínum gengnu gærdögum.
Bloggar | Breytt 9.3.2009 kl. 09:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.3.2009 | 19:26
Gunnu leið.
Þetta er fyrir allar kúgaðar konur landsins......
Þú sem átt frelsið allsstaðar falið
og flísar líklega úr heilögum runna
þú sem átt góðvild og gæsku í trogum
og gráðuga unga með síopna munna
stattu nú sterk
með stöðugan verk
og hlýddu nú þeim sem alls ekkert kunna.
Þú sem átt ekkert nema allt gott skilið
ert eilíf og sterk einsog stálsleginn tunna
þú sem ert hátt yfir raunirnar hafin
hættu að lifa einsog beinaber nunna
stattu svo sterk
með stöðugan verk
og hlýddu á þá sem alls ekkert kunna.
Nú skaltu hugsa því kallið hér kemur
kallinn hann þambar upp þína brunna
reistu þig við og reimaðu skóna
þú Ragnheiður Ingibjörg Valgerður Gunna
stattu nú sterk
með stöðugan verk
og hlýddu ekki á þá sem alls ekkert kunna.
Rífðu þig upp og rústberðu líkið
og reyndu að losna við þennan klunna
hentonum út helst í Mið Atlantshafið
og hérmeð þú ljómar einsog máni og sunna.
stattu svo sterk
stöðug og merk
og hlýdd´ ekki þeim sem alls ekkert kunna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.3.2009 | 20:34
Vera ber.
Ef þú bankar með bambus á mínar dyr
og biður um Auðnu þér til handa
þá er eins víst að vísdómur sofni
vært út við sæbarða kolsvarta sanda.
En þú ert ekki til og þú ert ekki hér
en þó ertu einsog hún Vera ber.
Nú kurr er í Sveini og korgur í bollum
og Karl rífur hár sitt oft á dag
nú hárið er í sátu sem safnað var saman
og send til að fóðra eitt moldarflag.
En hún er ekki til og hún er ekki hér
en þó er hún einsog hún Vera ber.
Að lokum fer ljósið í flæmingi undan myrkri
og lokað verður fyrir fullt og fast.
Hún Vera var vera sem búin er að vera
eftir veglegt kraftmikið brjálæðiskast.
En hún var ekki til og hún var ekki hér
en þó var hún einsog hún Vera ber.
Bloggar | Breytt 7.3.2009 kl. 12:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.3.2009 | 22:37
Vorvísa
Ef þú átt eitt vor til að gefa mér
og urmul af leyndum þráðum
þá gætum við sæst við framtíð og for
og fundið það sem við dáðum.
Og ef að mín lukka mig léki við
og lánaði mér nokkra daga
þá yrði ég aftur fleygur og frjáls
en fráleitt einhver framhaldssaga.
Sól og stjörnur, tungl og tími
haf og hauður, tímanna tákn
elli og æska, karl og kona
minning og mæða, brunninn bákn.
Hví skildi´ ég ekki skála fyrir því
sem skilur milli lífs og dauða
og horfa á Guðs sjóndeildarhring
og til himinsins fagurrauða.
Og eitt er víst og annað á reiki
og ekkert til að státa sig af
en þú hafðir eitt sinn á þínu valdi
þrána sem Guð mér einum gaf.
Sól og stjörnur, tungl og tími
haf og hauður, tímanna tákn
elli og æska, karl og kona
minning og mæða, brunninn bákn.
En vikur og ár eru válynd nú
og varla nokkuð sem þú getur gert
og biðja þig um tíma með tárum
tel ég ekki ómaksins vert.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
2.3.2009 | 19:23
Fegurð
Allt er fullt af fegurð
en feigðarangan í vori
ég teiga tæran himinn
en tapa þínu spori
þú dansar við dökka nótt
og duflar við kvöldsins eld
jöklar og jötnar hníga
og játast þér öll kveld.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)