2 ljóð

Var að leika mér við að setja tvö ljóð saman í eitt. Kom bara ágætlega út eða hvað finnst ykkur??

málað

Nú er ég staddur hinumegin við hvergi
í hávaða svo auðveldum að hlustirnar kveina
ég held á glasi og bjórinn minn bergi
og ber á herðum mér krossa og steina.

Þú ert farin en þó ertu hér
þögnin er hærri en allt sem er
hamingjan fylgi þér hérumbil
hafðu það gott svona umþaðbil.

Við eigum myndir og minjagripi
og málaðan staf
þessir litir og líkneskin smáu
lifa okkur af.

Ég horfi oní djúpið og drekk þess minni
með dáið bros fast í tannlausum garði
ypptandi öxlum yfir fornri framtíðinni
sem við fortíð rétt svo jafntefli marði.

Ég sé þig fara með fölleitt skott
þér finnst kanski´ einsog vont sé gott
þó að það svíði þá sveið meir fyrr
og sumar nætur var ég jú kyrr.

Við eigum myndir og minjagripi
og málaðan staf
þessir litir og líkneskin smáu
lifa okkur af.

Ég gefst ekki upp, nei aldrei ég brotna
og ekki sýnast mér himnarnir fagna
ég öskra ég æpi, horfi á sjálfan mig rotna
og elska þartil ég að eilífu þagna.

Ég veit ég hverf það er vitað mál
á veraldarbotn ein gömul sál
sem þekkti Guð sinn en gleymdi skjótt
en Guð minn komdu ég sekk of fljótt

Við eigum myndir og minjagripi
og málaðan staf
þessir litir og líkneskin smáu
lifa okkur af.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Djúpt og innihaldsríkt.   Blandast vel saman.  Eins og það hafi alltaf verið bara eitt ljóð.

Allnokkuð skárra en ávaxtaarían sem verður að teljast mitt mesta hnoð. 

Anna Einarsdóttir, 18.5.2009 kl. 23:28

2 Smámynd: Brattur

Þú klikkar aldrei... og kannt að búa til flottar setningar eins og þessa;

"Nú er ég staddur hinumegin við hvergi"

Mikil músík í "viðlaginu"...

Flott ljóð... virkilega flott...

Brattur, 21.5.2009 kl. 11:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband