25.12.2008 | 00:39
Fæddur er frelsari.
Fyrir umþaðbil tvö þúsund árum síðan fæddist lítið barn í borg Davíðs, Betlehem. Eini tilgangurinn með fæðingu þessa litla drengs, var að gefa okkur eilíft líf, frelsa okkur frá eilífum dauða, vísa okkur veginn til Guðs föður og að lækna okkur og bænheyra. Hugsum okkur að við séum í fjárhúsinu í Betlehem, horfum á nýborið barnið, sem er bæði Guð og Maður, fætt til að frelsa okkur. Hvílik upplifun hlýtur það að vera, að horfa á lávarð heimsins, nýfæddann og jafnvel vera viðstaddur þegar vitringarnir þrír færðu hinar fyrstu jólagjafir. Tala nú ekki um Betlehemsstjörnuna sjálfa. En, til þess að geta gert allt fyrir okkur varð hann að þola þvílíkar kvalir og smán að líklegast hefði enginn annar getað þolað slíkt. Því, þetta yndislega barn var síðan krossfest einsog hver annar ótýndur glæpamaður. En, ólíkt glæpamönnum og reyndar ólíkt öllum öðrum fór hann syndlaus gegnum lífið, allt þar til hann lést á krossinum. Þá tók hann á sig syndir allra manna til þess að við gætum farið syndlaus í himnaríkið þegar þar að kæmi. Hugsið ykkur byrðarnar sem hann bar, allar syndir mannkyns og maðurinn Jesú hafði verið barinn og kvalinn og hengdur upp á krossi. Og þá sagði hann Faðir fyrirgef þeim því þeir vita ekki hvað þeir gera. Ég er svo heppinn að hafa kynnst þessu litla barni. Og ég veit að hann hefur þekkt mig lengur en ég hann. Ég veit að hans eini tilgangur var að frelsa mig og þig. Hann vill allt fyrir mig og þig gera. Þú þarft bara að láta hann vita því hann treður ekki gjöfum sínum upp á neinn.Hann situr hjá Guði föður og biður fyrir mér og þér. Þessi Guðni er nú ekkert slæmur strákur heyri ég hann segja og ég veit að hann þarf bara að segja það einusinni því Guð faðir gleymir engu. Ég heyri hann líka segja hún Katrín Ísafold er ekkert slæm stelpa, hann Villi Svan er ekkert slæmur strákur, hann Ólafur Ragnar er ekkert slæmur strákur. Og hann þarf bara að segja þetta einusinni því Guð faðir veit að Guð sonur, Jesús Kristur fer ekki með fleipur. Við þurfum bara að segja, já við erum ekkert slæm en Guð vertu okkur syndugum líknsamur. Ég get ekki nógsamlega þakkað þessu litla barni sem fæddist í Betlehem og var lagður í jötu til hvílu og festur á krossi til að deyja. En, hann dó ekki því hann reis upp frá dauðum, hann lék á þá þar! Hann hafði reyndar áður reist fólk upp frá dauðum þannig að þetta hefði ekki átt að koma æðstu prestunum og rómverjum á óvart, hafi þeir haft fyrir því að kanna málin áður en deir dæmdu hann til dauða. Fögnum komu frelsarans á þessum jólum, lofum hann og tilbiðjum því hann er okkar eina vörn í ólgusjó lífsins. Gleðileg jól.
Heims um ból, helg eru jól,
signuð mær son Guðs ól,
frelsun mannanna, frelsisins lind,
frumglæði ljóssins, en gjörvöll mannkind
:/: meinvill í myrkrunum lá :/:
Heimi í hátíð er ný,
himneskt ljós lýsir ský,
liggur í jötunni lávarður heims,
lifandi brunnur hins andlega seims,
:/: konungur lífs vors og ljóss :/:
Heyra má himnum í frá
englasöng: Allelújá.
Friður á jörðu því faðirinn er
fús þeim að líkna, sem tilreiðir sér
:/: samastað syninum hjá :/:
Athugasemdir
Christian Glitter by www.christianglitter.com
Guð gefi þér og þínum Gleðileg Jól og farsælt komandi ár.
Vertu Guði falinn
Kær kveðja/Rósa
Rósa Aðalsteinsdóttir, 25.12.2008 kl. 01:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.