21.12.2008 | 16:44
Ekki minnast á morgundaginn
Þetta kvæði hef ég áður birt en það hefur sótt á mig undanfarið þannig að hér kemur það að nýju.
Ekki minnast á morgundaginn
ekki muna eftir því sem gerðist í gær
við erum hér saman í stjörnunnar ljósi
og sjálf nóttin er bæði gegnsæ og tær.
Sýndu mér heiminn sem áður var hulinn
því hér er vor stund og augnablikið
taktu mig í fangið og frelsið mér gefðu
því frostrósabeðið er gróskumikið.
Ekki gráta þær gleymdu stundir
sem gærdagur deyddi með berum klóm
vertu mér minning um eilífa æsku
en ekki um gaddfreðið frostrósablóm
Nú skuggarnir dansa og dögunin kemur
og draumurinn bráðum úti er
þú munt sjá að ég var til staðar
þá stund sem helguð var mér og þér.
Ekki minnast á morgunn sem kemur
sem munaðarfull löngun í huga þér
komdu í fang mitt og frelsið mér gefðu
þú fegurð sem ekki ætluð var mér.
Ekki minnast á morgundaginn
ekki muna eftir því sem gerðist í gær
við erum hér saman í stjörnunnar ljósi
og sjálf nóttin er bæði gegnsæ og tær.
Athugasemdir
Sæll og blessaður
"Hafið því ekki áhyggjur af morgundeginum. Morgundagurinn mun hafa sínar áhyggjur. Hverjum degi nægir sín þjáning." Matt 6:34.
Þú ert duglegur að blogga svona rétt fyrir jólin. Ertu búin að lesa söguna sem ég birti á blogginu mínu? Kíktir þú í Mosaik í dag?
Vertu Guði falinn
Kær kveðja/Rósa
Rósa Aðalsteinsdóttir, 21.12.2008 kl. 18:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.