Fjallið og dalurinn

 fjallabúi

Það var kvöld. Við gengum saman fjallabúinn og ég eftir þröngu einstigi í fjallgarðinum ógurlega með hvössu tennurnar tilbúnar að bíta í okkur. Það var fyrsti maí. Sólin var að setjast fyrir neðan okkur og þokuslæðingur huldi dalinn. Við vorum léttbúnir, nánast naktir, vel á okkur komnir. Ekkert gæti komið í veg fyrir að við næðum áfangastað. Einstigið var þröngt og lausagrjót talsvert. Það var farið að kula. Ég hafði farið að heiman með leyfi læknisins sem var farinn að treysta mér betur eftir því sem tíminn leið.Ég átti erindi hátt upp í fjallið. Fyrir stuttu síðan áðum við og fengum okkur heitt kakó. Þó það væri farið að kula fundum við ekki fyrir því, því gangan var erfið og öll uppí móti. Við gengum framhjá nokkrum fjallaenglum og köstuðum á þá kveðju en þeir létu sem þeir sæju okkur ekki. Við því var ekkert að gera. Mér varð hugsað til fyrsta ástarbréfsins sem ég skrifaði, það var til Nínu. Hvar skyldi hún vera í dag? Kanski beinaber nunna hinumegin skarðsins. Fallega liðaða dökka hárið væntanlega orðið öskugrátt og brjóst hennar hniginn. Þetta var ekki vel skrifað bréf.  Uppfullt af orðskrúði sem ég skildi ekki sjálfur. Enda sendi ég það aldrei. Ég á það enn og geymi það undir steini úr hrundu borgarvirkinu. Læðist stundum þangað á kvöldin og les það, en ekki oft. Síðan þá hef ég skrifað mörg ástarbréf og vandað vel til þeirra enda skiluðu þau flest árangri. Sérstaklega gekk vel með Mónu en henni giftist ég síðar og við bjuggum saman í fimmtán ár, allt þar til hún varð undir snjóflóði og lést. Ég man að ég skrifaði bréfið til hennar með tékkneskum blýanti sem kostaði þrjár krónur. Ég skrifaði reyndar mörg ástarbréf á meðan ég var giftur Mónu en hún komst aldrei að því, því ég er alltaf eitthvað að skrifa. Það er ekki lengur hægt að fá svona tékkneska blýanta. Þeir voru gráir.Áfram höldum viðég og  fjallabúinn að klifra einstigið. Okkur gengur vel og miðar hraðar áfram en við gerðum ráð fyrir. Við ættum að ná fyrir myrkur.Skrítið með þennan fjallabúa. Hann er búinn að búa í helli hérna í fjallinu alla sína æfi. Aldrei yfirgefið fjallið, aldrei komið niður í dalinn. Hann er með sítt grátt hár og mikið grátt skegg. Sterklega vaxinn. Hann gengur á undan og er í raun fararstjórinn í þessari ferð minni sem ég er búinn að undirbúa í nokkrar vikur. Ég sendi fyrirspurn til hans þegar ljóst var að ég fengi að fara. Einn sjúkraliðinn þekkti til hans. Fjallabúinn var lengi að ákveða sig en féllst svo að lokum á að fara með mér. Ég er viss um að hann hefur hvorki fengið né sent ástarbréf. Og þekkir væntanlega ekki til tékkneskra blýanta. En það ganga þær sagnir á hælinu að hann þekki sjálfan Guð sem býr í fjallinu hans. Ekki þessi eini Guð sem við tilbiðjum heldur Guð fjallsins, sá Guð sem skapaði þetta fjall og á það. En ég er ekki tilbúinn að trúa því, vegna þess að ég er ekki vissum að það sé til fjallaguð. Ef svo væri ætti fjallabúinn að þekkja tékkneska blýanta því á sinni tíð voru þeir þeir bestu í heimi. Ég vildi að ég hefði gifst Nínu, þá hefðu hlutirnir kanski orðið öðruvísi. Þó er það ekki víst, hlutir sem eiga að gerast gerast. Annars var Móna ágæt. Það styttist í áfangastað og ég er farinn að finna fyrir spenningi. Það var orðið lítið um engla og önnur dýr enda vorum við komnir talsvert hátt. Einstigið varð þrengra og brattara og langt fyrir neðan okkur voru þorpin að búa sig til hvíldar. Ég horfði beint niður á þau. Lengra í vestur var vatnið eina sem náði langt inn í önnur lönd. Ég hafði baðað mig þrisvar í því en var alltaf bjargað. Þannig var nú það.Ég hafði aldrei farið svona hátt upp í fjallið. En ég vissi þó að áður en að toppnum væri náð kæmum við að stökkpalli. Og við nálguðumst. Skyndilega snarbeygði einstigið fyrir hátt og mikið bjarg. Við þurftum að faðma klettinn til að komast framhjá. Hinumegin við klettinn sáum við stökkpallinn.  Hann var byggður líktog svalir fram af fjallinu. Og ekkert fyrir neðan nema dimmur dalurinn í órafjarlægð. Við námum staðar og kíktum niður. Ég tók utan um fjallabúann, hélt honum að mér og síðan stukkum við. Stuttu seinna kom fjallabúinn í fyrsta sinnið í þennan fallega dal.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband