11.4.2008 | 09:37
Bob Marley
Það hafa komið út næstum óteljandi plötur og geisladiskar með Bob Marley frá fyrstu árum hans sem tónlistarmaður. Útgáfurnar hafa flestar verið illa unnar og upplýsingar sem fylgt hafa með verið rangar og misvísandi. Þetta á sérstaklega við um upptökur sem Bob Marley og hljómsveit hans The Wailers gerðu með hinum dularfulla Lee Scratch Perry, en með honum tóku þeir upp næstum sextíu lög seint á sjöunda áratuginum og snemma á þeim áttunda. Margar ólöglegar útgáfur hafa séð dagsins ljós og því hafa þessar hljóðritanir ekki notið þeirrar virðingar sem þeim ber. Því ber að fagna því að nú loksins hafa þessar hljóðritanir verið gefnar út með þeirri virðingu sem þeim ber. Útgáfufyrirtækið Trojan records hefur farið meistarahöndum um þessa dýrgripi og notað alla nýjustu tækni til að lögin hljómi sem best. Afraksturinn er að finna í sex diska pakka sem ber nafnið The complete Upsetter Collection. Í þessum kassa er að finna allar þær upptökur sem Bob Marley gerði með Lee Perry. Lee Perry var þá með með útgáfu og hljómsveit sem hann kallaði The Uppsetter. Fyrsta lagið sem Perry hljóðritaði með Bob Marley heitir Try me. Þetta lag vakti töluverða athygli á Marley og hans músik og samstarf hans og Perry stóð yfir í all langan tíma. Rétt áður en hljómsveitin Wailers lagði af stað í heimsreisu árið 1972 hljóðrituðu þeir lagið Soul Rebel sem Marley og Perry sömdu saman. Heimurinn var tilbúinn fyrir Bob Marley and The Wailers og framundan var heimsfrægð. Annað gott við þennan kassa frá Marley er að hann kostar lítið meira en venjulegur tvöfaldur diskur. Menn eru ekki að smyrja á góðgætið mörgum aurum og slíkt er orðið fátítt þessa dagana.
Athugasemdir
Takk, gaman að vita af þessu. Frábær tónlist.
Marta B Helgadóttir, 11.4.2008 kl. 09:59
cool...
Gulli litli, 11.4.2008 kl. 10:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.