12.3.2008 | 12:07
Skuggarnir lengjast.
Skuggarnir lengjast ég sé það nú
því sólin er á leið til glötunar
brátt mun dimma því nóttin verður ný
og þá næ ég ekki lengur til jötunnar
þá held ég á leið til heimskunnar
og held ég sé á leið til gleymskunnar.
Árin þau styttast mínútur mjókka
mörg tungl hafa gengið til þurrðar
ég kemst ekki út því ég fór aldrei inn
ég er því staddur milli stafs og hurðar
mig fýsti á helveg heimskunnar
heim á leið til gleymskunnar.
Ég hef kroppað eitt og annað svar
en ekkert af þeim ég vildi
nema eitt sem var í himinsins óra firrð
og eina var það orðið sem ég skildi
er hálfnaður var ég til heimskunnar
haldandi í taumhald gleymskunnar.
Þó vorið sé liðið og haustið það hamist
þá held ég að svarið mér forði
frá vetri og kulda og villuljósum
og varla fær það grandað ódauðlegu orði
ég held af vegi heimskunnar
held í fegurð gleymskunnar
Athugasemdir
Sæll Guðni. Ég las þetta í byrjun hratt yfir og hélt í fyrstu að þú værir að lýsa því að þú værir komin með Alzheimer. En við frekari lestur sá ég að þú er þarna að lýsa trúar upplifun.
Vill bara taka undir með öðru fólki sem hefur verið að benda þér á að þetta þyrfti kannski að komast á prent. Þetta eru ávallt vel ort ljóð hjá þér og væri synd ef þau væru aðeins í boði hér á bloginu. Man eftir því að fyrir mörgum, mörgum árum gerðir þú ljóðabók, ljóðahefti. Man nú ekki mikið eftir ljóðunum þar en finnst upplifun mín af þessum benda til að þú farir bara batnandi með árunum.
Kveðjur
Maggi B
Magnús Helgi Björgvinsson, 12.3.2008 kl. 12:45
... gaman að lesa ljóðin þín Guðni, ég er ekki endilega sammála því að það þurfi að gefa ljóð út á bók í dag... ég hef notað mína bloggsíðu til að birta ljóð og smásögur innan um allskonar bull sem ég skrifa af fingrum fram... held að þó það séu ekki margir sem lesa t.d. síðuna mína, þá séu það fleiri en myndu lesa bók með ljóðum eftir mig... bloggið er skemmtilegur vettvangur að koma hugsunum sínum á framfæri... hverjar svo sum þær eru...
Brattur, 12.3.2008 kl. 21:03
Fallegt að venju!
vertu annars velkominn á opnun, ég verð með nokkrar.
Ragga (IP-tala skráð) 12.3.2008 kl. 22:09
fyrir minn smekk, bók. Ég les ljód ødruvísi í bók en á netinu, en vil frekar lesa tau å netinu heldur en ekki!!
Gulli litli, 12.3.2008 kl. 22:52
Þarna er Gulli litli búinn að segja það sem ég hugsa.
Takk fyrir að birta.
Marta B Helgadóttir, 13.3.2008 kl. 01:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.