4.3.2008 | 16:42
The Queen is Dead
The Smiths er álitin af mörgum mikilvægasta hljómsveit breta á níunda áratuginum. Hún var stofnuð í Manchester á vordögum árið 1982. Morrissey, en hans rétta nafn er Steven Patrick Morrissey og Johnny Marr og hans rétta nafn er John Maher hófu samstarf sem lagahöfundar og sem slíkir kölluðu þeir sig Smiths. Morrissey hafði starfað með hljómsveitinni Nosebleeds og skrifað gagnrýni í Record Mirror en Marr afturámóti verið í hinum ýmsu Manchester sveitum og þarámeðal Paris Valentinos, White Dice, Sister Ray og Freaky Party. Er sól fór hækkandi á lofti 1982 ákváðu þeir að stofna hljómsveit og tóku upp nokkur demo með trommaranum Simon Waltencroft. Sá vildi hinsvegar ekki verða fastameðlimur í hljómsveitinni en síðar gekk hann í hljómsveitina Fall. Mike Joyce kom svo í hans stað en hann er einnig frá Manchester einsog þeir Marr og Morrissey. Mike Joyce hafði verið í pönksveitunum Hoax og Victim. Í lok ársins 1982 gekk svo bassaleikarinn Andy Rourke til liðs við þremenningana og The Smiths var orðin Fullsköpuð.
Náungi að nafni Joe Moss tók þá undir verndarvæng sinn og gerður var samningur við Rough Trade. Fyrsta smáskífan, Hand in Gloves kom út um vorið 1983. Sú komst því miður ekki inná topp fimmtíu svo byrjunin var ekki góð. Ekki gekk næsta smáskífa betur en sú þriðja What difference does it make náði tólfta sæti. Það gerðist í kjölfar misheppnaðrar Ameríkuferðar. Textar Morrissey voru farnir að vekja athygli og umræður. Sitt sýndist hverjum er Morrissey fjallaði um misnotkun á börnum og annað tabú sem ekki voru vanaleg yrkisefni rokkara. Samt sem áður smellpössuðu textarnir við fínar lagasmíðar Marrs og við glimrandi gítarleik hans.
Fyrsta stóra platan kom út 1984 og var undir stjórn John Porter. Hét afurðin einfaldlega The Smiths og hlaut einróma lof.
En við skulum fara fram á við og til ársins 1986. Þá um vorið kom út þriðja hljóðversplata The Smiths, The queen is dead.
Þeir eru margir sem halda því fram að hér sé um bestu plötu The Smiths að ræða. Og eitt er víst, það er mjög auðvelt að taka undir þau orð. Stórkostlegar lagasmíðar Johnny Marrs og beinskeyttir textar Morrissey falla saman einsog flísar í feitan vinnukonurass. Snjall gítarleikur Marrs er svo yfir og allt um kring án þess þó að vera allt of áberandi. Ryþmaparið er frábært og Morrissey syngur einsog engill.
Big mouth strikes again er eitt af frægustu lögum The Smiths. Það var gefið út á smáskífu áður en stóra platan sjálf kom út. Þetta lag fór hátt uppá vinsældarlistum. Hér eru Smiths uppá sitt besta og gítarleikur Marrs er stórkostlegur.
Tímaritið Q sagði svo; aldrei áður hafa Marr og Morrissey skapað svo fína plötu. Metnaðarfull, tregablandin, stórkostleg tónlist. Annað tímarit, NME setti hana í tíunda sæti yfir bestu plötur allra tíma. Og það er ekki lítið afrek.
Fyrir utan að semja öll lögin á plötunni stjórnuðu þeir Marr og Morrisey einnig upptökum á The queen is dead. Platan var tekin upp um veturinn 1985 og kom svo út í sumarbyrjun 1986 einsog fyrr sagði. Húmor, tregi, dapurleiki, háð, þetta er allt að finna í textum Morrisey. Hann yrkir um drottningar sem loksins ákveða að koma útúr skápum sínum og verða fyrir miklum vonbrigðum. Heimurinn sem tekur á móti þeim er hundfúll og leiðinlegur, hjartalaus og kaldur. Það hefði kanski verið betra að vera bara kyrr inní sínum skáp og skapa þar þá veröld sem var drottningunum meira að skapi.
Að margra áliti er hápúnktur plötunnar Take me out tonight. Þar fjallar Morrisey um einmanaleikann á stórkostlegan hátt. Hann verður aldrei væminn, heldur einlægur. Lagsmíð Marrs er hreint út sagt stórkostleg. Strengirni eru útsettir af Marr og það er strengjasveitin The Hated SALFORD ORCHESTRA SEM LEIKUR.
Á þessari plötu reis sköpun þeirra Marrs og Morrissey einna hæst. Yahoo music tekur svo djúpt í árinni að kalla þessa plötu meistaraverk og hápúnktinn á ferli The Smiths. Þarna sé allt að finna sem prýða megi eina plötu. Vönduð vinna sé þarna í fyrirrúmi og flutningur allur með glæsibrag.
Athugasemdir
Ég hef alltaf elskað Smith og tel að í þeirri samvinnu hafi framlag morrisay vegið þyngra. Góðir textasmiðir rista dýpra og því til rökstuðnings stóð Lennon alltaf betur sem tónlistarmaður en mccartnay á sínum soloferli einfaldlega vegna þess að hann var betri textahöfundur. Sama gerðist með morrisay. Þó svo að marr hafi átt fína spretti, þar á meðal með The The, Standa soloplötur morrisay ávalt nær mér í gæðum einmitt vegna textanna en stærstur hluti af því sem marr hefur gert. Að sjálfsögðu er þetta bara eins mans skoðun og list er og verður alltaf smekksatriði en ekki heilagur sannleikur.
Takk fyrir þennan pistil. Hann vekur upp góðar minningar.
Brynjar Jóhannsson, 6.3.2008 kl. 19:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.