25.1.2008 | 16:04
Joy Division
Hljómsveitin var stofnuð snemma árs 1977, stuttu eftir að Sex Pistols kom fram í fyrsta sinn í Manchester. Bernard Albrecht gítarleikari og Peter Hook bassaleikari höfðu hist á tónleikum Sex Pistols og síðar stofnað hljómsveitina Stiff Kittens. Eftir að hafa auglýst eftir söngvara og trommara, gengu þeir Ian Curtis söngvari og Steve Brotherdale til liðs við þá tvímenninga. Þeir skiptu um nafn og kölluðu sig Warsaw eftir samnefndu lagi Bowies. Þeir komu fram fyrst opinberlega í maímánuði 1977 í Manchester Electric Circus. Þeir hituðu þar upp fyrir Buzzcocks ogg Penetration. Eftir að hafa tekið upp nokkur demolög hætti Steve Brotherdale trommari og Stephen Morris tók sæti hans við trumburnar. Í ágúst mánuði skiptu þeir enn um nafn og Joy Division varð til. Joy Division fundu þeir í bók Karol Cetinsky um síðari heimsstyrjöldina, The House of Dolls. Í bók þeirri voru fangar í útrýmingarbúðum nasista neyddir til að kalla hús eitt Joy Division, eða gleðideildina, en þar neyddu nasistar fangana til samræðis.
Snemma árs 1978 spilaði Joy Division víðsvegar um norður England og vöktu töluverða athygli. Rob Gretton, plötusnúður varð umboðsmaður þeirra. Þeir vöktu einnig eftirtekt þeirra Tonys Wilsons, tónlistarfréttamanns og eiganda Factory records, og Derek Branwood starfsmannns RCA sem seinna hljóðritaði tónlist Joy Division sem átti að verða fyrsta plata sveitarinnar. Á þessum upptökum má heyra það sem seinna varð vörumerki Joy Division, eyrðarleysi Ian Curtis, drynjandi bassagang Hooks og hvöss gítarriff Albrecht.
Þessar upptökur hefðu átt að verða hylltar sem pönkklassík en þegar tæknimaður nokkur bætti ofan á upptökurnar synthesæserum hættu þeir við allt saman. Það hafði skapast nýtt sánd og það vildu þeir ekki byggja á þessum lögum heldur semja ný. Reyndar komu þessar upptökur svo út tíu árum seinna undir nafninu Warsaw. Fyrsta stóra platan kom út í júlí 1979 og hlaut sú nafnið Unknown Pleasures. Reyndar hafði komið áður ep platan An ideal for living. Stóra platan hlaut góða gagnrýni og dvaldist langddvölum á óháða vinsældarlistanum
Tónleikar Joy Division seinni hluta árs 1979 vöktu umtal, sérstaklega vegna bágs heilsufars Ian Curtis. Hann var flogaveikur og átti það til að hníga niður á konsertum. Einnig var undarleg framkoma hans á konsertum farin að verða hluti af hans eigin lífi og brátt varð erfitt að greina þar á milli. Eftir stutt hlé kringum jól 1979 og hljómleikaferð um Evrópu hófu Joy Division að hljóðrita plötu númer tvö og sendu frá sér smáskífuna ágætu Love Will Tear us Apart. Sú smáskífa hlaut góða dóma en samt sem áður komst hún ekki lengra en inná óháða listann. Eftir tónleika í maí mánuði fengu meðlimir Joy Division tveggja vikna frí fyrir fyrirhugaða Bandaríkjaferð. Tveimur dögum fyrir brottför fannst Ian Curtis látinn, hann hafði hengt sig.
Áður en Ian Curtis dó höfðu meðlimir ákveðið að ef einhver hætti í bandinu yrði það samstundis leyst upp. Kaldhæðnislegt er til þess að hugsa að 1980, eftir dauða Curtis var blómaskeið Joy Division. Love will tear us apart var gefið út afur og fór þá í þrettánda sæti vinsældalistans. Í ágúst kom svo stóra platan, Closer út og loks fór saman góð gagnrýni og mikil sala. Closer fór í sjötta sætið.
Closer kom út í ágústmánuði 1980 og einsog áður sagði fékk hún fína gagnrýni. AMG gefur henni tildæmis fimm stjörnur af fimm mögulegum. Closer er ferðalag inní kalda vonlausa veröld fulla af grimmd og söknuði. Það er lítil sem engin hlýja í tónlistinni, kaldur málmkenndur ryþmi einokar hana. Söngur Ian Curtis er fjarrænn, en samt sem áður er nærvera hans mjög mikil. Beittir gítarar og rifin syntariff fullkomna svo þetta frystihús, sem þrátt fyrir allt hefur einhverja hlýju.
Ian Curtis varð tuttugu og þriggja ára. Eftir dauða Curtis stofnuðu eftirlifandi meðlimir hljómsveitina New Order en það er allt önnur saga.
Athugasemdir
Mér líður alltaf eins og ég hafi skroppið inn í konfektkassa í stutta heimsókn, þegar ég les skrifin þín, falleg hugsun skín í gegn
Marta B Helgadóttir, 26.1.2008 kl. 00:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.