27.11.2007 | 11:04
Þetta þykir mér nú ekki merkilegt.
Ég er nefnilega miklu bíræfnari ræningi en þetta. Einusinni ætlaði ég að ræna hænsnabú með teygjubyssu. Ég átti fína teygjubyssu sem ég af alkunnri snilld bjó til sjálfur. Flestir vita hvernig teygjubyssa lítur út. Teygjan sem ég notaði var gerð úr reiðhjólaslöngu sem klippt var í litlar teygjur og var mjög kraftmikil. Ég útbjó mér einnig grímu úr pappa sem ég hafði áður litað svartan. Setti indíánafjöður í lubbann og æfði mig á að segja stiggimöpp. Útbjó skikkju úr gömlu laki og var til í slaginn. Það var hænsnabú fyrir ofan Hæðargarðinn, hinumegin við Grensásveginn þarsem nú eru stórar blokkir. Það var heimtröð að búinu og lítið einbýlishús þar rétt hjá. Eitt síðdegið klæddi ég mig í múnderinguna og ákvað að ræna hænsnabúið. Ætlaði að ná í svona tíu kíló af eggjum og ganga síðan í nærliggjandi hús og selja ódýrustu egg í bænum. Hugur minn var nefnilega hjá peningalitlum húsmæðrum Bústaðahverfisins. Ég læddist meðfram hitaveitustokknum, með teygjubyssuna miklu tilbúna, hvíslandi stiggimöpp. Mér við hlið var ekki minni maður en Lóni Ránger ósýnilegur öllum nema mér. Einstaka villiköttur úr hitaveitustokknum skaut okkur skelk í bringu en áfram héldum við. Skutumst yfir Grensásveginn á ógnarhraða og aftur í skjól við hitaveitustokkinn. Læddumst í skjóli skýa að hænsnabúinu sem hafði reyndar breyst í hænsnabúgarð, var orðinn ógnarstór. Efinn fór að hríslast um hetjurnar, búgarðurinn ógnandi, kanski bara herrasetur og húsmæður Bústaðahverfisins orðnar velstæðar heimavinnandi velefnaðar konur. Höfðu í raun ekkert að gera við ódýr egg. Kanski var best að bíða eftir hallærisárum og styrkja þær þá. kanski sniðugra að teika bara bíla og sleppa eggjunum enda voru hænurnar frekar ófríðar og eggin ekkert sérlega kræsileg. það var til betri vara í Ólabúð og Óli jú sanngjarn kaupmaður. Við Lóni Ránger ákváðum í sameiningu að splitta hópnum og ráðast á hænsnaherragarðinn síðar. Hann hefur ekki látið sjá sig enn og teigjubyssann horfin sem og hitaveitustokkurinn. Kanski er þessi bogaræningi meiri hetja en við Lóni Ránger.
Framdi rán vopnaður boga og örvum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Nú komstu mér til að skella upp úr Guðni, takk fyrir skemmtilega frásögn
Guðrún Jóhannesdóttir, 28.11.2007 kl. 00:38
Frábær og fyndin færsla hjá þér
Marta B Helgadóttir, 30.11.2007 kl. 01:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.