14.11.2007 | 11:36
3 gamlir útvarpsþættir um Van Morrison
Einhverntímann fyrir langalöngu flutti ég þrjá þætti um Van Morrison. Hér eru þeir í drögum að handriti, óritskoðaðir!! Því gæti verið villa hér og þar en vona samt ekki.
Góðan dag góðir hlustendur rásar tvö. Guðni Már Henningsson heiti ég. Þegar ljósið skín nefnast þrír þættir um tónlistarmanninn írska Van Morrison sem verða á dagskrá rásar tvö um páskana og þetta er fyrsti þátturinn. Van Morrison hefur aldrei passað inní breiðstræti rokksins. Hann hefur ekki átt lag á topp fjörutíu í meira en tuttugu og fimm ár, en samt sem áður er hann einn áhrifamesti listamaðurinn í rokk sögunni. Írsk goðsögn sem hefur rödd sem hljómar eins og afkvæmi Dylan Thomas og Billie Holiday ef slíkt afkvæmi væri til.
Van Morrison fæddist 31 ágúst 1945 í Belfast Norður Írlandi. Skírnarnafn hans er George Ivan. Faðir hans var mikill áhugamaður um bandarískan blús og jass og Gerge Ivan ólst upp við það að hlusta á menn einsog Leadbelly og Hank Williams. Sína fyrstu upplifun í tónlist rekur Van Morrison aftur til tveggja ára aldurs. Þá var faðir hans að spila MAHALIA JACKSON og drengurinn ungi segist hafa öðlast trúarlega alsælu við það að heyra í þessari miklu söngkonu. Kanski þessi mikla söngkona hafi sáð því fræi í brjóst unga sveinsins sem síðar varð að mikilli trúarsannfæringu og kom síðar oft fram í listsköpun hans.
Hann gleypti semsagt í sig blökkumannatónlist með móðurmjólkinni og ungur fór hann að herma eftir. Hann hætti í skóla 15 ára gamall tilað helga sig tónlistinni. Lærði sjálfur á gítar og sótti um starf gítarleikara í írskri ungmennasveit, en var sagt að fyrir væru nokkrir slíkir og því enginn þörf fyrir hann. Gerge Ivan sneri þá heim en keypti sér saxófón á leiðinni. Þremur vikum síðar gékk hann í hljómsveitina sem saxófónleikari. Nokkrum árum síðar eða á árinu 1963 var hann kominn í hljómsveitina Them. Ryþmablúsband sem fljótlega varð gífurlega vinsælt í Belfast. Them gaf út nokkrar smáskífur um miðjan áratuginn, þarámeðal Baby please don't go og here comes the night. Báðar þessar smáskífur komust inná topp tíu á Bretlandi. Hljómsveitin dreif sig til Ameríku og lag Morrisons GLORIA varð þjóðsöngur þarlendra bílskúrsbanda.
Lag 1. (af Them) GLORIA.
Þetta var hljómsveitin Them með lag Morrisons Gloria. Sú hljómsveit sendi frá sér tvær breiðskífur. En Morrison leysti bandið upp og hefur ekki síðan verið í hljómsveit. Hann sneri aftur til Belfast með framtíðina óráðna. Þá fékk hann sendan í pósti flugmiða til Bandaríkjanna frá manni nokkrum sem hét Bert Berns. Sá hafði unnið talsvert með Them og nú vildi hann fá Van yfir og gera hann að stjörnu og gefa út nokkrar smáskífur með honum. Van þáði boðið og byrjunin lofaði góðu. Brown eyed girl komst inná topp tíu í Bandaríkjunum og var upphafið á sólóferli Van Morrisons.
Lag tvö: ( af Bang masters) BROWN EYED GIRL.
Þetta var fyrsta smáskífa Van Morrison, lagið Brown eyed girl. Mrrison tók upp nokkur lög fyrir Bert Berns og hafa þau komið út á stórum plötum undir ýmsum nöfnum. Líklega er safnið BANG MASTERS best, en einnig hafa sést nöfn einsog Blowin your mind, the best of Van Morrison og T.B. Sheets. Samnefnt lag er mikil og svakaleg tónsmíð um berkla. Þegar aðrir sungu All you need is love söng Van Morrison T.B. Sheets.
Lag 3 (af Bang masters) T.B. SHEETS.
Þarna heyrðum við hinn magnaða blús Morrisons T.B. Sheets.
Fljótlega slitnaði uppúr samvinnu þeirra Bert Berns og Van Morrison gerði samning við Warner bræður. Á því fræga ári 1968 hóaði hann saman nokkrum jassleikurum og fór með þá í hljóðver. Þar tók hann upp sína eiginlegu fyrstu stóru plötu og nefndi hana Astral Weeks. Þar má segja að lagið MADAM GEORGE sé hápunkturinn. Margir hafa spáð í þá kerlingu og ´bent á að þessi Madam beri sama heiti og flytjandinn sjálfur, þar að segja George. Strax á þessari plötu sækir hann yrkisefni sitt í bernskuslóðirnar í Belfast, Madam George býr í hverfinu hans og þar má heyra ýmis götunöfn nefnd, og þar á meðal Cyprus Avenue.
Lag 4 (af Astral Weeks) CYPRUS AVENUE
Þetta var lagið Cyprus Avenue af fyrstu plötu Van Morrisons Astral Weeks. Eftir útkomu hennar var Morrison talinn einn af mest skapandi listamönnum tímabilsins og æ síðan hefur þessi plata verið nefnd þegar talað er um bestu plötur rokksins.
Sýruhausar tóku hana með valdi en Morrison var þá og er enn mikill andstæðingur hverskonar eiturlyfja og alkóhóls.
Tveimur árum síðar sendi Van Morrison frá sér plötu sem átti eftir að kæta aðdáendur og gagnrýnendur. Þessi plata heitir Moondance og einsog á Astral Weeks samdi hann sjálfur allt efni og útsetti. Textarnir eru myrkir, rómantískir og miklar sjálfspælingar. Og þetta þrennt hefur lengi fylgt honum.
Lag (af Moondance) Into the mystic.
Þetta var lagið Into the mystic af annarri sólóplötu Van Morrisons, Moondance.
Á sama ári sendi hann frá sér plötuna His band and the street choir og fékk hún slæmar viðtökur; þótti ekki góð eftir tvær afburðaplötur. Samt sem áður er að finna á þeirri plötu eitthvert vinsælasta lag Morrisons, Domino.
Lag 6 (af Best of) Domino.
Domino af plötunni His band and the street choir. Þarna var Morrison farin að nota bakraddasöngkonur og hornaspil og sóltónlistinn alltumlykjandi. Á næstu plötu voru allt öðruvísi tónar. Þá leitaði hann í írskan uppruna sinn og samdi ljóð til þáverandi konu sinnar Janet Planet. Heyrum titillag plötunnar, Tupelo Honey.
Lag 7 (af Tupelo Honey) Tupelo Honey.
Á sama tíma og hann var að vinna við Tupelo Honey jammaði hann einnig með einni af gömlu hetjunum sínum, blúsaranum John Lee Hooker. Og það áttu þeir eftir að gera margsinnis.Komum að því betur síðar.
1972 kemur svo út fimmta plata Van Morrisons og nefnist hún St. Domic´s Preview. Þar er hann á svipuðu róli og á Tupelo Honey. Áhrifin sótt í írska tónlist og í sólið bandaríska. Þessi plata naut gífurlegra vinsælda og var tilaðmynda sex mánuði á bandaríska vinsældalistanum. Hápúnktur þeirrar plötu er hið ellefu mínútna lag Listen to the lion, en vegna hins nauma tíma okkar, sættum við okkur við styttri tónsmíð,engu lakari, sem ber nafnið Gypsy.
Lag 8 (af St. Dominic Preview.) GYPSY.
Þarna heyrðum við lagið Gypsy af plötunni St. Domic´s Preview.
Ári síðar leit dagsljósið platan Hard nose the highway. Þar spilar með honum Oakland sinfóníuhljómsveitin. Um sama leit á Van Morrison við erfiðleika að etja í einkalífi sínu. Hann og Janet Planet skilja eftir að hafa átt fimm ár saman og eina dóttur sem nefnist Shana. Á seinni árum hefur hún oft komið fram með föður sínum, bæði á tónleikum og á plötum. Van Morrison var þekktur fyrir magnaða tónleika og það var því ekker skrítið að í mars 1974 skyldi hann senda frá sér tónleikaplötu. Sú heitir It´s too late to stop now og er tvöföld. Með honum á þessari plötu er sveitin Caledonian soul orchestra sem haði spilað með honum undanfarin ár. Um það leiti sem þessi plata kemur út leysir hann Caledonian soul bandið upp. Við skulum heyra gamla Them smellinn Here comes the night af þessari ágætu plötu.
ag 9 (af It´s too late to stop now ) HERE COMES THE NIGHT.
Í nóvember sendir hann svo frá sér frábæra plötu sem nefnist Veedon Fleece. Mjög svo persónulegir textar einkenna hana og svo má í rauninni einnig segja um tónlistina sjálfa. Það er skrýtið að þessi plata hlaut frekar dræmar undirtektir og seldist illa. Heyrum eitt ágætis tóndæmi af Veedon fleece, lagið Come here my love.
Lag 10 (af Veedon fleece) COME HERE MY LOVE.
Þetta var Van Morrison af plötunni Veedon Flece og lagið Come here my love.
Eftir þetta tók Van Morrison sér þriggja ára leyfi frá plötusmíðum. Og það var ekki fyrr en í maímánuði 1977 að út kom platan Period of transition og fólk gat heyrt að eitthvað truflaði meistarann, því platan stóð engan veginn undir væntingum.
Næsta plata sem kom út ári síðar þótti öllu betri en enganveginn í sama gæðaflokki og flestar plötur hans. Þessi plata nefnist Wavelength og komst í tuttugasta og sjöunda sæti breska listans.
Það var ekki fyrr en ári síðar, er platan Into the music kom út að menn tóku gleði sína á ný. Mjög trúarleg og einlæg plata frá meistaranum. Á þessu ári sendi Bob Dylan frá sér plötuna Slow train coming og þóttu þeir sálarbræður höggva í svipaðan knérunn. Nema hvað Morrison prédikaði fyrirgefningu í stað ragnaraka einsog Dylan gerði. Heyrum lagið Full force gale af plötunni Into the music.
Lag 11 (af Into the music ) FULL FORCE GALE.
Þetta var lagið Full force gale af þeirri ágætu plötu Into the music. Trú og andlegir hlutir hafa æ síðan spilað stóra rullu í lífi hans og list.
Á næstu plötu sem heitir Common one og kom út 1980 var list hans orðin enn andlegri og jafnframt meira keltnesk. Það hefur verið þannig æ síðan, ýmist er hægt að flokka plötur hans sem keltneskar eða soul blues skotnar. Eða svo gott sem. Oft blandar hann þessu saman á listilegan hátt svo úr verður einstök blanda sem enginn getur borið fram nema Van Morrison.
1982 kemur út platan Beautyful Vision. Enn er sálartónlistin og sú írska í heilögu hjónabandi. Van Morrison syngur einnig á þessari plötu um æskuár sín í Belfast og hefur gert svo á nánast öllum plötum sínum síðan. Það er að segja, á öllum plötunum er hægt að finna lítinn sjálfsævisögulegan kafla. Beauityful vision er hreint mögnuð plata og því til sönnunar er hér upphafslag plötunnar, Celtic ray.
Lag 12 (af Beautiful vision) CELTIC RAY.
Þetta var lagið Celtic Ray af plötunni Beautiful Vision frá árinu 1982. Við skulum heyra eitt lag í viðbót af þessari plötu, lagið Cleaning windows, en þar í fjallar hann um æsku sína og tónlistarást í Belfast forðum daga.
Lag 13 (af Beautiful Vision) CLEANING WINDOWS.
Þetta var lagið Cleaning windows af þeirri ágætu plötu Van Morrisons Beautiful Vision.
Og þá erum við stödd á því ágæta ári 1983. Þá sendir Morrison frá sér einn gæðagripinn enn, plötuna Inarticulate speech of the heart. Sú sver sig í ætt við uppruna meistarans og er mjög keltnesk, eða kanski réttara sagt írsk. Oft hljóma lögin einsog gömul írsk þjóðlög en eru þó öll eftir Morrison sjálfann. Gott dæmi um það er lagið Irish heartbeat.
Lag 14 (af Inarticulate speech of the heart) IRISH HEARTBEAT.
Þetta var lagið Irish heartbeat af plötunni ágætu Inarticulate speech of the heart. Það er ekki hægt að skilja við þessa plötu án þess að heyra titillagið sjálft.
Lag 15 (af Inarticulate speech..) INARTICULATE SPEECH OF THE HEART NO.2.
Þarna heyrðum við titillag plötunnar Inarticulate speech of the heart með Van Morrison.
Næsta plata hans kom út ári síðar og var sú tekin upp á hljómleikum í fæðingarborg meistarans, Belfast og nefnist hún Live at the grand opera house. Van Morrison var þá kominn töluvert langt frá George litla Ivan sem hljóp heim til sín í matartímum til að hlusta á gömlu svörtu blúsarana leika listir sínar af hljómplötum. Þegar matarhléið var búið tók hann aftur til við þá iðju sína að þvo glugga. Þessi plata kom út í mars fyrir fimmtán árum og þykir enn sína hversu magnaður maðurinn er á hljómleikum. En við geymum okkur þessa plötu um stund, því síðar átti hann eftir að senda frá sér enn magnaðri hljómleikaplötu og af henni spilum við þegar við komum að henni í tíma. Í maí þetta sama ár söng hann með Bob Dylan á Wembley leikvanginum, lagið It´s all over now baby blue eftir Dylan, en þetta sama lag hafði gamla bandið hans, Them gefið út mörgum árum áður.
1985 sendir hann svo frá sér plötuna A sense of wonder.
Þá, og kanski miklu fyrr, má líta á textagerð hans sem fullburða ljóð. Enn fjallar hann í ljóðum sínum um trú, dulúð og rómantík.
Á plötuumslaginu þakkar hann Ron Hubbard, stofnanda Vísindakirkjunnar fyrir sig, en Van hafði eithvað verið að dufla við þá kirkju, en stuttu síðar sór hann allt slíkt af sér.
En hlýðum á titillag plötunnar, A sense of wonder.
Lag 16 (af A sense of wonder) A sense of wonder.
Þetta var titillag plötunnar A sense of wonder.
Ári síðar sendir Van Morrison svo frá sér einn gæðagripinn enn,
No guru, no method no teacher. Með titlinum sver hann af sér öll tengsl við Vísindakirkjuna. Fyrsta lag plötunnar nefnist Got to go back, og eins og svo oft er hann að rifja upp bernsku sína. Þar nefnir hann á nafn snillinginn Ray Charles en Morrison hefur tekið urmul laga sem Ray Charles hefur sungið.
Lag 17. (af No guru, no method no teacher) Got to go back.
Þetta var lagasmíðin ágæta got to go back.
Nú fór í hönd eitthvert al besta tímabil Van Morrisons og höfðu þó tímar ekki verið slæmir.
Í júní 1987 kom hann fram á Glastonbury ogþremur mánuðum síðar kom út platan ljúfa og vandaða Poetic champion compose.
Þar var Van í mjög afslöppuðu formi og hvert lagið á fætur öðru hreinasta eyrnakonfekt. Byrjum á því að heyra magnaða útsetningu á laginu Sometimes I feel like a motherless child.
Lag 18 ( af Poetic champions compose) SOMETIMES I FEEL LIKE A MOTHERLESS CHILD.
Þetta var útsetning Van Morrisons á Sometimes I feel like a motherless child. Við skulum heyra eitt lag í viðbót af þessari ágætu plötu, það heitir Alan Watts blues.
Lag 19 (af Poetic champions compose) ALAN WATTS BLUES
Alan watts blues af plötunni Poetic champions compose frá árinu 1987.
Ári síðar steig Van Morrison svo skrefið til fulls og sendi frá sér hreinræktaðan írska tónlist . Hann fékk til liðs við sig írska þjóðlagabandið The Chieftains og saman hljóðrituðu þeir plötu sem nefndist Irish heartbeat. Öll lög plötunnar eru írsk þjóðlög utan tvö eftir Van Morrison. Við skulum heyra írska þjóðlagið Carrickfergus í flutningi Van Morrisons og The Chieftains
Lag 20 (af Irish heartbeat) Carrickfergus.
Þarna heyrðum við írska þjóðlagið dapurlega Carrickfergus. Ekki eru öll lög plötunnar jafn döpur og því til sönnunar er hér smellið lag sem heitir, I´ll tell me ma.
Lag 21 (af Irish heartbeat) I´ll tell me ma.
Af plötu Van morrison og The Chieftains, lagið I´ll tell me ma.
Þessi plata kom út í júlí 1988. Ári síðar leit enn eitt meistarastykkið ljós dagsins, sú marglofaða plata Avalon sunset. Á þessari plötu rekur hvert gæðalagið annað, og ef vel ætti að vera þyrftum við að spila alla plötuna. Þarna söng Cliff Richard með honum lagið Whenever God shines his light og þarna er lagið sem Rod Steward tók uppá sína arma, Have I told you lately. Þessi plata náði þrettánda sæti breska listans. Við skulum heyra tvö log af þessari ágætu plotu, fyrst Coney Island og síðan I´m tired Joey boy.
Lög 22 og 23 (af Avalon Sunset) CONEY ISLAND, I´M TIRED JOEY BOY.
Þarna heyrðum við tvö lög af plötunni fínu Avalon sunset frá árinu 1989 , Coney Island og I´m tired Joey boy. Á þessari plötu lék með Van Morrison Hammondorgelleikarinn snjalli Georgie Fame og sér ekki enn fyrir endann á samstarfi þeirra. Það má segja að þessi plata sé einn sálmur frá upphafi til enda. Have I told you lately er einn allsherjar óður til almættisins, Whenever God shines his light og When will I ever learn to live in God eru titlar sem segja margt. Í nóvember þetta sama ár , á hljómleikum í New York, trítlar uppá sviðið til hans, hans aldni vinur og Búggímeistari, John Lee Hooker og saman taka þeir Boom Boom og It serves me right to suffer.
1990 kemur svo loks út best of plata með Van Morrison og hefur sú plata selst í einhverjum milljónum eintak og er enn í fullri sölu. Um haustið 1990 sendir svo Morrison frá sér plötuna Enlightenment og náði hún að klifra uppí fimmta sæti breska listans. Enn og aftur var Morrison orðinn meðal þeirra vinsælustu og hafa comeback hans orðið æði mörg.
Þegar vorið kom til Englands næsta ár sendi Tom Jones frá sér smáskífu sem nefndist Carrying a torch. Lagið var eftir Van og einnig önnur fjögur lög sem síðar komu út á samnefndri stórri plötu. Morrison spilaði einnig á þessari plötu Tom Jones og um haustið söng hann með John Lee Hooker á plötu hans Mr. Lucky, lagið I cover the waterfront.
Lag 24(af Mr. Lucky) I cover the waterfront.
John Lee Hooker og Van Morrison í blúsnum fína I cover the waterfront. Hammondspilari Vans, Gergie Fame hefur einnig sent frá sér sólóplötur og á einni þeirra, sem heitir Cool cat blues var Van Morrison með honum. Saman sungu þeir gamla Morrison standardinn Moondance.
Lag 25 (af COOL CAT BLUES) MOONDANCE.
Um haustið 1991 kom svo út tvöföld plata frá meistaranum og nefndist hún Hymns to the silence og einnig hún fór í fimmta sæti vinsældalistans. Þar tekur hann lagið sem Ray Charles hefur gert ódauðlegt, I cant stop loving you.
Lag 26. (af Hymns to the silence) I cant stop loving you.
Van morrison og I can´t stop loving you af tvöföldu plötunni Hymns to the silence. Í þessu lagi naut hann aðstoðar The Chieftains sem áður höfðu spilað með honum á Irish Heartbeat.
Alls konar tónlistarstefnur er að finna á þessum plötum, jass, blús, kontrý,sóul og írska tónlist. Þetta eru raunar þær stefnur sem Van Morrison hefur hvað oftast fengist við auk rokksins og ryþmablúsins. Heyrum eitt lag enn af Hymns to the silence, Quality street.
Lag 27. (af Hymns to the silence) Quality street
Quality street af Hymns to the silence frá árinu 1991. Næsta ár var frekar tíðindalítið hjá vorum meistara, en sama er ekki hægt að segja um árið þar á eftir. Í janúar 1993 er hann tekinn inn í þann eðla félagsskap, Rock and roll hall of fame, en vinur vor mætti ekki á hótel Astoria í New york þar sem seremónían fór fram. Í febrúar var hann með tónleika í Dublin og til að syngja sönginn um Gloriu kallaði hann til liðs við sig Bono og Larry Mullen úr U2, Johnny Cash, Bob Dylan, Elvis Costello, Steve Earle, Steve Winwood, Chrissie Hynde, Nanci Griffith, Jerry Lee Lewis og Kris Kristofferson. Gaman hefði verið að gæla við Gloriu þá.
Í Júní kemur svo út platan Too long in exile og fer hún uppí fjórða sæti vinsældalistans. Þar er Van Morrison í blús og ryþmablús buxunum sínum. Hér er stórskemmtilegur gripur og það sem kanski gerir hann svolítið öðruvísi en hinar plöturnar hans, er þessi ryþmablús og hversu mörg lög eru ekki eftir hann, heldur gamlir standardar. Enn vottar hann Ray Charles virðingu sína, með því að taka lag eftir Doc Pomus sem Ray hefur gert ódauðlegt. Lonely avenue.
Lag 28 (af Too long in exile) LONELY AVENUE.
Lonely avenue af Too long in exile. Á þessari plötu kemur John Lee Hooker enn við sögu. Saman kyrja þeir Gloriu. Á næstu plötu Van Morrisons, tónleikaplötunni A night in San Francisco birtist einnig gamli maðurinn með títtnefnda Gloriu. Heyrum lagið......
Lag 29. (af A night in san francisco).........
Þetta var lagið...........af tónleikaplötunni A night in San Francisco. Alveg mögnuð plata frá meistaranum.
24. júní 1995 kemur svo enn ein platan. Days like this. Enn og aftur heldur Morrison sig við fimmta sætið. Á plötuumslaginu má sjá Morrison ásamt tveimur hundum og hinni íðilfögru unnustu sinni Michelle Roca.
1996 kemur svo út jassplata, sem var einskonar samvinnuverkefni Morrisons og Gergie Fame. Hlaut sú plata misjafnar undirtektir og kanski er ekki hægt að telja hana með plötum meistarans. 1997 spilar hann og syngur inná plötu vinar síns John Lee Hooker ásamt því að senda frá sér plötun The healing game. Sú plata er hinn vænsti gripur, afslöppuð og vönduð. Sem fyrr nýtur hann aðstoðar George Fame og blástursleikarans Pee Wee Ellis sem lengi hefur starfað með honum. Við skulum heyra lag sem heitir því kunnuglega nafni Piper at the gates of dawn. Enn má greina keltnesk áhrif.
Lag 30. ( af the Healing game) Piper at the gates of dawn.
Þetta var af plötunni The Healing game og lagið Piper at the gates of dawn.
Í fyrra kom út tvöfaldur diskur frá Van Morrison sem heitir The Philosophers stone og inniheldur hann áður óútgefinn lög frá tímabilinu 1971 til 1988. Fínasta plata, en tímans vegna verðum við því miður að sleppa henni. Og núna í mars 1999 leit svo dagsins ljós nýjasta afurð kappans. Back on top nefnist hún og er hreint mögnuð hljómskífa. Þar spilar hann soul í anda Sam gamla Cooke og gamaldags rokk ásamt öðru fínu efni. Lagið Precious times hefur hljómað nokkuð oft hér á rás tvö undanfarið og er nokkuð að því að heyra það einusinni enn?
Lag 31 (af Back on top) Precious time.
Þetta var þriðji og síðasti þátturinn um írska tónlistarmanninn Van Morrison og bráðum fjörutíu ára tónlistar sögu hans. Vona ég að hlustendur hafi vel kunnað að meta tónlist þessa mikla manns. Guðni Már Henningsson heiti ég og þakka fyrir hlustunina.
Athugasemdir
Van Morrison ,, andstæðingur hverskonar eyturlyfja og alkohols ". Það kemur mér verulega á óvart vegna þess að ég hélt að hann hefði í gegn um tíðina verið nokkuð gefinn fyri sopann ?? Ég hlustaði á þessa þætti um meistarann á sínum tíma og gaman er að rifja upp textann hér aftur. Mættum við fá meira að heyra ???
Stefán (IP-tala skráð) 14.11.2007 kl. 12:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.