12.11.2007 | 16:51
Deep Purple in rock
Deep Purple in Rock
Chris Curtis fyrrum trommari í Searchers fékk bissnessmanninn Tony Edwards til að vera umboðsmaður fyrir sig eftir að hann hætti í The Searchers. Edwards fékk aftur á móti John Coletta, auglúsingahönnuð, til að fjárfesta í Curtis og hljómsveit sem þessi fyrrum trommari ætlaði að stofna. Fyrstur til að ganga í bandið var Jon Lord, sem þá var að störfum með hljómsveitinni Flowerpot Men, en þeir áttu meðal annars smellinn Lets go to San Francisco. Lord tók með sér gítarleikarann Ritchie Blackmore sem um þær mundir starfaði í Þýskalandi. Þetta var árið 1967. í febrúar árið eftir er sveitin formlega stofnuð og voru meðlimir þá Chris Curtis, fyrrum trommari sem söng, Jon Lord á hljómborð, Dave Curtis á bassa og Bobby Woodman á trommum. Þessi hljómsveit fékk nafnið Roundabout. Ekki varð þessi liðsskipan langlíf. Fyrrum trommarinn Curtis hætti sem og nafni hans bassaleikarinn og einnig Woodman trommari. Í staðinn komu Ian Paice trommari og söngvarinn Rod Evans og bassaleikarinn Nick Simper. 20.april 1968 kom hljómsveitin fram í fyrsta skipti og var það í Tastrup í Danmörku. Þá hafði verið skipt um nafn og Deep Purple varð fyrir valinu.
Sagan segir að amma Blackmores hafi haldið mikið uppá lag sem heitir Deep Purple og þess vegna varð nafnið fyrir valinu. Bandaríska hljómsveitin Vanilla Fudge var hin mikla fyrirmynd. Í maímánuði 1968 tóku þeir upp fyrstu stóru plötuna á átján tímum eftir að hafa skrifað undir samning við EMI. Fyrsta smáskífan kom út í september og var það endurgerð á lagi eftir Joe South og nefndist Hush. Lagið komst í fjórða sæti bandaríska listans en englendir sýndu því enga athygli. Mánuði síðar kom svo fyrsta stóra platan og heitir hún Shades of Deep Purple.sú komst í tuttugasta og fjórða sætið hjá Billboard og sem fyrr vissu englendingar lítið um Deep Purple. Í desember sendu þeir frá sér smáskífu með lagi eftir Neil Diamond, Kentucky Woman.
Í febrúar 1969 kom svo önnur stóra platan og nefndist hún The Book of Talysen. Sem fyrr voru enskir ekki tilbúnir fyrir Deep Purple en kanar gripu diskinn fegins hendi. Þegar þriðja stóra platan kom út, en hún nefnist einfaldlega Deep Purple kvöddu þeir Rod Evans söngvari og Nick Simper hljómsveitina. Þá gengu til liðs við Deep Purple bassaleikirinn Roger Clover og söngvarinn Ian Gillan. Í september þetta sama ár tóku þeir upp Concerto for Group and Orchestra eftir Jon Lord með Royal Philharmonig Orchestra í Royal Albert Hall og gáfu þetta síðan út í byrjun árs 1970. þá tóku bretar við sér og platan komst á enska listann og náði hæst 26. sæti. Í ágúst kom svo út stóra platan Deep Purple in Rock.
Platan kom sem sagt út í ágúst mánuði árið 1970 og nú tóku bretar við sér fyrir alvöru. Platan komst í 4. sætið og var heilar 68 vikur á listanum. Platan vakti alveg gífurlega athygli, því þarna var eitthvað alveg nýtt á ferðinni. Svona rokk hafði ekki heyrst áður. Það má segja að með þessari plötu og fyrstu plötu Led Zeppelin hafi þunga rokkið komist á laggirnar. Það var eiginlega Ritchie Blacmore sem á heiðurinn stærstan af tilurð þessarar plötu. Eftir að fyrstu stóru plöturnar höfðu vakið litla athygli, fannst Blackmore nóg komið og gítarrokkið varð lifandi. Ásamt því og kröftugri rödd Gillans svínvirkaði tónlistin.
Á Englandi einu saman seldust yfir milljón eintök. Í kjölfarið fylgdu óteljandi bönd sem vildu gera eins og feta í fótspor þessara nýju goða. Sérstaka athygli vakti lagið Child in Time og segja má að það sé komið í mjög svo þröngan hóp laga sem telja má til ofurklassískra. Lagið byrjar ofur blíðleg og Ian Gillan syngur og þenur raddböndin sem aldrei fyrr né síðar. Lagið vefur síðan uppá sig þartil í lokin að fullnægingunni er náð.Child in time af Deep Purple in Rock, var hin mikla epíska tónsmíð Blackmores, en þeir Deep Purple meðlimir eru reyndar allir skrifaðir fyrir laginu sem og öllum öðrum lögum plötunnar. Flight of the rat heitir næsta lag og er fínt tóndæmi um hinn nýja rokkstíl Deep Purple. Lagið er tæpar átta mínútur að lengd og Blackmore og Jon Lord hljómborðsleikari taka alveg fantafín sóló í þessu mikla rokklagi.
Deep Purple útsetja og pródúsera plötuna sjálfir en upptökumenn voru þeir Andy Knight, Phil McDonald og Tom Bender. Næsta lag er gítarrifflagið Into the Fire og síðan kemur Living wreck en lokalagið heitir Hard loving man
Platan hefur verið endurútgefin ótal sinnum og vegleg útgáfa kom út 1995 á 25.ára afmæli plötunnar. Þar var hellingur af aukalögum og rímixum sem gera gripinn mjög svo áhugaverðan
Athugasemdir
Snilldar plata og snilldarband..
Björn Jónsson (IP-tala skráð) 12.11.2007 kl. 17:28
Elska þessa pistla hjá þér Guðni.
Marta B Helgadóttir, 12.11.2007 kl. 17:29
Þetta er verulega góð plata og makalaust að 37 ár séu síðan hún kom fyrst út jafn fersk sem hún hljómar. Lagasmíðar, útsetningar og hljóðfæraleikur í afbragðsflokki.
Þórður Víkingur Friðgeirsson (IP-tala skráð) 12.11.2007 kl. 20:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.