Klakki og Nína Björk Elíasson

 

Mig langar til að segja ykkur frá söngkonunni Nínu Björk og hljómsveitinni Klakka. Því miður hefur tónlist þeirra farið fyrir ofan garð og neðan hjá mörgum landanum.

 klakki

Nína Björk Elíasson er söngkona hljómsveitarinnar Klakki. Hún er borin og barnfæddur Íslendingur, fædd í Reykhólasveitinni en hefur búið í Danmörku um áraraðir. Faðir hennar er Sigurður Elíasson, sá hinn sami og orti vísuna um litlu fluguna sem Sigfús Halldórsson bjó síðan til lag við. Eftir að hafa lokið stúdentsprófi hérlendis, hélt hún til Danaveldis í tónvísindanám. Hún ílentist þar og hefur starfað við söng- og talkennslu þarlendis ásamt því að reka hljómsveitina Klakka með gítarleikaranum  Hasse Poulsen.

Nína Björk og Lasse stofnuðu Klakka árið 1992.  Í upphafi ferilsins léku þau aðallega íslensk þjóðlög og spunnu einnig útfrá nýjum íslensku ljóðum. Síðan fór Hasse að semja lög við kveðskap dönsku skáldanna Lene Henningsen og Simon Grotrian og Nína Björk átti í fórum sínum lög sem hún hafði sett saman við ljóð nöfnu sinnar Nínu Bjarkar Árnadóttur.

Einsog fyrr sagði kom fyrsta plata Klakka út árið 1995. Ásamt þeim Nínu opg Hasse spila á diskinum Maria Bisgaard sellóleikari og Martin Bregnhöj ásláttarleikari. Geisladiskurinn Sortna þú ský hlaut afbragðsgóða gagnrýni, meðal annars í Danmörku að sjálfsögðu, einnig í Þýskalandi, Svíþjóð og hér uppá Fróni. Sungið er til skiptis á íslensku og dönsku. Þau Nína og Hasse ákváðu síðan að diskur númer tvö yrði eingöngu á íslensku og þá með nútímakveðskap.

Önnur plata Klakka, Í kjól úr vatni kom út árið 1999 og færeyska plötuútgáfan Tutl gaf út. Plötunni var dreift um Evrópu og einsog sú fyrri hlaut hún góða gagnrýni. Ásláttarhljóðfæraleikarinn  Martin Bregnhöi var enn með þeim Nínu Björk og Hasse Poulsen í Klakka og bassaleikarinn Ólafur Guðnason hafði bæst í hópinn, en hann er frændi söngkonunnar.

Eftir útkomu disksins var Klakka boðið til Þýskalands á Volk und Tanz Festival sem haldið er í Rudolfstadt. Þangað fóru þau sem  menningarfulltrúar Reykjavíkurborgar. Klakka var gríðar vel t ekið í Þýskalandi og eftirspurn eftir diskum þeirra jókst að mun. Þýska dagblaðið Frankenpost nefndi hljóðfæraleik Klakka sem einn af hápunktum hátíðarinnar.

Eftir þessa frægðarför til Þýskalands vöknuðu danskir til lífsins. Þó Klakki hafi fengið afbragðsgagnrýni í Danmörku sem víðar, hafði danskur almúgi látið hljómsveitina að mestu leiti framhjá sér fara. Hvað er þá hægt að segja um okkur mörlanda!

Nú var Klakka boðið á dönsk festivöl og einnig voru þau með eitt lag á þriggja diska safni sem nefnist Music in Denmark og er gefið út árlega tilað kynna danska tónlist erlendis.

Nína Björk er hámenntaður söngvari og segist hafa gaman að því að láta reyna á röddina. Stundum syngi hún lögin sín alein og hafi þá fengið þau viðbrögð heiman að, að söngurinn minni á gamlan íslenskan þjóðlagasöng, en fráleitt sé hún að reyna slíkt.

Reyndar segist hún hafa sungið í kirkjukór heima í Reykhólasveit og hver veit nema eitthvað af gamalli íslenskri tónlist hafa þá grafið um sig í henni.

Árið 2001 kom svo út þriðja plata Klakka, Lemon River. Og hér kveður við nýjan tón. Kvæðin er forn kínverskur kveðskapur í frjálslegri túlkun Klakka, og sunginn á ensku. Og rafmagnsgítar kveður sér hljóðs í fyrsta sinn í tónlist hljómsveitarinnar. Lögin eru sem fyrr smíði Nínu Bjarkar Elíasson og Hasse Poulsen.

Nýr bassaleikari er kynntur og sá heitir Henrik Simonsen og trommarinn er Lars Juul. Og sveitatónlistin er eitthvað að kíkja fyrir horn hjá Klakka!

Eitt sterkasta lag plötunnar er hið frábæra Since You´ve gone. Þar haldast í hendur tilkomumikil tónsmíð, frumleg útsetning og frábær söngur Nínu Bjarkar Elíasson.

Einsog fyrr sagði eru lögin eftir þau Nínu Björk Elíasson og Hasse Poulsen og ljóðin forn kínverskur kveðskapur. Textarnir fjalla um lífið, ástina, nærveru dauðans, bardaga, náttúruna og að sjálfsögðu um nokkra dreka. Og þau Nina og Hasse koma einnig víða við í tónsköpun sinni. Það gætir áhrifa frá íslenskri og norrænni þjóðlaga hefð, bandarískri sveitatónlist, spuna og djassi og blúsinn er ekki langt undan.

Einsog tvær þær fyrstu hefur þessi einnig hlotið afbragðsgóða dóma. Platan vakti athygli í heimstónlistargeiranum, hér í Evrópu sem og í Bandaríkjunum. Nína Björk þýddi þessa gömlu kínversku kvæði yfir á ensku.

Hún gerði fleirra en að semja tónlist og syngja á þessari plötu. Hún fékk lánað ævafornt stofuorgel og spilaði á það af stakri snilld. Og það gerir lítið til þó einn og einn tónn sé falskur. Það er ekki nóg að Nína Björk sé hámenntaður söngvari, Hasse Poulsen er einnig víðlærður gítarleikari og tónskáld. Þegar hann er ekki að spila með Klakka fæst hann mikið við spunatónlist og hefur spilað sinn spuna vítt og breitt um heiminn. Klakki kom til Íslands árið 1997 og hélt hér tónleika.

Líktog önnur plata Klakka, er Lemon River gefin út á því færeyska merki Tutl, sem tónsnillingurinn Kristian Blak er í forsvari fyrir. Sá hefur lyft þónokkrum Grettistökum en það er ekki pláss fyrir skrif um hann hér og nú. Kanski síðar..

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gulli litli

Þetta er eitthvað sem ég verð að skoða, hef aldrei heyrt minnst á þau!

Gulli litli, 6.11.2007 kl. 12:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband