Gamall útvarpsþáttur...Dylan og trúin.

dylanFyrir einhverjum árum, um páska, gerði ég útvarpsþátt um Bob Dylan og trúargöngu hans. Ég var að fletta í gömlum pistlum og rakst þá á þetta handrit. Mér datt í hug að vinir mínir í Dylanmafíunni hefðu gaman að því að lesa það svo hér birtist það. Kanski hafa fleiri en Dylan grúskarar gaman að því að lesa þetta, það er verst að ég get ekki spilað lögin hérna en ef þið eigið Dylan diska þá megið þið gjarnan spila lögin sem ég tiltek í textanum....um leið og þið lesið.. Vonandi hafið þið gaman að.. 

Lag 1 With God on our side.7.07

Góðan dag og gleðilega páska. Ég heiti Guðni Már Henningsson. Fyrir nokkrum misserum síðan fékk ég þá hugmynd að gera útvarpsþátt um  trú og trúarlega tónlist Bob Dylans. Þegar þessi hugmynd fæddist fannst mér hún dágóð en fljótlega fóru þó að renna á mig grímur og það fleiri en tvær. Auðvitað var ég kunnur tónlist Dylans og textum að ég hélt. En fljótlega kom þó annað í ljós. Á nánast hverri plötu meistarans eru biblíutilvitnanir, bæði ljósar og leyndar. Það er auðséð að strax á unglingsárum var Dylan orðin vel að sér í Biblíufræðum.  Í upphafslagi þessa þáttar, sem nefnist With god on our side, í liði með Guði, tiltekur Dylan ýmsa hluti sem hafa, eða þykjast hafa Guð í liði með sér. Landið, þar sem hann bjó í æsku var í Guðsliði, ættlandið sömuleiðis, þó frumbyggjarnir hafi verið stráfelldir af byssumönnum sem voru með Guð á vörunum, því þú telur ekki líkin ef Guð er við hlið þér. Niðurstaða Dylans er þó sú að ef Guð er með okkur stöðvar hann næsta stríð. Á sömu plötu, The times they are a-changin´sem kom út í janúarmánuði 1964, er að finna annað lag sem hefur beinar biblíuívitnanir. When the ships comes in er í raun túlkun Dylans á himnaríki á jörð sem koma mun er Kristur kemur í annað sinn og Guðs ríki verður á jörðu sem og himnum. Allt hið illa verður yfirunnið og Goliat verður sigraður í eitt skipti fyrir öll. Það er einnig auðheyrt að Dylan er vel lesinn í Opinberunarbókinni.

Lag 2 When the ships come in 3,18

When the ships come in af The times they are a-changin´. Um líkt leyti samdi Dylan annað lag sem hefur svipaðar pælingar. Þetta lag kom þó ekki út fyrr en í október 1985 í þriggja diska safni sem nefnist Biograph. Það nefnist Lay down your weary tune og segir svo í einu erindinu:

Struck by the sounds before the sun

I knew the night had gone

The morning breeze like a bugle blew

Against the drums of dawn.

Lay down your weary tune 4.36.

Þetta var lagið Lay down your weary tune. 1965 sendir Bob Dylan svo frá sér plötu sem átti eftir að hafa mikil áhrif á rokkveröldina. Bringing it all back home heitir platan og Bob Dylan var orðinn rafmagnaður, að hálfu leyti. Önnur hlið plötunnar var semsagt rafmögnuð en hin á hefðbundinn Dylan hátt, það er að segja kassagítar og munnharpa. En það allt saman er allt önnur saga og sú verður ekki rakin hér. Enn er biblían drengnum hugleikin og raunar er það svo að þannig hefur það alltaf verið. Aldingarðurinn Eden verður honum að yrkisefni og hann semur ljóð og lag sem hann kallar Gates of Eden. Textinn er súrrealískur en biblíuívitnanir eru bæði ljósar og leyndar.

Gates of Eden 5.42.

Þetta var lagið Gates of Eden  af Bringin it all back home sem kom út í marsmánuði á því herrans ári 1965. Platan Freewheelin Bob Dylan var sú plata sem kom Dylan á alheimskortið. Maí mánuður á árinu 1963 er því merkilegur í tónlistarlegu tilliti. Þá heyrði heimurinn fyrst af manni sem margir vilja meina að sé merkilegasti tónlistarmaður tuttugustu aldarinnar. Á þessari plötu er Jesús ekki fjarlægur. Í meistarastykkinu Masters of War heldur Dylan því fram að stríðsherrarnir fái ekki einusinni fyrirgefningu frá Kristi því gjörðir þeirra sé þvílíkar og ægilegar  að þeirra bíði ekkert annað en algjör dauði og að hann sjálfur, þeas. Dylan ætli að standa á gröf þeirra þartil hann sé þess fullviss að þeir séu örugglega dauðir.

bob dylan 3Masters of war.  4.34.

Eftir að hafa sent frá sér plötuna Blonde on blonde lenti Dylan í mótórhjólaslysi einu dularfullu og var frá tónlistarheiminum í nokkurn tíma. Fyrir jólin 1967 sendi hann frá sér plötu sem kom mörgum manninum á óvart. Blonde on blonde hafði verið tvöfalt albúm með miklum lögum og margræðum textum.  Á John Wesley Harding afturámóti var einfaldleikinn ráðandi. Og biblían alltumlykjandi. Í titillaginu er Kristur sjálfur yrkisefnið en kemur reyndar ekki fram undir eigin nafni heldur er hann persónugerður í John Wesley Harding. Í textanum er John þessi vinur fátæka mannsins. Hann ferðaðist um landið með byssu í hönd, en aldrei nokkurntímann skaðaði hann fólk. Aftur á móti opnaði hann margar dyr, samanber í húsi föðurins eru mörg hýbýli. Menn reyndu að koma allskonar sökum á John Wesley en ekkert gekk. Ekkert var hægt að sanna því Hann gerði aldrei neitt rangt.

John Wesley Harding 2.57.

Þetta var titillag plötu Dylans John Wesley Harding. Í lagi af þessari plötu, sem Jimi Hendrix gerði ódauðlegt, All along the watchtower er krossfestingin yrkisefnið. Kanski frekar ræningjarnir tveir, the joker and the thieve, sem hengu með Kristi og samræður þeirra á milli.

All along the wathtower. 2.31.

All along the watchtower af plötu Dylans, John Wesley Harding.  Á þessari sömu plötu er að finna lag sem heitir Ballad of Frankie Lee and Judas Priest, þar, einsog í titillaginu sjálfu er Kristur persónugerður í líki annars manns.  Hér er frelsarinn kallaður Frankie Lee. Í lokin, eftir miklar samræður á milli söguhetjanna og andlát Frankie Lees, kemst Dylan að því að enginn ætti að vera þar, sem hann tilheyrir ekki. Í blálokin á laginu segir Dylan að ef þú sérð náunga þinn hlaðinn byrðum, þá áttu að leggja til líknandi hendi og létta undir með honum.

Ballad of Frankie Lee and Judas Priest

Það má með sanni segja að plata þessi, John Wesley Harding séu einhverskonar biblíusögur í nútímastíl. Nánast hvert einasta lag er með beinar eða óbeinar tengingar í biblíuna og þá helst Krist sjálfann. Kveðjum þessa ágætu plötu með laginu Drifters escape.

Drifters escape  2.52.

Á plötunni New Morning sem Dylan sendi frá sér 1970 má finna stutt lag sem heitir Father of Night. Þó að það sé stutt er það stórt. Kanski má segja að þarna sé komin fyrsta lofgjörðin sem Dylan samdi til hins almáttuga föður.

Father of night. 1.29.

Á plötunni Blood on the tracks frá árinu 1975 er Kristur enn kallaður til sögunnar. Þó platan sjálf sé í raun óður til konu Dylans, Söru eru líkingarnar sóttar í Biblíuna að miklu leyti. Margir aðdáendur Dylans sáu í honum sjálfum endurlausnara, en Dylan sjálfur hefur ávallt ýtt slíku frá sér og sagst eingöngu vera skáld tónlistar og texta. Þó líkir hann oft þjáningum sínum við það sem Jesús mátti þola. Heyrum lag sem heitir Shelter from the storm.

Shelter from the stormbob 1

Af þessari upptalningu má sjá að Bob Dylan þekkti vel sína Biblíu löngu áður en hann frelsaðist. Það gerðist síðan 1978. Hann fór í biblíuskóla og Jesús varð leiðtoginn og frelsarinn. Á tónleikum í San Diego í nóvember 1978 sagði Dylan: Ég spilaði hér á þessum sama stað fyrir ári síðan. Þegar leið að lokum þeirra henti einhver silfurkrossi uppá sviðið til mín. Einhver sem vissi að mér leið ekki vel. Venjulega tek ég ekki upp hluti sem er hent til mín. Ég leit á krossinn og sagði við sjálfan mig, þetta verð ég að taka upp. Sem ég og gerði og setti hann í vasann. Þennan silfurkross tók ég með mér til næstu borgar sem var í Arisóna. Mig minnir að það hafi verið Phoenix og mér leið jafnvel enn verr þar en í San Diego. Ég sagði við sjálfan mig, ég þarfnast einhvers í kvöld, sem ég hef ekki prófað áður, ég veit ekki hvað það er. Ég fór í vasann og fann þennan silfurkross og ef manneskjan sem henti honum til mín er stödd hér í kvöld vil ég þakka fyrir mig.

Changing of the guards. 6.32.

Changin of the guards af plötunni Street legal frá árinu 1978.

Nú var okkar maður í sögunni orðinn sanntrúaður kristinn maður. Og einsog gerist með alla menn, þá koma þeir tímar að spurningum þarf að svara. Og Dylan hefur það framyfir marga menn að hann kann að semja sínar spurningar. Í laginu Senor spyr hann Guð ýmissa spurninga sem brunnu þá í hjarta hans. Á hvað leið er ég, og hvernig kemur mér til með að líða. Svo segir hann í lokin einsog sannkristinn maður,

-I just gotta pick myself up off the floor

I´m ready when you are, Senor.-

Senor 5.43

Senor af plötunni Street Legal. Dylan sendir svo frá sér plötu sem inniheldur eingöngu trúarlega söngva, enda maðurinn frelsaður. Slow train coming heitir platan og vakti feikna athygli og umtal. Ýmsir héldu að nú væri Dylan loksins orðinn kolruglaður og ekki lengur krónu virði. Aðrir sem fylgdu Jesú á hinum þrönga vegi stukku hæð sína í loft upp, ýmist í fullum hjálpræðisherskrúða eða án. Dylan var ekki að tvínóna við hlutina, annaðhvort fylgirðu Jesú eða að þú ferst. Hlutirnir voru ekki flóknari en svo. Heimsendir var hinumegin við hornið og Jesú legði brátt af stað öðru sinni til jarðar. Eitt var örugg, ef þú þjónaðir ekki Guði, þá þjónaðir þú ljóta kallinum.

Gotta serve somebody. 5.25.

Gotta serve somebody af Slow train coming.  Tónleikahald Dylans á þessum tíma var brösugt. Hann spilaði eingöngu sína trúartónlist og flestir áhorfendur púuðu á goðið. Því hafði hann

kynnst fyrr, þegar hann tók sér rafmagnsgítarinn í hönd og setti í samband. Á tónleikum í San Francisco, 13. Nóvember 1979 tilkynnti hann að þessir tónleikar væru undir eftirliti Krists.

I believe in you. 5.05.

Þetta var hinn gullfallegi sálmur Dylans, I believe in you. Í næsta lagi, Precious angel reynir sögumaður að sannfæra konu eina um ágæti kristindómsins. Og að það sé ekki til neinn guð nema Guð. Á einum stað segir Dylan. 

 My so called friends have fallen under a spell

They look me squarely in the eye and they say all is well

 Can they imagine the darkness that will fall from the high

When man will beg god to kill them and they wo´nt be able to die.

Precious angel. 6.30.

Precious angel af Slow train coming. Plötunni lýkur með spádómi um endurkomu Krists. Allt mun lúta Guði sem hefur eyru til að heyra og augu til að sjá. Þú þarft ekki að gráta, þú þarft ekki að deyja og þú þarft ekki að brenna. Þegar hann kemur verður hinu vonda útskúfað og hið góða mun ríkja. Heyrum lagið When He returns.

When he returns.4.30

Í júní 1980 sendi Dylan frá sér plötu sem heitir Saved, eða frelsaður. Þessi plata fékk slaka gagnrýni, bæði tónlistarlega og textalega. Tónsmíðarnar þóttu ekki burðugar og textarnir hálfgert svartagallsraus. Þó voru þeir í raun og veru bara ákall Dylans til almættisins. En fæst þessara laga hafa öðlast sess í ódauðlegu lagasafni meistarans og nánast aldrei heyrast þau. Dylansafnarar eru margir í heiminum og þetta er sú plata sem þeir setja sjaldnast á fóninn. Þó má finna þarna frambærileg lög einsog Solid rock og In the garden.

In the garden fjallar um Krist í Getsemane, í Jerúsalem og þegar hann læknaði blinda manninn, þegar hann reysti Lasarus upp frá dauðum og þegar hann sjálfur reis upp á þriðja degi.

In the garden -5.58

Shot of love kemur út í ágúst 1981. Sú fékk betri gagnrýni en Saved frá árinu áður. Enn voru þó sumir menn og þó aðallega kanski gagnrýnendur ekki sáttir við endurfæddan Dylan. Eitthvað hafði hann þó linast við að boða eld og brennistein. Á Shot of love má heyra eitthvert alfallegasta lag sem Dylan hefur samið Every grain of sand. Sálmurinn fjallar að einhverju leiti um feril Dylans sem frelsaðs manns. Gullfallegt lag sem myndi sóma sér vel í hvaða sálmabók sem væri.

Every grain of sand-6.11

Gagnrýnendur tóku svo sannarlega gleði sýna á ný er platan Infidels kom út í nóvember 1983. Menn töluðu um að hinn gamli góði Dylan væri snúinn aftur. Lagasmíðarnar voru orðnar sterkari en á þremur síðustu plötunum á undann. Boðskapurinn líkari því sem hann var á John Wesley Harding, prédikuninn ekki eins augljós. Það voru engin smámenni sem spiluðu á þessari plötu. Gítarleikarar voru auk Dylans sjálfs, þeir Mark Knopfler úr Dire Straits og Mick Taylor sem eittsinn var í Rolling Stones, á bassa var Robbie Shakespear og félagi hans, Sly Dunbar var á trommunum og á orgelinu var Alan Clark sem þá var í Dire Straits. Kristur var ekki langt undan í lögunum og í upphafslagi plötunnar er hann kallaður til sem Jokerman.

Jokerman 6.18.

Í þessu lagi, Jokerman  eru biblíutilvitnanir svo mýmargar að ómögulegt er að tína þær til. Sem dæmi, þá fann ég ritgerð uppá tuttugu og eina blaðsíðu á netinu, eingöngu um þetta lag. Í upphafi gaf Guð mönnunum jörðina og nú eru það þeirra reglur og lög sem gilda. Að vísu eru okkar vestrænu lög að miklu leyti byggð uppá kristilegu hugarfari og siðfræði okkar er kristileg og samviska okkar á að vera Guði kærkomin en enn vantar mikið uppá að gjörðir okkar séu Guði þóknanlegar. Þetta eru skoðanir margra og þær koma fram í texta Dylans við lagið License to kill.

License to kill 3.34

Það gefur augaleið að það er ekki hægt að fjalla ítarlega um Jesú Krist og Guð almáttugan í textum Dylans í tveggja tíma útvarpsþætti. Það væri nær að einhver tæki sig til og skrifaði vel lærða doktorsritgerð um efnið. Lengra verður ekki komist að sinni. Ég vona að hlustendur hafi haft gagn og gaman að þessari umfjöllun um Bob Dylan sem enn í dag gengur með Guði. Ég ætla að enda þessa umfjöllun með lagi þar sem Dylan einusinni enn persónugerir Krist í líki dauðlegs manns. Af plötunni Oh Mercy frá 1989 kveð ég með laginu The man in the long black coat. Ég heiti Guðni Már Henningsson og aftur óska ég hlustendum gleðilegra páska.

The man in the long black coat. 4.30.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir þetta Guðni,ég man eftir þessum þætti,hann var góður hjá þér.

Það mætti gera fleiri þema þætti með tónlist og textum Dylans.

Er að hlusta núna Modern Times live ,næstum öll,vantaar bara Someday Baby í frábærum hljómgæðum.

Antipodean Times

Bob Dylan

Modern Times LIVE - Oceania tour, Australia & New Zealand - August 2007



1 CD - 79.19



01 Thunder on the Mountain - Entertainment Centre, Sydney 16 August

02 Spirit on the Water - Vector Arena, Auckland 11 August

03 Rollin' and Tumblin' - Vector Arena, Auckland 11 August

04 When the Deal Goes Down - Entertainment Centre, Brisbane 13 August

05 Workingman's Blues #2 - Entertainment Centre, Adelaide 21st August

06 Beyond the Horizon - Civic Theatre, Auckland 27 August

07 Nettie Moore - Rod Laver Arena, Melbourne 17 August

08 The Levee's Gonna Break - Civic Theatre, Auckland 27 August

09 Ain't Talkin' - Burswood Dome, Perth 23 August



10 encore

11 Thunder on the Mountain

12 band intros

- Civic Theatre, Auckland 27 August



Ólafur Haukur (IP-tala skráð) 9.10.2007 kl. 15:52

2 Smámynd: Sveinbjörn Kristinn Þorkelsson

Þakka þér fyrir þessa upprifjun Guðni Már, mér finnst þetta vera góð samantekt og best þykir mér að þú ert það fróður og klár að benda fólki á hve mörg eldri lög Dylans eru annað hvort með kristnum tilvitnunum, eða bara trúarlegs eðlis.  T.d. hefur mér alltaf þótt Lay down your Weary Tune vera trúarsöngur.   Ég geri mér grein fyrir því að að sumu leiti er hann að vitna í arfinn (hinn kristna, um annan er ekki að ræða í USA -það má líklega segja að gyðinglegar rætur hans séu þarna í sama jarðveg, en hann var ekki alinn upp við strang gyðinglega trú - og það hefur e.t.v. opnað honum leið að hinum kristna arfi), en að öðru leiti lýsir það sterkri trúarhneigð að leita svona sterkt í þennan fjársjóð (er að hugsa árin fyrir 1978-79), hann las mikið í Biblíunni á þeim tíma sem hann var að semja John Wesley Harding lögin. Hvort það var á þeim árum eins og Joan Baze segir - að hann hafi varla getað samið svona góða mótmælasöngva nema hann hafi virkilega fundið til með/staðið með lítilmagnanum - en þó fór hann aldrei í neinar mótælagöngur o.s.fr. - og eins getur það auðvitað verið varðandi trúarlífið. 

Eitt er víst að hann tók um síðir afstöðu, eða lét felsast.  Varðandi Saved þá vil ég benda á að Dylan hefur leikið 3 lög mjög oft á tónleikum í gegnum árin, það eru Solid Rock, In The Garden og Saving Grace og jafnvel fleirri.  Að lokum vil ég nefna það að mér líkaði ofsalega vel að heyra endurhljóðblöndunina á Changing of the Guards á  þessu nýja  safni,  DYLAN.

Sveinbjörn Kristinn Þorkelsson, 12.10.2007 kl. 16:01

3 Smámynd: Guðni Már Henningsson

Takk kæru vinir fyrir frábæra viðbót.

Guðni Már Henningsson, 12.10.2007 kl. 23:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband