5.12.2008 | 10:41
Rúnar Júlíusson vinur minn er látinn.
Rúnar Júlíusson tónlistarmaður og útgefandi lést aðfararnótt föstudagsins 5. desember af völdum hjartaáfalls. Útgáfufyrirtæki hans Geimsteinn hélt árlega útgáfukynningu sína á veitingastaðnum Ránni fimmtudagskvöldið 4. desember þar sem listafólk útgáfunnar var saman komið. Rúnar var að fara á svið til að syngja og var að teygja sig eftir gítarnum þegar hann kenndi sér meins. Hann var fluttur á sjúkrahús þar sem hann andaðist.
Guðmundur Rúnar Júlíusson fæddist í Keflavík 13. apríl 1945, sonur Júlíusar Eggertssonar múrarameistara og Guðrúnar Stefánsdóttur Bergmann. Rúnar varð kunnur knattspyrnumaður á unglingsárum sínum og lék með Keflavíkurliðinu þar til hann sneri sér að tónlist. Rúnar var bassaleikari í Hljómum sem varð landsþekkt eftir að sveitin kom fram í fyrsta sinn 5. október 1963 í Krossinum í Innri Njarðvík. Rúnar varð fljótlega vinsæll söngvari og tónlistarmaður sem vakti aðdáun hvar sem hann kom. Hann starfaði í Hljómum þar til hann stofnaði Trúbrot með félögum sínum vorið 1969. Þegar Trúbrot hætti 1973 voru Hljómar endurreistir og stuttu seinna kom Lónlí blú bojs fram á sjónarsviðið. Rúnar og Gunnar Þórðarson stofnuðu Hljóma útgáfuna um þessar mundir sem gaf m.a. út plötur Lónlí Blú Bojs.
Rúnar og María Baldursdóttir lífstíðarförunautur hans stofnuðu hljómplötuútgáfuna Geimstein árið 1976, sem er í dag elsta hljómplötuútgáfa landsins með samfellda sögu.
Rúnar gerði nokkrar sólóplötur og starfrækti næstu árin hljómsveitina Geimstein. Hann stofnaði Áhöfnina á Halastjörnunni með Gylfa Ægissyni 1980 en starfrækti lengst af Hljómsveit Rúnars Júlíussonar, sem hét undir það síðasta Rokksveit Rúnars Júlíussonar. Hann stofnaði GCD ásamt Bubba Morthens 1991. Sú hljómsveit gaf út þrjár plötur sem nutu mjög mikilla vinsælda.
Árið 1982 settu Rúnar og María á laggirnar hljóðver á heimili sínu Skólavegi 12 í Keflavík. Það nefndist í daglegu tali Upptökuheimilið Geimsteinn. Rúnar starfrækti hljóðverið og útgáfufyrirtækið til hinsta dags. Hann gaf út um 250 hljómplötur með fjölda listamanna. Þar á meðal má nefna hljómsveitina Geimstein, Áhöfnina á Halastjörnunni, Maríu Baldursdóttur, Bjartmar Guðlaugsson, Þóri Baldursson, Deep Jimi and the Zep Creams, Hjálma og Baggalút. Fyrir fáeinum dögum kom út þriggja platna safnútgáfan Söngvar um lífið 1966-2008 þar sem Rúnar flytur 72 þekktustu lögin frá ferlinum.
Rúnar var einn dáðasti rokkari landsins og kom ævisaga hans Hr. rokk út 2005, sem Ásgeir Tómasson skrásetti.
Rúnar Júlíusson lætur eftir sig eiginkonuna Maríu Baldursdóttur, synina Baldur og Júlíus og 6 barnabörn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
5.12.2008 | 00:22
Girl from the north country.
Bob Dylan og Johnny Cash í The Johnny Cash Show. Hver var norðanstúlkan?
Well, if you're travelin' in the north country fair,
Where the winds hit heavy on the borderline,
Remember me to one who lives there.
She once was a true love of mine.
Well, if you go when the snowflakes storm,
When the rivers freeze and summer ends,
Please see if she's wearing a coat so warm,
To keep her from the howlin' winds.
Please see for me if her hair hangs long,
If it rolls and flows all down her breast.
Please see for me if her hair hangs long,
That's the way I remember her best.
I'm a-wonderin' if she remembers me at all.
Many times I've often prayed
In the darkness of my night,
In the brightness of my day.
So if you're travelin' in the north country fair,
Where the winds hit heavy on the borderline,
Remember me to one who lives there.
She once was a true love of mine.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.12.2008 | 22:02
Haukur Morthens og Erla Þorsteinsdóttir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
30.11.2008 | 23:32
John Hammond jr.
Þessi mikli blússnillingur tekur hér lagið Honest I do.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.11.2008 | 19:18
Meira RUV
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.11.2008 | 15:32
Einn dimmasti dagur RUV
Ég finn til með fólki sem misst hefur vinnuna. Ég þekki þetta ástand, ég hef sjálfur misst vinnu. Fólk tekur uppsögn persónulega sem er skiljanlegt og það spyr sig, af hverju ég? Og við hin sem héldum vinnunni spyrjum einnig, af hverju ekki ég? Og það skrítna við þetta er að við finnum fyrir skömm yfir því að halda sjálf vinnunni. Mig langar til að blóta þessu öllu í sand og ösku. Veit samt að það bætir ekki neitt. Gerir bara illt verra. Ég þarf að vinna úr þessari reiði minni og beina henni í réttann farveg. Standa upp á afturfæturna og gera eitthvað.. Það fyrsta sem ég get gert er að mótmæla með því fólki sem er svo duglegt að láta í sér heyra. Einn minn besti vinur Jan Murtomaa var látinn taka pokann sinn eftir góða og mikla þjónustu við RUV. Jan er einhver hæfileikaríkasti tæknimaður sem RUV hefur haft ´á launum, þó ekki háum. Hann er nánast með fullkomnunar áráttu þannig að allt sem hann snerti var gert eins vel og hægt var. Það er ekki hægt að vinna með betri tæknimanni. það fullyrði ég hér og nú. Ég skora á þá sem að málið varðar að draga til baka uppsögn Jans og jafnframt biðja hann afsökunar. Ég vil fá Jan aftur til RUV. Og það strax.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
27.11.2008 | 23:42
Leit
Beið eftir
hrópi
leit í norður
að pólnum
leit í suður
að pólnum
leit á Heklu Esju Kötlu jafnvel Kjós
beið eftir hrópi
beið eftir sársauka
leit í vestur
að sólarlagi
leit í austur
að sólarupprás
leit á björgin laugarnar mæðurnar jafnvel gúurnar
beið eftir sársauka
beið eftir hrópi
leit í hallann
beið eftir broti
leit í hryssinginn
beið eftir öskri
leit til himins
öskur
Guð.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
27.11.2008 | 20:41
Andvari
Í þögninni
kom tónninn ekki á óvart
allsráðandi varð
hugmynd þín
þrenningin ein
og tónninn sem lagði lífinu línur
héldust í hendur
frá þögninni
til andvarans
og hugmynd þín
varð okkar
þrenningin ein
varð allsráðandi
í tóninum
kom þögnin ekki á óvart.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.11.2008 | 22:27
Borgarafundurinn í Háskólabíói
Undanfarnar vikur, jafnvel mánuði hef ég ekki fundið fyrir því stolti sem ég fann hér áður yfir því að vera Íslendingur. En eftir að hafa horft á borgarafundinn sem haldinn var í Háskólabíói í kvöld fann ég að þrátt fyrir allt gæti ég verið stoltur. Leiftrandi gáfumenn héldu ræður og bentu á leiðir sem færar eru. Ræðumennirnir komu sínu miklu betur frá sér heldur en stjórnmálamennirnir sem til svara voru. Ég þakka fyrir að vera af sömu þjóð og þetta fólk og þið sem mættuð á fundinn, þið eruð frábær. Til hamingju Íslendingar fyrir að eiga svona frábært fólk. Ég held að þeir sem ræður fluttu og aðrir álíka myndu stjórna landinu miklu betur en þeir sem kosnir hafa verið til þess. Ég þakka ykkur fyrir, þið sem stóðuð að fundinum og ykkur sem mættuð. Vonandi horfðu hinir á útsendinguna og sannfærðust um að til er fólk hér á landi sem lætur ekki bjóða sér hvað sem og kemur fram og bendir á lausnir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
23.11.2008 | 01:16
Fjallið og dalurinn
Það var kvöld. Við gengum saman fjallabúinn og ég eftir þröngu einstigi í fjallgarðinum ógurlega með hvössu tennurnar tilbúnar að bíta í okkur. Það var fyrsti maí. Sólin var að setjast fyrir neðan okkur og þokuslæðingur huldi dalinn. Við vorum léttbúnir, nánast naktir, vel á okkur komnir. Ekkert gæti komið í veg fyrir að við næðum áfangastað. Einstigið var þröngt og lausagrjót talsvert. Það var farið að kula. Ég hafði farið að heiman með leyfi læknisins sem var farinn að treysta mér betur eftir því sem tíminn leið.Ég átti erindi hátt upp í fjallið. Fyrir stuttu síðan áðum við og fengum okkur heitt kakó. Þó það væri farið að kula fundum við ekki fyrir því, því gangan var erfið og öll uppí móti. Við gengum framhjá nokkrum fjallaenglum og köstuðum á þá kveðju en þeir létu sem þeir sæju okkur ekki. Við því var ekkert að gera. Mér varð hugsað til fyrsta ástarbréfsins sem ég skrifaði, það var til Nínu. Hvar skyldi hún vera í dag? Kanski beinaber nunna hinumegin skarðsins. Fallega liðaða dökka hárið væntanlega orðið öskugrátt og brjóst hennar hniginn. Þetta var ekki vel skrifað bréf. Uppfullt af orðskrúði sem ég skildi ekki sjálfur. Enda sendi ég það aldrei. Ég á það enn og geymi það undir steini úr hrundu borgarvirkinu. Læðist stundum þangað á kvöldin og les það, en ekki oft. Síðan þá hef ég skrifað mörg ástarbréf og vandað vel til þeirra enda skiluðu þau flest árangri. Sérstaklega gekk vel með Mónu en henni giftist ég síðar og við bjuggum saman í fimmtán ár, allt þar til hún varð undir snjóflóði og lést. Ég man að ég skrifaði bréfið til hennar með tékkneskum blýanti sem kostaði þrjár krónur. Ég skrifaði reyndar mörg ástarbréf á meðan ég var giftur Mónu en hún komst aldrei að því, því ég er alltaf eitthvað að skrifa. Það er ekki lengur hægt að fá svona tékkneska blýanta. Þeir voru gráir.Áfram höldum viðég og fjallabúinn að klifra einstigið. Okkur gengur vel og miðar hraðar áfram en við gerðum ráð fyrir. Við ættum að ná fyrir myrkur.Skrítið með þennan fjallabúa. Hann er búinn að búa í helli hérna í fjallinu alla sína æfi. Aldrei yfirgefið fjallið, aldrei komið niður í dalinn. Hann er með sítt grátt hár og mikið grátt skegg. Sterklega vaxinn. Hann gengur á undan og er í raun fararstjórinn í þessari ferð minni sem ég er búinn að undirbúa í nokkrar vikur. Ég sendi fyrirspurn til hans þegar ljóst var að ég fengi að fara. Einn sjúkraliðinn þekkti til hans. Fjallabúinn var lengi að ákveða sig en féllst svo að lokum á að fara með mér. Ég er viss um að hann hefur hvorki fengið né sent ástarbréf. Og þekkir væntanlega ekki til tékkneskra blýanta. En það ganga þær sagnir á hælinu að hann þekki sjálfan Guð sem býr í fjallinu hans. Ekki þessi eini Guð sem við tilbiðjum heldur Guð fjallsins, sá Guð sem skapaði þetta fjall og á það. En ég er ekki tilbúinn að trúa því, vegna þess að ég er ekki vissum að það sé til fjallaguð. Ef svo væri ætti fjallabúinn að þekkja tékkneska blýanta því á sinni tíð voru þeir þeir bestu í heimi. Ég vildi að ég hefði gifst Nínu, þá hefðu hlutirnir kanski orðið öðruvísi. Þó er það ekki víst, hlutir sem eiga að gerast gerast. Annars var Móna ágæt. Það styttist í áfangastað og ég er farinn að finna fyrir spenningi. Það var orðið lítið um engla og önnur dýr enda vorum við komnir talsvert hátt. Einstigið varð þrengra og brattara og langt fyrir neðan okkur voru þorpin að búa sig til hvíldar. Ég horfði beint niður á þau. Lengra í vestur var vatnið eina sem náði langt inn í önnur lönd. Ég hafði baðað mig þrisvar í því en var alltaf bjargað. Þannig var nú það.Ég hafði aldrei farið svona hátt upp í fjallið. En ég vissi þó að áður en að toppnum væri náð kæmum við að stökkpalli. Og við nálguðumst. Skyndilega snarbeygði einstigið fyrir hátt og mikið bjarg. Við þurftum að faðma klettinn til að komast framhjá. Hinumegin við klettinn sáum við stökkpallinn. Hann var byggður líktog svalir fram af fjallinu. Og ekkert fyrir neðan nema dimmur dalurinn í órafjarlægð. Við námum staðar og kíktum niður. Ég tók utan um fjallabúann, hélt honum að mér og síðan stukkum við. Stuttu seinna kom fjallabúinn í fyrsta sinnið í þennan fallega dal.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)