11.6.2008 | 23:33
Vísur fyrir svefninn
Þó að, eða vegna þess að nóttin er björt, svo björt að margir eiga í erfiðleikum með að sofna skelli ég inn einni vögguvísu. Það má raula hana fyrir börn, miðaldra menn og fallegar konur. Það má einnig raula hana í einrúmi.
Hann vakir okkur yfir
og verndar hverja stund
Hann sendir sína engla
er sólin fær sér blund.
Stjörnur strjúka vangann
og stundin, hún er blíð
ég veit að Jesús Kristur
er hjá þér alla tíð.
Blessa þú nú barnið
því búið er því ból
í nótt þá muntu eiga
hjá englaföður skjól.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.6.2008 | 00:51
MÁ.
Með vambfylli af útrunnum dögum er ráfað um eyðisanda á leið til hins hinsta svefns
einhversstaðar á leiðinni verður hrasað um löngu gleymdar minningar
sem eru þó ferskar og falleg bros setjast á skóna
tónlist liðins tíma lifnar við eitt andartak
og gamall söknuður rífur í hjartarætur
hvernig gat þetta ekki gerst?
af hverju er heilt úthaf á milli þess sem ekki var og ekki verður?
síðan verður haldið áfram röltinu til hins hinsta dags
með saltbragð á sprungnum vörum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
5.6.2008 | 16:27
Gíraffi gekk á land við Straumsvík
Sá fáheyrði atburður gerðist nú áðan að Gíraffi gekk á land við Straumsvík. Slíkt hefur ekki gerst í 127 ár eða allt frá því að Bíldudalsgíraffinn var felldur með lásboga af heimamönnum eftir margra vikna eltingaleik. Sá gíraffi er talin hafa komið frá Jan Mayen en sú eyja er skírð í höfuðið á íslenskri hljómsveit sem starfað hefur í nokkrar aldir en gítarleikari hennar, Ágúst Bogason er einn eftir af upprunalegu meðlimunum. Gíraffinn sem gekk á land við Straumsvík er talinn koma frá einni af suðurhafseyjum Swazilands þar sem hann gegndi ekki hrópum á íslensku né neinu öðru norrænu máli. Gíraffinn var fljótur að láta sig hverfa en hann tók strax á rás í átt til Bláfjalla. Er talið að hann stefni í átt að Litlu kaffistofunni sem er í Svínahrauni en strax er farið að tala um að kalla það úfna hraun Gíraffahraun. Hópur manna hefur lagt af stað til að reyna að fella dýrið en það sást snusa í átt að fólki og er því talið hættulegt. Safnað hefur verið saman hinum ýmsu skotvopnum til að nota við veiðarnar og má þar á meðal nefna fallbyssu sem lengi hefur staðið við Bessastaði, loftbyssu Lofts Jónssonar, gamla lásbogann sem notaður var er Bíldudalsgíraffinn var felldur og hríðskotabyssu sem fannst á vegg hjá dómsmálaráðherra. Fallið hefur verið frá því að reyna að fanga dýrið lifandi því deyfibyssa er ekki tiltæk. Sú eina sem til er á Íslandi er geymd í Sánkti Jósefsspítalanum í Hafnarfirði en það þykir of langt að fara. Fólk er beðið um að fara varlega ef það sér dýrið og ef það snusar í átt að því er ráðlagt að koma sér í burtu hið snarasta. Gíraffinn verður að öllum líkindum stoppað upp en einungis 25 menn á Íslandi geta gert slíkt. kjötinu verður eytt því Japanir vilja ekki kaupa það en neitun frá þeim barst nú síðdegis.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
28.5.2008 | 23:07
Aska illfyglis
Túnfætur vaða í villu og svíma og lítið sem
ekkert fær við þá ráðið því ekki er tekið á slíkum málum
þó að dimmt sé í mannabyggðum nú og sólin með hettupeysu
gefðu frið gefðu frið það er ekki til of mikils mælst
gaddavír á girðingar og múlbindið þennan flokk túnfóta sem traðka
sólarhringum saman á allt sem heilagt er
hvers á veikur morkinn maður að gjalda spyr sá er veit
en þegir með norðurljósunum
sem spegla sig í hverjum drullupollinum á fætur öðrum
sem nota bene eru þó gáraðir af stígvélaklæddum túnfótum
sem hamrast áfram flokkur eftir flokk
með vélbyssur til að mata fjöllin á
blýkúlum sykurkúlum
því okkar kúlur eru friðarkúlur og setjast á klossaða túnfætur
gefðu frið gefðu frið er það til of mikils mælst
herra jarðar
klæddu þessa klossuðu túnfætur í afainniskó
og splæstu einum arni á hverja fjölskyldu
þarsem brenna má ljótleikann upp til agna
og gerðu þessa túnfætur að ösku
illfyglisins.
Bloggar | Breytt 29.5.2008 kl. 17:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
25.5.2008 | 23:47
Fortíð með tröllum
Tröllin í fjöllunum skjalla alla kalla
og þá sérstaklega mig þar sem ég ligg í blómahrúgunni og heyri truntið
komdu til fjalla og þá skal ég segja þér
þá skulum við segja þér allt um konuna kófdrukknu
sem þú hittir fyrir þrjátíu árum síðan
niðrá höfn og þú vissir ekki í hvorn skóinn þú áttir að stíga
við korriróið skulum við segja þér frá annari konu sem þú hittir
í Færeyjum fyrir þrátíu og fimm árum síðan og þú
ert enn viss um að sé kona sem ætluð var þér
og ef við verðum að steinum
þá er það ekki vegna þess að sólin skein fyrir þig
heldur vegna þess að við höfum svo gaman að því að tala
og þá sérstaklega við þig því þú þekkir
fortíðina alltof illa til að geta
tekið mark á henni
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
19.5.2008 | 23:39
Steina á afmæli
Elsku besta Steina í Lejre í Danmörku á afmæli í dag, 20 maí. Þetta blessaða vorbarn er með sól í hjarta og sól í sinni. Elsku besti vinurinn minn, til hamingju með daginn og njóttu hans í botn. Þú hefur glatt ótal marga með tilveru þinni og ég fyrir mína parta er ríkur af því að þú ert besti vinur minn. Guð blessi þér þennan dag og alla þína daga.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
19.5.2008 | 00:32
Meyr
Ég hef ýmislegt að sýna þér ef þú átt mínútu aflögu
og er þá ekki að tala um nakinn líkama
eða hershöfðingja ælandi út úr sér orðum skömmum
og fyrirskipunum, ég gæti sagt þér frá og sýnt þér þá sem
hafa verið í bandinu hans Leonards Cohen,
ég gæti gefið þér blóm sem ætluð voru Hitler
þú sem aldrei hefur reynt að búa ein
þú sem aldrei getur gleymt
þú sem ert með fólk í örmum þér
viltu sjá alla útsýnisturnana mína
viltu sjá alla þá blessun sem í boði er
eða viltu sjá gröf móður þinnar
ef ég rata þangað enn
þúsundir smámynda af stórmennum hef ég í handraðanum
ef þú átt mínútu aflögu
ég úti að aka
ég með öllum Hansenum veraldar
ég að rífa í mig sjálfstæðið
og jafnvel mynd af okkur á lægsta punkti veraldar
ég get gefið þér mínútu af mínum tíma
því ég hef verið ótrúr
og ég hef logið
og ég hef betlað og grátbeðið og drukkið með keisurum
dansað með fuglum og séð menn fljúga
réttu út hönd þína og gríptu augnablikið nei gríptu eina mínútu
sjáðu betlarann með rauða krossinn á enninu
og biddu mig svo um meira
á meðan ég er svona meyr
einn í nóttinni
að reyna að vera frjáls.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
18.5.2008 | 14:49
Skófar
Sá glimta í frelsið sem mér áður var falið
og ég rétti út hönd og sál og þarf nú aðeins
að halda mér fast í náðina er sólin skín sem aldrei fyrr og myrkur grúfir undir og allt um kring
skýafarið er óútreiknanlegt og heimurinn sem ég skóp er fallinn að fótum fram
sá glimta í frelsið og Guð Guð Guð veittu mér það
veittu mér það sem ég ekki skil það sem ég ekki þekki og það sem ég ekki vildi
brekkan er brött í báðar áttir
og stígvélin frekar stöm svo ef það er eitthvað sem ég get notað
láttu mig vita
því ekki vil ég vera stopp í eigin skófari þó betra sé þar en neðanjarðar
ekki gráta því mitt er valið og ég veit að lygin er ekki til
þar sem þú ert þar sem þú ert vil ég vera.
Bloggar | Breytt 19.5.2008 kl. 20:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.5.2008 | 00:19
Dómur
Sá sem kemur nær, má búast við því að verða dæmdur
eftir hvaða bókstaf veit ég ekki
ástin mín það er gott að þú fórst, þú sleppur við dóminn
ég vil ferskan anda sem fer um stræti og torg
því ég heyrði aldrei í þögninni sem umlukti musterið áður en riddarinn kom
til að sækja það sem hann hélt sitt riddarinn með hamingjuna í töskunni
kallaði á ástina ástina en dómurinn
hékk yfir
tilbúinn að gleypa þann fyrsta spún sem nálgaðist með dauðann endurunninn úr sorpi frá
mökum að morgni
ekkert er nýtt undir rúminu nema fjarlægðin
sem gerir augun vot
fjarlægðin sem ráfaði út í hvert skot til að leita að
ástinni sem breyttist með boðaföllunum
svona á ekki að kveðja
glumdi í dómaranum ósýnilegum
ekki í hinum ferska anda sem blása á um torg
og gosbrunna
gerðum úr mörgum morgnum, kossum og syfjuðum draugum
sem geta ekki lengur skynjað fjarlægðina sem þræddi
hvert skot
ástin svona á ekki að kveðja
þó að það sé gott og hjartað skilur alla mennina sem þú áttir
sem skildu ekkert eftir ekki einusinni fjarlægðir eða augnskugga
þar sem hægt væri að fela sig
ekki koma nær svo dómurinn falli ekki
ekki koma nær
þó að ryðið sé farið að naga minninguna sem raunar
var öllum gleymd
ekki koma ekki setjast niður jafnvel þó að dyrnar standi opnar
því þú veist ekki hvað ég vil
og þú veist ekki hvernig dómurinn verður.
Bloggar | Breytt 17.5.2008 kl. 16:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
14.5.2008 | 23:30
Skáldaðu skáldmenni
Skáldaðu nú upp í eyðurnar sem eru að myndast
hjá hljóðlátum vörum, eyður sem engu eira
hlauptu þitt maraþon talandi í símann
með vaxandi líkþorn með sex strengja talanda
og það þarf ekki einhvern sem engan þekkir til að sjá í gegnum þetta bros
sem nær ekki í gegn og ekki hægt að hringja á sjúkrabíl
skáldaðu nú upp í eyðurnar sem skildar voru eftir af þeim bræðrum Kain og Abel
þegar þeir voru að þrífa blómabeðin og við, ég og þú höfum liðið fyrir síðan
eltu fótspor mín sem sjást ekki
á þungbúnum himni, sköpuðum af mér
til að fylgjast með gjörðum þínum Og kona
hleyptu heimdraganum svo ég geti skáldað
upp í eyðurnar sem mér voru færðar í dag á silfurfati
af ólíkum mönnum, flóttamönnum framtíðar
hjartað mitt æpir á hjarta þitt Og kona
æpir skrækir og þagnar síðan
er vinur minn sem eittsinn var
syngur fyrir mig um einmana mann á dánarbeði
ég vildi ég vildi ég vildi
skáldaðu fyrir mig skáldmenni
upp í eyðurnar sem eru að myndast í sprungunum sem eru að lengjast
fylltu uppí með hörðnuðum sjó með þéttri þoku
og spurðu mig svo um dótturina
sem ég á með Guði
og þá þarftu ekki að skálda upp í eyðurnar skáldmennið mitt
því þá skal ég syngja þér söng aftansöng
aftan úr grárri forneskjunni sem ég heyrði hjá einmana manni á dánarbeði
endur fyrir löngu fyrr í dag
slösuðum á óravíddum þreytunnar
á óravíddum þreytunnar
samt sem áður, fylltu upp í eyðurnar sem ná utan um mig faðma mig hvísla að mér
orðum frá aftansöng úr svartri forneskjunni
og þá verður allt slétt og ég fell
að fótum þér og ég skil skil skil.
Bloggar | Breytt 15.5.2008 kl. 00:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)