Færsluflokkur: Bloggar

Múrar

 krossfest ást

 

 

 

 

 

Þegar ekkert var allt
og heimur svo illa farinn að gullið var grátt
virtust ógöngurnar greiðar og fjölfarnar
og múrar vel hlaðnir hleyptu
öllu í gegnum sig

í sólskininu var úrhelli
og í logninu stormur
ekkert vakti yfir né allt um kring
þartil krossfest ástin hélt innreið sína 


The Sounds of Silence

 Það voru magnaðir tónleikar í Laugardalshöllinni í kvöld. Ég hef sjaldan skemmt mér jafn vel. Paul Simon fór á kostum, þvílíkur lagahöfundur og firnafínn söngvari. Hljómsveitin var stórkostleg. Einn af hápunktunum var þegar hann einn tók The Sounds of Silence, frábær flutningur og maðurinn er snillingur á gítar. Enn og aftur, stórkostlegir tónleikar og Guðbjartur tónleikahaldari; þúsund þakkir fyrir að fá paul Simon hingað til Íslands..

 


Gjáin

 gjá

 

 

 

 

Þar sem gjáin djúpa var
og hvítfyssandi sjórinn talaði tungum
var eitt sinn óbrúuð framtíð

nú mörgum árum síðar
hjalar sjórinn við sjálfan sig
gjáin enn óbrúuð og framtíðin
brátt orðin gömul


Í nótt

 ég þarfnast þín 2

 

 

 

 

 

Í nótt sem leið gleymdi sólin að setjast
í nótt sem leið þurfti ég ekki að hvílast
í nótt sem leið horfði ég á Guð í fyrsta sinn

ég sá hann í sólarlaginu, í fjallgarðinum
í marglitum himninum, í jöklinum
ég sá hann í hjartanu mínu

í nótt sem leið þurfti ég ekki að hvílast.


Hvítasunnukirkjan Mózaik.

 mozaic logo

 

 

 

Ég er í hinni nýstofnuðu hvítasunnukirkju Mózaik. Ekki er víst að allir kannist við þá kirkju enda ekki nema von þarsem kynning á henni hefur ekki verið mikil. Nú hefur Mózaik tekið á leigu hið stórkostlega hús Ými, fyrrum hús Karlakórs Reykjavíkur. Ýmir er eitt af fallegri húsum Reykjavíkur og víst er að starfsemin sem þar fer fram innandyra er þrunginn af Guðs kærleika. Samkomur eru á miðvikudagskvöldum kl. 20.00. Á heimasíðu Mózaik má lesa eftirfarandi:

Mozaik Hvítasunnukirkja var stofnsett á páskadag 2008 og er kirkjan hluti af Hvítasunnukirkjunni á Íslandi.

Mozaik er ætluð fólki á öllum aldri og af öllum gerðum. Öll eigum við það sameiginlegt að vera börn Guðs og þarfnast kærleika, fyrirgefningar, viðurkenningar og nærveru Hans. Allt þetta hefur Guð Faðir þegar veitt okkur og er það þrá Mozaik að allir fái að upplifa það.

Það sem einkennir Mozaik er einlæg þrá eftir því að þekkja Guð Föður og dvelja í kærleika hans til okkar. Kristin trú er ekki trúarbrögð, heldur samfélag við lifandi Föður, sem elskar og vill blessa allt okkar líf.

Þú getur líka fengið að reyna þennan kærleika Föðurins, kraft og lækningu Guðs í líf þitt. Við hjá Mozaik viljum hjálpa þér að uppgötva stórkostlegasta leyndardóm sem í boði er fyrir líf okkar. Við bjóðum upp á samkomur, námskeið, ráðgjöf, nærsamfélag í litlum hópum og marg fleira.


nafnið

Mozaikmynd er gerð úr mörgum og oft á tíðum marglitum steinflísum og er altaristaflan í Skálholtskirkju gott dæmi um slíka list hér á landi. Engin ein flís getur myndað heildarmyndina, en settar saman á réttan hátt, birta þær þá mynd sem listamaðurinn hafði í huga.

Guð hefur ákveðna mynd í huga þegar hann setur kirkju sína á laggirnar, hann vill að kirkjan opinberi og sýni Krist í allri hans dýrð. Enginn einn einstaklingur getur sýnt Krist á þennan hátt, en þegar ólíkt fólk með ólíkan bakgrunn kemur saman og leyfir Guði að gera myndina, þá birtist verkið fullklárað einn daginn.


Gíraffinn reyndist vera hrafn

hvítur hrafn Þetta er mynd af útfrymi sem Hulda Huldar tók í dáinu.

 

Eftir að hafa legið í dái í nokkrar klukkustundir í Hellisgerði komst Hulda Huldar sjáandinn frægi úr Hafnarfirði að því að huldudýrið sem sást fyrir skömmu í Hellisgerði hafi verið hrafn. Hún lýsti því sem hún sá í dáinu svona; Mér fannst sem ég stæði á öldutoppi nálægt Syðri syðri Streymoy og himininn var heiður og tær, ekki svona tær einsog ég er með heldur tær tær. Ég leit þrisvar til vinstri og fjórum sinnum aftur fyrir mig einsog á að gera í dái, fór með vísuna Afi minn og amma mín úti á Bakka búa..og heyrði þá skógarþröst tísta. Ég skildi það sem hann tísti og í lauslegri þýðingu sagði hann; mig langar í ánamaðka í morgunmat, hádegismat,kvöldmat og í snarl þar á milli. Þetta hljómar kanski sem argasta þvæla fyrir þeim sem ekki eru næmir einsog ég. En þar sem ég er mjög næm kona skildi ég hvað þrösturinn var að fara. Hann var að segja mér að gíraffinn í Hellisgerði væri ekki gíraffi heldur hrafn. Ég spurði hann til baka hvort þetta væri satt og þá brosti hann og spurði hvort ég væri ánægð. Stuttu seinna synti upp að mér selurinn Snorri og spurði hvort ég þekkti Thorhalla fjölmiðil en ég svaraði honum engu, Snorri er alltaf að reyna að koma sér á framfæri, þykist meiraðsegja vera frændi Stefáns í Litlu kaffistofunni sem er með bestu kleinur í heimi og últra gott kaffi. Eftir þetta vaknaði ég í hellisskúta í Hellisgerði og var þess fullviss að enginn gíraffi væri í garðinum heldur bara niftálfar, hafgúur, satjaxlar, þarmasvín, Hafnfirðingar, randaflugur, mýs og hrafn. Kom ég þessum skilaboðum til Georgs gírlausa höfuðsmanns hjá Landhelgisgæslunni og til De Gauls sem er aðalflugmaðurinn í franska lofthernum Luftvöfflur. En ef einhver rekst á hrafninn skulið þið hafa allan varann á ef hann geltir því það eru örugg merki um árásarhneigð


Er þriðji gíraffinn mættur?

 gíraffi að fela sig

 Hér er skyndimynd af gíraffanum sem Ástþór Kaldal tók í Hellisgerði. Myndin er í eigu hans sjálfs.

 

 

 

Kona nokkur hafði samband við fréttaritara og kvaðst hafa séð gíraffaspor í Hellisgerði í Hafnarfirði. Sporin voru mjög stór og útfrá meginsporinu hafi legið löng tota eða eitthvað sem líktist gíraffahálsi, þannig eru einmitt gíraffaspor. Einnig sagðist hún hafa séð gíraffa bregða fyrir í stutta stund eða einhverju sem líktist gíraffa. Dýrið hafi verið köflótt með mjög langan háls og ofan á þessum hálsi hafi legið mjög lítið höfuð. Ekki hafi dýrið verið líkt neinum álfi eða huldudýri en þau halda einmitt til í Hellisgerði. Konan sagðist hafa haft samband við Huldu Huldar sem er frægur sjáandi í Hafnarfirði og er frænka Strefáns sem rekur Litlu Kaffistofuna sem einmitt er staðsett í Gíraffahrauni og er með bestu randalínur á landinu svo ekki sé talað um kleinurnar, en Hulda hafi ekki borið kensli á slíkan álf eða huldudýr. Í Hellisgerði séu að jafnaði tifálfar, nitdýr, smájuxar, hafgúur, Hafnfirðingar, Riddararósir færeyskar, Liljurósir ólafskar, mýs og randaflugur. Enginn köflótt dýr með langan háls hafi sést í Hellisgerði, hvorki lifandi né látin. Því er talið óyggjandi að þarna sé kominn þriðji gíraffinn og fólk er enn og aftur beðið um að fara varlega, einkum og sér í lagi ef dýrið myndi snusa en það er talið öruggt merki um árásarhneigð. Georg Gírlausi formaður Landhelgisgæslunnar telur að þarna sé kominn afi hinna gíraffana sem komu á land við Straumsvík en afar líklegt má telja að afar ungra gíraffa elti uppkomin afkvæmi sín. Slíkt sé talið eðlileg hegðun á Suður Samóaeyjum sem liggja rétt við Vestmannaeyjar og Syðri syðri Streymoy sem er syðsta eyjan í Hríseyjarklasanum. Nú er svo komið að sérsveit lögreglunnar í Hafnarfirði og franskar orustuflugvélar ´samt stórum hópi miðla og sjáanda ásamt hollvinasamtökum Ríkisútvarpsins, Gíraffadeild eru að leita að dýrinu en einsog alþjóð veit er Hellisgerði gríðarstór garður þar sem hýrir Hafnfirðingar venja oft komur sínar. Fólki er ráðlagt að fara ekki inn í garðinn, ekki vegna hinna hýru Hafnfirðinga heldur vegna afans. Pólverjinn Szzzzzzxcsxzzzxszxzszxzswoskyosky sem einmitt sá gíraffa númer tvö heldur því fram að hér sé um fótspor fullorðins gíraffa að ræða en hann er einmitt vanur að sjá slík spor í heimalandi sínu. Hann hyggur nú á brottför af Íslandi.


Svefnlaus nótt

 svefnlaus nótt

 

 

 

 

 

 

Einsog um haustið þegar ég varð sautján
og himininn var í seilingarfjarlægð og gatan virtist endalaus
myrkur og ljós voru ekki andstæður
frekar en byrjun og endir
þannig er nú hádagur um miðja nótt
og draumar koma án fyrirvara
lífið er ekki í neinum tengslum við dauða
því framundan er ljós og myrkur
andlitin eru ekki lengur sviplaus og konan með klettabeltið
er orðin að stúlku á ný
barinn hefur opnað aftur og þangað inn fá aðeins
meðlimir að koma
vertu mér svo samferða
til heimalandsins á ný þú sem varst og verður til
og ekki til
síðan vöknum við
af svefnlausum nóttum


Annar gíraffi!!!!!

 

gíraffi étur egg

 Hér sést gíraffinn gæða sér á áleggi við Straumsvík

 

 

Undarlegt er á Íslandi þessa dagana. Fyrir örfáum dögum gekk gíraffi á land við Straumsvík og nú er annar kominn!! Sá gekk einnig á land við álverið í Straumsvík. Þegar Zczsxzxszcszxscsmovsky, pólskur starfsmaður álversins hugðist henda hádegismat sínum í sjóinn, en uppistaðan í þeim hádegisverði var gufusoðið kjötfars með mustarði og tómatmauki, sá hann gíraffa í flæðarmálinu að gæða sér á áleggi. Hann ráfaði á milli hreiðra og slafraði í sig álegg en þar sem Nonni, en svo er þessi pólski starfsmaður kallaður vissi að slík fæða er ekki holl fyrir gíraffa reyndi hann að fæla dýrið og kallaði gaz gaz gaz til að koma að því styggð. Styggð kom að dýrinu en þarsem fjaran við álverið er sleip hrasaði gíraffinn og virðist haltur nú. Gamalt hnjask hefur greinilega tekið sig upp. Í viðtali við Georg Gírlausa gíraffasérfræðing hjá Landhelgisgæslunni kom fram að hann telur að hér sé á ferð maki hins gíraffans sem kom að landi fyrir örfáum vikum síðan og heldur sig í Gíraffahrauni þar sem Litla kaffistofan er og Stefán rekur af miklum myndarskap, er með bestu kleinur á suðurlandi og randalínan er einstök. Ekki hefur enn tekist að ná í deyfibyssuna sem geymd er á Sánkti Jósefsspítalanum þarsem Hafnfirðingar eru enn að halda upp á hundrað ára afmælið sitt og sautjándi júní er á morgun runnu þessar hátíðir saman í eitt. Georg er á leiðinni til Straumsvíkur og ætlunin er að reka gíraffann í átt að Litlu kaffistofunni en einsog áður segir er þar að finna bestu kleinur í heimi. Georg ásamt fylgdarliði er vel vopnum búinn ef gíraffin skyldi snusa í átt að fólki en það er örugg vísbending um árásarhneigð. Heyrst hefur að nýstofnuð Hollvinasamtök Ríkisútvarpsins, Gíraffadeild ætli að fara á staðinn til að vernda dýrið fyrir ágangi forvitinna. Landhelgisgæslan hefur sent Óðinn, Ægi vitaskipið Albert og Maríu Júlíu á staðinn þar sem búast má við kálfum gíraffana en kálfar synda ekki eins hratt og fullvaxta dýr. Fólk er beðið um að þvælast ekki fyrir því hættuástand gæti aauðveldlega skapast. Heyrst hefur að jarðskjálftarnir undanfarið hafi lokkað gíraffana að Íslandsströndum en ekki mun vera flugufótur fyrir því.


Seint

 syndandi steinar

 

 

 

 

Þar sem steinarnir synda og svölurnar fljúga

þar sem stjörnurnar endurkasta einstaka fræum

frá blindri von

og hinn eineygði risi fellur að fótum fram

þar er vor tíð

því ekkert verður og ekkert var

steinarnir synda og svölurnar fljúga

og seint verður grasið grænt

enn er ég hinumegin.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband