Færsluflokkur: Bloggar
22.7.2008 | 16:43
Best varðveitta leyndarmál matargerðarlistarinnar!
Best varðveitta leyndarmál íslenskrar matargerðarlistar er staðsett í gistiheimilinu Langaholti á Snæfellsnesi. Ég var að keyra um þann dásamlega og undurfagra stað Snæfellsnes um síðustu helgi. Náttúrufegurðin þar er engu lík. Fjallgarðurinn, sveitirnar, fjaran og síðast en ekki síst sjálfur Jökullinn eiga sér hvergi hliðstæðu. Við ókum um nesið í kvöldsólinni og litirnir sem voru á boðstólum voru engu líkir. Jarðarlitirnir stórkostlegir og síðan fjöllin máluð undarlegum pastellitum og himininn yfir Snæfellsnesinu er....himneskur. Einhverntímann um kveldverðartíma fór hungrið að gera vart við sig. Við ókum upp að gistihúsinu Langaholt sem lætur skelfilega lítið yfir sér. Ekki vorum við viss um að þar væri hægt að kaupa eitthvað í gogginn en reiknuðum þó með að hægt væri að fá kaffi og í versta falli uppþornaðar kleinur. Er við komum inn í lágreista bygginguna tók á móti okkur þvílíkur matarilmur að aldrei höfðum við fundið áður slíkan ilm. Að sjálfsögðu var hægt að kaupa mat á staðnum og þvílíkur matur! Það kom uppúr dúrnum að tveir öndvegiskokkar voru á staðnum, nefnilega sjálfur Rúnar Marvinsson og Hafþór sem oft er kendur við dúóið Súkkat. Þeir þekkja Nesið einsog eigin bragðlauka en það voru einmitt þeir, öllufrekar Rúnar Marvinsson sem kom Hótel Búðum á kortið á sínum tíma. Við vorum leidd að borði í fallegum borðsal og fengum handgerðan matseðil í hendurna. Boðið var upp á forrétti og fimm eða sex aðalrétti auk eftirrétta. Allt voru þetta fiskréttir, keila, karfi, skötuselur og slíkt. Ég fékk mér karfa í dijon og maturinn var engu líkur. Ég hef aldrei áður fengið jafn góðan fiskrétt á æfi minni sem er orðinn talsvert löng í annan endann! Þvílíkur matur!! Við fengum mat fyrir fjóra og fjóra eftirrétti og borguðum fyrir þetta rétt rúmar tólf þúsund krónur, varlega áætlað myndi þetta kosta 20-30.000 þúsund krónur í höfuðstaðnum. Ég gef eldhúsinu á Langaholti 100 stjörnur af tíu mögulegum... Mér skildist á vertinum að Rúnar og Hafþór ætluðu að kokka á Langholti í allt sumar. Hráefnið fá þeir á nesinu sjálfu, Arnarstapa og í Ólafsvík og ef til vill fleiri stöðum. Akstur á löglegum hraða frá Reykjavík að Langaholti er um það bil ein og hálf klukkustund, mæli með að fólk skelli sér. Það á enginn eftir að sjá eftir því. Einnig eru leigð út herbergi á staðnum og eru þau hin huggulegustu. Mæli með Langaholti, ég fer þangað alveg örugglega aftur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
21.7.2008 | 23:29
Frið
Ég er ekki týndur
ég er ennþá til
ég er enn að bíða
eftir svari sem ég skil.
Allt er hljótt í heimi
og húmið dottið á
stjörnur strjálu ljósu
skima til og frá.
Væntingar og vonir
mér vísir gáfu menn
þögnin samt hún þreytir
ég þarfnast einhvers enn.
Sendu mér í svefni
sólarljós og frið
elsku þína alla
og eilíft sjónarmið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
21.7.2008 | 00:51
Góða nótt.
Ég lít hátt til himins
Herra, líkna mér
sendu þína ástarengla
með elskuna frá þér.
Þú ert æðstur,eilífur
alla elskar þú
sendu þína yndisengla
að efla mína trú.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
18.7.2008 | 22:04
Dansinn
allt var fullt af fegurð
en feigðarangan í vori
ég teigaði tæran himinn
en tapaði þínu spori
þú dansar við dökka nótt
og duflar við kvöldsins eld
en jöklar og jötnar hnigu
og játuðust þér öll kveld.
Bloggar | Breytt 19.7.2008 kl. 15:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
17.7.2008 | 15:01
Vera
Í skelfingarógn augnabliksins
er aflið var næstum því dáið
og ekkert annað að gera
en elska síðasta stráið
þá kom þessi heilaga vera
Ég var, ég er, ég verð þinn
þinn eilífi himneski friður
og ekkert annað að gera
en elska Guð og þú biður
-komdu mín heilaga vera
Nú óttast ég alls ekkert lengur
því allt er í hans hendi
og ekkert annað að gera
en elska það sem hann kendi
er kom þessi heilaga vera
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
17.7.2008 | 00:11
Fullklæddur
Í kvöldsvalanum varð mér reikað meðal naktra manna
sem þá stundina voru
að narta í vínber og eitt og eitt epli
undarlegt var að nektin var einhvernveginn fyrirséð
því fátt var fólkið og hitamollan talsverð
gíraffar, apar, fuglar, eðlur og höggormur
hvíldu sig í skugganum
og nutu veðurblíðunnar
einnig var á röltinu ósýnileg vera og
þegar ég horfði á nakta konu
fá sér eitt rautt delecious
tók ég eftir því að ég var fullklæddur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.7.2008 | 22:41
Mu
Ég gleymdi minningum mínum
og ég man ekki lengur neitt
ég þrífst á hugsunum þínum
og þrái nú það eitt
að heimta úr helju
hamingjunnar belju.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
12.7.2008 | 16:41
Örlög
Undarlegt þegar hugurinn getur ekki
borið mann hálfa leið
og maður er langt í frá sinnar eigin gæfu smiður
hvað þá ógæfu
ég get meira að segja ekki farið
öfugumegin fram úr rúminu
og þó kötturinn minn sé svartur
þvælist hann meira fyrir mér
en að skapa mér örlög
ég er blindur á öðru
og á bunka af bókum
-lífið gengur sinn vanagang.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
5.7.2008 | 02:53
Máttur
Ég trúði á mátt minn og megin
og meiraðsegja á ást
Hér var það öllum að óvörum
og ekkert um það að fást
ég yfirleitt gáði allsstaðar
en yfir þig sást.
Langar voru þær leitirnar
og lengi þurfti´ ég að kljást
við allslags lýð og ófögnuð
og aldrei þú fyrir mér lást
ég yfirleitt gáði allsstaðar
en yfir þig sást.
Ég þvældist um fjöll og firnindi
uns farartækið mitt brást
ég sá aðalinn og almúgann
og alltaf skal að þeim dást
ég yfirleitt gáði allsstaðar
en yfir þig sást.
Ég hentist yfir hóla og mel
og hélt að ég myndi nást
ég skrámaði mig á steinunum
og stundi og fann þá þjást
ég yfirleitt gáði allsstaðar
en yfir þig sást.
Ég kom svo hingað lafhræddur
og hélt ég þyrfti að slást
þá sá ég mátt þinn og megin
og meiraðsegja......ást
nú yfirleitt sé ég þig allsstaðar......
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
3.7.2008 | 23:38
Blind Boys of Alabama
Sjáið þessa ódauðlegu snilld.. Hér er trúarvissan í algleymingi. Ef þið þekkið ekki Blind Boys of Alabama, þá hvet ég ykkur til að hlusta á tónlistina þeirra og kynna ykkur sögu þeirra. Í Guðs friði.
Bloggar | Breytt 6.7.2008 kl. 22:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)